Skip to main content
27. september 2024

Vísindin í nýju og skemmtilegu ljósi á Vísindavöku í Laugardalshöll

Vísindin í nýju og skemmtilegu ljósi á Vísindavöku í Laugardalshöll - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindafólk af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands tekur þátt í hinni árlegu Vísindavöku sem fram fer í Laugardalshöll laugardaginn 28. september kl. 13-18. Snjallvædd prjónavél, frumur ónæmiskerfisins í smásjá, alþýðuhefðir fyrr og nú, sjávardýr og sebrafiskar, lífið á Íslandi á 18. öld að ógleymdum hinum sívinsæla Bangsaspítala er meðal þess sem ber fyrir augu á básum Háskólans.

Vísindavaka er samevrópsk verkefni og hefur um árabil verið haldin í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night. Markmið hennar er að leiða saman vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum og almenning þar sem vísindafólkið kynnir viðfangsefni sín í rannsóknum á lifandi og oft óvæntan hátt. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um störf þeirra við vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Ungir sem aldnir hafa sótt Vísindavöku undanfarin ár enda áhersla á að miðla vísindum til allra aldurshópa.
 

Starfsfólk Vísindasmiðju Háskóla Íslands verður einnig á staðnum með sín skemmtilegu tæki og tól fyrir gesti en smiðjan hefur notið mikilla vinsælda meðal ungs fólks um árabil. 

Vísindafólk og nemendur Háskóla Íslands láta ekki sitt eftir liggja á þessari miklu hátíð og bjóða gestum upp í forvitnilegt ferðalag á afar fjölbreyttum básum skólans. Auk ofangreinds geta gestir forvitnast um íslenskar popprannsóknir, skellt sér í heilsuferðalag, spilað textílspilið og kynnt sér orðasafn yfir fatagerð. Þá verður hægt að kynna sér hvernig lögun eyrnanna ræður því hvernig við heyrum, hvernig félagsráðgjafar vinna með börnum í ljósi nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og spreyta sig á endurlífgun og ýmsum tækjum sem hjúkrunarfræðingar nota í störfum sínum. 

Dýraríkið skipar stóran sess á svæði Háskólans og auk þess að handfjatla sjávardýr geta gestir skoðað hvernig sebrafiskar eru notaðir í rannsóknum, hvernig maurar eiga samskipti, hvernig bleikjur hafa þróast og sérkennilegar könguglær utan úr heimi. Þá verður hægt að spreyta sig á að sauma saman gervisár og svara spurningum um net- og tölvuöryggi, skoða LEGO-líkan af mikilvægum innviðum á Íslandi og fræðast um gervigreind og skammtatölvur og -tækni ásamt því að setjast að spjalli um daginn og veginn í stúdíói HÍ.

Starfsfólk Vísindasmiðju Háskóla Íslands verður einnig á staðnum með sín skemmtilegu tæki og tól fyrir gesti en smiðjan hefur notið mikilla vinsælda meðal ungs fólks um árabil. 

Umsjónaraðili Vísindavökunnar hér á landi er Rannís og hægt er að kynna sér dagskrá vökunnar á vef hennar.

Gestir á Vísindavöku 2023