Skip to main content

Fjölskyldusaga frá fyrri hluta 19. aldar

Fjölskyldusaga frá fyrri hluta 19. aldar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. febrúar 2024 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur heldur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „Hann vill liggja dauður með og fyrir okkur“. Fjölskyldusaga frá fyrri hluta nítjándu aldar.

Málstofan er í stofu 311 í Árnagarði, þriðjudaginn 27. febrúar kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.

Um fyrirlesturinn

Þegar Páll Guðmundsson sýslumaður á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu dó frá konu og fimm ungum börnum árið 1815 virkjaði stórfjölskyldan á Héraði og í Vopnafirði net samhjálpar til að tryggja kjör ekkjunnar Malene Jensdóttur og barnanna. Það var þó ekki sársaukalaust. Yngsta barnið, nýfæddur drengur, fór í fóstur inn á Fljótsdal en vorið 1817 var elsti drengurinn, Páll Pálsson ellefu ára, sendur að Odda á Rangárvöllum. Þar tóku á móti honum til fósturs og í skóla guðfaðir hans Steingrímur Jónsson prófastur og kona hans Valgerður Jónsdóttir biskupsekkja. Brottför Páls markaði upphaf viðamikilla bréfaskipta fjölskyldunnar þar sem mamma hans, amma, systur og bræður, auk vina og fjölskyldu, skrifuðu honum bréf til að segja frá lífinu heima. Páll, þekktur sem stúdent og skrifari amtmannsins á Arnarstapa, geymdi bréf sín og telur safn hans um 1600 bréf frá 165 bréfriturum. Hartnær 500 bréfanna eru frá nánustu fjölskyldu, þar af 250 frá Sigríði systur hans. Í fyrirlestrinum verða dregnar upp svipmyndir úr bréfum fjölskyldunnar og einkum rætt hvernig netverk og samhjálp fjölskyldunnar virkaði — og hvernig hægt er að nýta bréfasafn af þessu tagi til þess að skoða félags- og fjölskyldusögu frá fyrri hluta nítjándu aldar.

Um fyrirlesarann

Erla Hulda Halldórsdóttir er prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði í Háskóla Íslands, með kvenna- og kynjasögu sem sérsvið.

 

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði í Háskóla Íslands.

Fjölskyldusaga frá fyrri hluta 19. aldar