Skip to main content

Af hverju skiptir útlit máli? Áhrif hugsana um eigið útlit á líðan ungmenna

Af hverju skiptir útlit máli? Áhrif hugsana um eigið útlit á líðan ungmenna - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. mars 2018 12:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Slóð fyrir streymi verður efst í viðburðinum.
Opið hús og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, mun fjalla um áhrif hugsana um eigið útlit á líðan ungmenna í nýju erindi í röðinni Háskólinn og samfélagið - Best fyrir börnin.

Bein útsending frá erindinu

Andri mun leitast við að varpa ljósi á það af hverju útlit skiptir okkur máli og hvenær sú áhersla verður að sálrænum vanda, á borð við átraskanir og líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphic disorder) sem er lítt þekkt meðal almennings en algeng og oft alvarleg geðröskun.

„Líkamsskynjunarröskun einkennist af áleitnum hugsunum um útlitsgalla sem er ekki til staðar. Til þess að greinast með þessa röskun þarf fólk að hugsa um þessa líkamshluta og eigið útlit í minnst klukkutíma á dag, auk þess sem það bregst við þessum hugsunum með einhverjum hætti, eins og að horfa tímunum saman í spegil, bera sig endurtekið saman við annað fólk, fela líkamshluta með farða, fötum eða með öðrum leiðum, og fara í endurteknar lýtaaðgerðir. Yfirleitt veldur þessi geðröskun mikilli vanlíðan og hefur talsverð neikvæð áhrif á líf fólks,“ segir Andri Steinþór sem hefur í rannsóknum sínum og klínískum störfum einkum sérhæft sig í líkamsskynjunarröskun og félagsfælni og þætti áfalla í sálrænum vanda.

„Sem betur fer hefur tekist að smíða sálræna meðferð við líkamsskynjunarröskun og átröskunum sem ber yfirleitt góðan árangur, og er hugræn atferlismeðferð helsta dæmið um slíka meðferð.“

Erindi Andra Steinþórs er í röðinni Háskólinn og samfélagið – Best fyrir börnin og er það í Hátíðasal Háskóla Íslands, fimmtudaginn 22. mars og hefst klukkan 12. Streymt verður frá viðburðinum á Netinu.

Andri Steinþór lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1998, og MA gráðu frá sama skóla árið 2001. Hann lauk MS prófi í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Colorado árið 2005, og doktorsprófi í klínískri sálfræði frá sama skóla árið 2009. Hann lauk kandídatsári í klínískri sálfræði frá McLean spítala og Harvard háskóla árið 2009, og lauk tveggja ára nýdoktoranámi frá Brown háskóla árið 2011. Hann hóf störf sem lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands árið 2011, og hefur verið prófessor við deildina frá 2016. Hann starfar einnig sem sálfræðingur á Sálfræðistöðinni.

--

Háskólinn og samfélagið er heitið á nýrri fyrirlestraröð í boði rektors Háskóla Íslands. Viðfangsefni fyrirlestraraðarinnar verða af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri.

Í fyrstu fræðslufundaröðinni, sem hófst 18. janúar, er velferð barna og ungmenna í brennidepli. Sú fundaröð hefur fengið nafnið „Best fyrir börnin“ og þar verður fjallað um ótal þætti sem snerta velferð barna og ungmenna, s.s. andlega líðan, hreyfingu, svefn, læsi, mataræði og samskipti.

Markmiðið með fundaröðinni er að dýpka sýn bæði almennings og fagfólks á vandamál og lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og styðja fjölskyldur og samfélag í því að tryggja velferð barna og ungmenna.

Á fyrirlestrunum er stefnt saman rannsakendum úr Háskóla Íslands og fagfólki víðar úr samfélaginu sem allir eiga það sameiginlegt að vinna með börnum og ungmennum. Alls verður boðið upp á sex fyrirlestra á fyrri hluta árs 2018.

Fyrirlestur Andra Steinþórs verður haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 22. mars og hefst klukkan 12:00.

Af hverju skiptir útlit máli?