Skip to main content

Ari í Ögri og Baskavígin

Már Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

„Hefðu hvalveiðiskipin ekki strandað í Reykjarfirði aðfaranótt 22. september 1615 hefði auðvitað ekkert gerst annað en að þau hefðu snúið aftur til síns heima í San Sebastian eða Donostia, eins og hafði gerst haustin 1613 og 1614,“ segir Már Jónsson, prófessor í sagnfræði, sem átti aðild að bók um Spánverjavígin sem kom út fyrir fáeinum misserum. Már er í viðtali í þriðja þættinum af Fjársjóði framtíðar sem er að miklu leyti helgaður rannsóknum á hvölum frá fjölbreyttum sjónarhornum.

„Þau sumur hafði vitanlega kastast í kekki með hvalveiðimönnum og Strandamönnum,“ bætir hann við og má líklega tala um gagnkvæman yfirgang í því sambandi. „Þegar hinir skipreika menn fóru svo ránshendi um Jökulfirði, Ísafjarðardjúp og Dýrafjörð sáu heimamenn ekki annan kost í stöðunni en að fara að þeim og vega þá, fyrst við Fjallaskaga í Dýrafirði 5. október og síðan í Æðey og á Sandeyri við Djúp 14. október, að gengnum dómi í Súðavík sex dögum fyrr,“ segir Már.

Hann segir ekki auðvelt að finna einhlíta skýringu á þessum ódæðisverkum „en líklegast var um að kenna einskærri hræðslu við þessa menn og ímyndað athæfi þeirra næstu mánuði því að útilokað var að þeir kæmust af landi brott.“

Már Jónsson

„Hefðu hvalveiðiskipin ekki strandað í Reykjarfirði aðfaranótt 22. september 1615 hefði auðvitað ekkert gerst annað en að þau hefðu snúið aftur til síns heima í San Sebastian eða Donostia, eins og hafði gerst haustin 1613 og 1614.“

Már Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

Már segir að samtímaheimildir greini frá því að Ari í Ögri, sýslumaður í Strandasýslu, hafi veitt hvalveiðiskipunum leyfi til veiða, áreiðanlega sumarið 1614 og líklega sumarið eftir, gegn greiðslu. „Þetta vissu ráðamenn í Kaupmannahöfn og fundu að því við eigendur hvalveiðiskipanna sem hefðu átt að fá leyfi hjá höfuðsmanni á Bessastöðum. Ari kom hvergi nærri drápunum í Dýrafirði og vissi að öllum líkindum ekki af þeim þegar hann lét dæma skipverjana við Djúp réttdræpa í Súðavík 8. október 1615 á forsendum konungsbréfs frá 15. apríl og Jónsbókar því að þeir hefðu ekki leitað aðstoðar heldur rænt og ruplað.“ Már segir að Ari hafa kvatt saman hóp manna sem fór að Böskum í Æðey og á Sandeyri.

„Ef marka má frásögn Jóns Guðmundssonar lærða af þeim atburðum vildi Ari tvívegis þyrma nafngreindum mönnum, þar á meðal forsprakkanum Martin de Villafranca, en í bæði skiptin óhlýðnaðist einhver í hópnum og því fór sem fór. Jón lætur síðan að því liggja að Ari hafi slegið eign sinni á eigur hvalveiðimannanna. Því miður svara ekki varðveitt gögn því hvort hann skilaði einhverju í konungssjóð, sem honum bar að gera.“

Már segir að 26. janúar 1616 hafi Ari verið á Mýrum í Dýrafirði og látið ganga dóm um þá hvalveiðimenn, um 50 talsins, sem höfðu flúið og búið um sig í verslunarhúsum á Patreksfirði.

„Til stóð að drepa þá líka en óveður aftraði för og eftir örlitlar skærur hættu Ari og hans menn við. Segja má að í þessu máli öllu hafi Ari leikið tveimur skjöldum með því að veita hvalveiðimönnum leyfi til veiða en síðan fara að þeim en vafalaust sýndist honum sjálfum sem þær aðgerðir væru réttlætanlegar og nauðsynlegar út frá hagsmunum konungs og landsmanna,“ segir Már.

Baskavígin plakat
Íslandskort
Seglskúta og árabátar- hvalveiðar í norðurhöfum.
Teikning af mönnum á árabáti.
Landakort
Teikning af seglskútu
""