Skip to main content

Alheimurinn undir í rannsóknum

Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun

Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands er mörgum að góðu kunnur enda oft kallaður til af fjölmiðlum til að skýra fyrir almenningi þýðingu nýrra uppgötvana sem tengjast himintunglunum. Gunnlaugur er einn af lykilmönnunum í þriðja þættinum í röðinni um Fjársjóð framtíðar. Þar skýrir hann fyrir landsmönnum hvers vegna við sjáum norðurljós á himni en norðurljósin eru í háskerpu í þættinum og þau skoðuð frá mörgum ólíkum sjónarhornum.  Ekki eru margir sem vita við hvers konar rannsóknir Gunnlaugur fæst en hann helgar krafta sína að verulegu leyti svokölluðum gammablossum.

„Gammablossar eru öflugustu sprengingar og björtustu atburðir sem verða í alheimi. Þeir verða þegar mjög massamiklar stjörnur springa og kjarni þeirra fellur saman og myndar svarthol. Vegna þess hversu bjartir blossarnir eru þá sjást þeir úr mikilli arlægð, allt frá upphafsárum alheims. Þeir henta því líka vel sem tól til rannsókna í heimsfræði,“ útskýrir Gunnlaugur.

Sjónir Gunnlaugs og samstarfsfélaga beinast nú að eiginleikum vetrarbrautanna sem gammablossarnir verða í. „Þar sem allar stjörnur eru í vetrarbrautum gera blossaatburðir okkur kleift að finna mjög fjarlægar og daufar vetrarbrautir sem annars væri útilokað að greina með hefðbundnum leitaraðferðum. Þar með opnast möguleikar á að rannsaka þróun vetrarbrautanna sem hýsa blossana allt frá árdögum alheims, og þá sér í lagi lýsifallsins en það er stærðfræðileg lýsing á birtudreifingu safns vetrarbrauta,“ segir hann enn fremur.

Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður 

„Þar sem allar stjörnur eru í vetrarbrautum gera blossaatburðir okkur kleift að finna mjög fjarlægar og daufar vetrarbrautir sem annars væri útilokað að greina með hefðbundnum leitaraðferðum. Þar með opnast möguleikar á að rannsaka þróun vetrarbrautanna sem hýsa blossana allt frá árdögum alheims, og þá sér í lagi lýsifallsins en það er stærðfræðileg lýsing á birtudreifingu safns vetrarbrauta.“

Gunnlaugur Björnsson

Að sögn Gunnlaugs gefa gögnin vísbendingar um að mjög fjarlægar hýsilvetrarbrautir gammablossa, sem mynduðust þegar alheimurinn var yngri en um tveir milljarðar ára, séu mun daufari en þær vetrarbrautir sem nær okkur eru í rúmi og tíma.

„Þetta er mjög áhugavert og er grunnurinn að þeirri rannsóknaspurningu sem við erum að glíma við núna en þar erum við að smíða líkan þar sem reynt er að túlka þessar niðurstöður,“ segir Gunnlaugur. Gunnlaugur bendir á að hér séu á ferðinni grunnrannsóknir á eðli og eiginleikum alheimsins og á þróun stærri byggingareininga hans.

„Það má segja að viðfangsefnin geti ekki orðið stærri en alheimurinn sjálfur og því er þetta með stærstu rannsóknaspurningum sem um getur þótt svör við ýmsum þáttum rannsóknanna ha kannski ekki beina praktíska þýðingu fyrir daglegt líf okkar á jörðinni. Rannsóknirnar eru því liður í hinni endalausu þekkingarleit mannsins og lönguninni til að skilja alheiminn og allt sem í honum er,“ segir Gunnlaugur.

Norðurljós
Norðurljós