Pernille Ipsen flytur hátíðarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar
Veröld - Hús Vigdísar
Auðarsalur
Pernille Ipsen, prófessor í sagnfræði við University of Wisconsin-Madison, flytur hátíðarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands í Auðarsal í Veröld, þriðjudaginn 17. maí kl. 15-17. Þessi viðburður er hluti af Íslenska söguþinginu 2022.
Fyrirlestur Pernille ber titilinn „My Seven Mothers & The Redstockings Movement in Denmark, 1970-1976“ en Pernille er m.a. höfundur bókarinnar Et åbent øjeblik: Da mine mødre gjorde noget nyt. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.
Bók Pernille fjallar um sjö konur sem hittust í sumarbúðum kvenna á Femø árið 1971 og ákváðu að halda hópinn eftir þessi fyrstu kynni. Þær bjuggu allar saman í miðborg Kaupmannahafnar næstu árin og léku mikilvægt hlutverk í Rauðsokkahreyfingunni sem þarna var að fæðast. Pernille ólst sjálf upp hjá konunum sem börðust fyrir kvenréttindum almennt sem og málefnum samkynhneigðra kvenna, og ögruðu viðteknum skoðunum um allt frá stöðu konunnar í samfélaginu til kynverundar. Pernille byggir bók sína á viðtölum við konurnar og fjölda persónulegra skjala, mynda og muna. Bók Pernille er ekki síst spennandi í ljósi æviskrifa því þarna fléttast hennar eigin upplifun og minningar saman við umfangsmikla viðtalsrannsókn og hefðbundnari heimildir. Þetta er vel skrifuð og frumleg rannsókn sem rekur sögu danskrar kvennahreyfingar á persónulegan hátt.
Pernille Ipsen, prófessor í sagnfræði við University of Wisconsin-Madison.