Fyrirlestur um eftirfylgni klausturreglna á kaþólskum tíma á Íslandi
Aðalbygging
Stofa 229
Mánudaginn 26. febrúar heldur dr. Steinunn Kristjánsdóttir fyrirlestur á málstofu í boði Guðfræðistofnunar í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Málstofan hefst kl. 11:40 og lýkur kl. 13. Yfirskrift fyrirlestursins er Fátækt og auðmýkt: Um eftirfylgni klausturreglna á kaþólskum tíma á Íslandi. Málstofan er öllum opin.
Því hefur verið haldið fram að fátækum hafi ekki verið sinnt í íslensku miðaldaklaustrunum, ólíkt því sem venja var í öðrum samtíða klaustrum í Evrópu. Rökin fyrir því að klaustrin á Íslandi hafi að þessu leyti starfað með öðrum hætti en almennt tíðkaðist innan kaþólskrar heimsmyndar eru einkum þau að engar ritaðar heimildir eru til varðveittar um fátækrahjálp á þeirra vegum. Í erindinu verða hins vegar færð rök fyrir því að almennum klausturreglum hafi verið fylgt í klausturhaldi hérlendis og þar á meðal reglum um fátækrahjálp, enda þótt ekki hafi varðveist sérstakir samningar við fátæka eins og aðra þjóðfélagshópa sem klaustrin sinntu. Tekin verða dæmi frá algengustu klausturreglunum, reglum Ágústínusar og Benedikts, og skoðað hvort þeim hafi verið fylgt í lífi og starfi innan íslensku klaustranna á miðöldum.
Dr. Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Steinunn hefur fengist við rannsóknir víða um land undanfarna áratugi, einkum þó á Austurlandi, og birt um þær greinar og haldið fyrirlestra jafnt hér heima sem erlendis. Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Steinunn kristnivæðinguna á Íslandi um og eftir aldamótin 1000. Doktorsritgerð sína varði hún við Gautaborgarháskóla árið 2004. Frá árinu 2002 hefur Steinunn einbeitt sér að rannsóknum á klausturhaldi hérlendis, fyrst með uppgrefti á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal en síðar með kortlagningu alls klausturhalds í landinu á miðöldum. Sögufélag gaf út bók hennar Sagan af klaustrinu á Skriðu árið 2012 og bókina Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir árið 2017. Báðar bækurnar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis. Sú fyrri hlaut einnig Fjöruverðlaunin í sama flokki árið 2013 og sú síðari Bókmenntaverðlaun félags bóksala árið 2017.
Steinunn Kristjánsdótti.