Skip to main content

Vísindavaka 2023

Vísindavaka 2023 - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. september 2023 13:00 til 18:00
Hvar 

Laugardalshöll

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Maurar og ávaxtaflugur, bangsaspítali og bragðlaukaþjálfun, íslensk tunga og nýjasta tækni, sjúkir sebrafiskar og lífið í sjónum við Ísland ásamt jarðskjálftavél er meðal þess sem vísindamenn Háskóla Íslands kynna fyrir gestum á hinni árlegu Vísindavöku sem fram fer í Laugardalshöll laugardaginn 30. september kl. 13-18. Hátíðin er öllum opin og ókeypis inn.

Vísindavaka er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night og hér á landi stendur Rannís að henni. Á Vísindavöku kynnir vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknaverkefni sín fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt á fjölda sýningarbása. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um störf þeirra við vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Fjölskyldan er í fyrirrúmi á Vísindavöku og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna heim vísindanna fyrir ungum sem öldnum.

Stór hópur vísindafólks og nemenda tekur þátt í Vísindavöku á vegum Háskóla Íslands og miðlar fjölbreyttu vísindastarfi af öllum fræðasviðum skólans. Auk ofangreinds geta gestir kynnt sér verkefni sem snerta farsæld barna, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi sem jafnréttismál, hlutverk ónæmiskerfisins og beina, sjónskynjun okkar, hvernig mál okkar breytist á lífsleiðinni, samspil manns og náttúru, nýsköpun í skólastarfi og snjallsímann sem ofurtölvu. Þá geta áhugasöm látið mæla stökkkraft sinn og styrk, kynnst skyndihjálp og hjartahnoði, spreytt sig í spurningakeppni í net- og tölvuöryggi, kynnt sér áhrif hopandi jökla á jarðskjálfta og eldvirkni á Íslandi, leikið sér í sýndarheimum, teiknað á tölvu og skoðað hvernig vatn er hreinsað með þrívíddarprentun. Þá verður hin sívinsæla Vísindasmiðja HÍ á staðnum með ótal tæki, tól og smiðjur fyrir alla fjölskylduna og Bangspítalinn opnar sérstakt útibú á staðnum.

Nánar um Vísindavöku

Maurar og ávaxtaflugur, bangsaspítali og bragðlaukaþjálfun, íslensk tunga og nýjasta tækni, sjúkir sebrafiskar og lífið í sjónum við Ísland ásamt jarðskjálftavél er meðal þess sem vísindamenn Háskóla Íslands kynna fyrir gestum á hinni árlegu Vísindavöku sem fram fer í Laugardalshöll laugardaginn 30. september kl. 13-18. Hátíðin er öllum opin og ókeypis inn.

Vísindavaka 2023