Skip to main content

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrönn Harðardóttir

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrönn Harðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. júní 2025 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 6. júní 2025 ver Hrönn Harðardóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Þáttur streituviðbragða við greiningu lungnakrabbameins í þróun sjúkdómsins. The role of the psychobiological stress response to a lung cancer diagnosis in tumor biology and survival.

Andmælendur eru dr. Maria Planck, dósent við Háskólann í Lundi, Svíþjóð, og dr. Judith Prins, prófessor við Radboud Universiteit, Hollandi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Thor Aspelund, prófessor, Heiðdís Valdimarsdóttir, prófessor, Susan K. Lutgendorf, prófessor, Magnús Karl Magnússon, prófessor, og Tómas Guðbjartsson, prófessor.

Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.

Ágrip

Lungnakrabbamein er eitt algengasta krabbameinið meðal karla og kvenna á Norðurlöndum og er algengasta dánarorsök krabbameina. Að undirgangast rannsóknarferli og greiningu krabbameins, sér í lagi lungnakrabbameins, veldur mikilli streitu sem getur verið viðvarandi. Sálræn streita virkjar drifkerfi sjálfvirka taugakerfisins sem getur haft áhrif á framgang krabbameinsins. Lítið er vitað um sál-líffræðileg streituviðbrögð við greiningu lungnakrabbameins.

Rannsóknir þessarar ritgerðar eru byggðar á LUCASS rannsókninni (Lung Cancer, Stress and Survival), sem er framsýn ferilrannsókn sem fór fram á Landspítalanum í Reykjavík og Uppsala sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Mælingar voru gerðar á sálrænum streituviðbrögðum og lífmerkjum streitu fyrir og eftir greiningu lungnakrabbameins en áður en meðferð var hafin. Jafnframt var upplýsingum safnað úr krabbameinsæxlum skurðtækra sjúklinga og lifun þeirra sem greindust með lungnakrabbamein.

Samantekið sýna niðurstöður rannsóknarinnar að rannsóknarferli og greining lungnakrabbameins valdi mikilli aukningu á sálrænum streitueinkennum, þar með talið þunglyndi og kvíða. Jafnframt kom fram að sjúklingar upplifa mikla áfallastreitu eftir greininguna. Magn streituhormóna var þegar hækkað í þvagi áður en greining lungnakrabbameins var staðfest, án skýrrar tengingar við sálræna streitu. Engu að síður tengdust sálræn einkenni sjúklinga fyrir greiningu lungnakrabbameins við þéttni beta-adrenergra viðtaka á krabbameinsfrumunum sem í öðrum rannsóknum hafa verið tengdir verri sjúkdómsgangi. Að lokum benda niðurstöðurnar á að tengsl séu milli sálrænna einkenna og streituhormóna, mæld við greiningu lungnakrabbameins, við lifun sjúklinga. Þessar niðurstöður undirstrika flókin sál-líffræðileg streituviðbrögð við greiningu lungnakrabbameins og þörf á frekari rannsóknum á því sviði.

Abstract

Lung cancer is the second and third most common cancer among men and women in the Nordic countries and is the leading cause of all cancer deaths. Receiving a cancer diagnosis, particularly lung cancer, is an extremely stressful experience that may have further health consequences for the patients. Psychological distress activates the sympathetic nervous system, which can enhance tumor progression. Data is scarce on the psychobiological stress response during the diagnostic work-up and diagnosis of lung cancer as well as its potential role in prognostic markers and survival. The research of this thesis is based on the LUCASS study (LUng CAncer, Stress and Survival), a prospective cohort study performed at university hospitals in Reykjavík, Iceland, and Uppsala, Sweden, designed to investigate the psychobiological stress responses in patients undergoing a diagnostic work-up for suspected lung cancer. Overall, the findings of this thesis highlight that receiving a lung cancer diagnosis is associated with a marked increase in perceived psychological distress, and patients experience high levels of posttraumatic stress shortly after the diagnosis. Urinary levels of catecholamines were already elevated before the lung cancer diagnosis was established, with no clear link to distress levels at that time point. Nevertheless, we demonstrate that pre-diagnostic distress is strongly associated with levels of beta-2-adrenergic receptors on the tumor cells. Finally, this work provides evidence for the role of psychobiological distress pathways in the survival of this vulnerable patient group, as both higher distress levels and levels of urinary norepinephrine before diagnosis were associated with lung cancer-specific survival. These results underscore the complex psychobiological stress responses to a lung cancer diagnosis and call for further research on the intricate connection between patients’ mental distress at diagnosis, tumor biology, and survival outcomes in lung cancer.

Um doktorsefni

Hrönn Harðardóttir er fædd árið 1967 í Reykjavík. Hún lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Árið 1997 hélt hún til frekara náms til Hollands og hlaut sérfræðiréttindi í almennum lyflækningum árið 2005 og síðar sama ár sérfræðiréttindi í lungnalækningum frá Radboud University Medical Center, Nijmegen í Hollandi. Frá árinu 2006 hefur Hrönn starfað sem lyf- og lungnalæknir á Landspítala. Samhliða vinnu sinni þar hefur hún sinnt stundakennslu í líffæra- og samskiptafræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið er unnið samhliða hlutastarfi á Landspítala ásamt störfum í ýmsum nefndum og kennslu bæði BS- og meistaranema við Háskóla Íslands. Foreldrar hennar eru Rut Rebekka Sigurjónsdóttir og Hörður Kristinsson. Hrönn er gift Jóni Örvari Kristinssyni lækni og saman eiga þau fjögur börn og eru barnabörnin orðin fimm.

Hrönn Harðardóttir ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 6. júní 2025.

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrönn Harðardóttir