Stefnumót við sprotafyrirtæki Háskóla Íslands
Aðalbygging
Hátíðasalur
Fulltrúar sprotafyrirtækjanna Heilsugreind, Núnatrix, Risk og Taramar, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í stuttum erindum í Hátíðarsal skólans fimmtudaginn 19. maí kl. 12-13. Viðburðurinn er opinn öllum auk þess sem honum verður streymt á vef og samfélagsmiðlum Háskóla Íslands. Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni dagana 16.-20. maí.
Heilsugreind ehf. var stofnað 2017 og markmið þess er að hanna kerfi sem notar viðskiptagreind til að aðstoða við ákvarðanir í rekstri heilbrigðiskerfa. Sem dæmi um verkefni sem fyrirtækið hefur komið að er betri röðun skurðaðgerða og betra yfirlit um meðferð brjóstakrabbameinssjúklinga. Í erindinu mun Rögnvaldur Sæmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, fara yfir sögu og framtíðarsýn félagsins.
NúnaTrix ehf. er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð kennslutölvuleikja fyrir heilbrigðisgeirann. Slíkir leikir eru í vaxandi mæli þróaðir til að nota í sjúklingafræðslu, annarri meðferð sjúklinga og kennslu heilbrigðisstétta. Í erindinu mun Brynja Ingadóttir, framkvæmdastjóri félagsins, fjalla um tilurð fyrirtækisins, verkefni þess og rannsóknir fram til þessa og framtíðarsýn.
Risk ehf. var stofnað árið 2009. Það hefur smíðað hugbúnað í formi áhættureiknivélar sem metur sjálfvirkt áhættu einstaklinga með sykursýki á augnsjúkdómum og sjónskerðingu. Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Risk, mun í erindi sínu ræða vegferð fyrirtækisins, ávinning og áskoranir við að innleiða stafrænar heilbrigðislausnir og framtíðarhorfur
Taramar ehf. var stofnað árið 2010 og sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lífrænum og hreinum húðvörum sem hafa þann eiginleika að draga úr sjáanlegum áhrifum öldrunar. Í erindinu mun Guðrún Marteinsdóttir prófessor fjalla um uppruna Taramar og mikilvægi vísindalegra aðferða við að þróa ný náttúruleg efni sem styrkja og bæta húðina.
Fulltrúar sprotafyrirtækjanna Heilsugreind, Núnatrix, Risk og Taramar, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands, fjalla um áskoranir í starfi og framtíðarsýn í stuttum erindum í Hátíðarsal skólans fimmtudaginn 19. maí kl. 12-13.