Þvermenningarleg samskipti og sjálfsmynd
Veröld - Hús Vigdísar
Heimasvæði tungumálanna
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur efnir til opins fyrirlestrar Stefanie Stadler, prófessors við enskudeild Doshisha-háskóla í Kyoto í Japan. Titill fyrirlestursins er Intercultural communication and identity.
Haldið á Heimasvæði tungumála á 2. hæð í Veröld – húsi Vigdísar, föstudaginn 20. september kl. 15-16. Verið öll velkomin.
Um fyrirlesturinn
Þvermenningarleg samskipti hafa jafnan verið skilgreind sem samskipti milli fólks með ólíkan menningarlegan bakgrunn. Slík landfræðileg nálgun hefur hins vegar verið gagnrýnd á undanförnum árum og skilgreiningin á þvermenningarlegum samskiptum því verið á reiki. Erindið fjallar um hvernig þvermenningarleg samskipti geta og ættu að vera skilgreind en jafnframt er hugað að þeirri vaxandi tilhneigingu innan fræðanna að líta fremur á menningu sem sveigjanlegan grundvöll samskipta sem mótast milli þátttakenda í hverju tilfelli fyrir sig. Í því ljósi vaknar sú spurning hvernig þátttakendur kjósa að byggja upp menningarlega sjálfsmynd sína í ólíku félagslegu samhengi og hvaða hvatir liggja að baki þeim ákvörðunum. Þó fyrri rannsóknir hafi bent til þess að í einfaldari þvermenningarlegum samskiptum leggi þátttakendur áherslu á menningarlegan og málfræðilegan mun sem hluta af sjálfsmyndarsköpun sinni, virðist hið gagnstæða vera raunin þegar um er að ræða fagleg samskipti. Ég rýni í þennan mun með því að gera greinarmun á viðtekinni/gefinni (avowed/assumed) sjálfsmynd og tileinkaðri (ascribed) sjálfsmynd til að útskýra hvatir þátttakenda til að leggja annað hvort áherslu á eða afsala sér menningarlega þætti sjálfsmyndar sinnar.
Um fyrirlesarann
Stefanie Stadler er prófessor við enskudeild Doshisha-háskóla í Kyoto, Japan, og gestaprófessor við Mála- og menningardeild, Háskóla Íslands. Hún hefur einkum sérhæft sig á sviði þvermenningarlegra samskipta. Hún er höfundur bókarinnar Conflict, Culture and Communication (Routledge 2019) og meðal nýlegra birtinga má nefna „Intercultural Business Discourse: An Identity Perspective“ í Routledge Handbook of Discourse Analysis (2023) og „Humour in Japanese Business Communication“ (Doshisha Literature, 2023).
Stefanie Stadler, prófessor við enskudeild Doshisha-háskóla í Kyoto í Japan.