Eingöngu er tekið við umsóknum um mat á fyrra námi frá innrituðum nemendum Til að sækja um mat á fyrra námi skal fylla út sérstakt eyðublað Umsóknir um mat á fyrra námi eru teknar fyrir þrisvar sinnum á ári. Umsóknir sem berast fyrir 10. ágúst eru að jafnaði afgreiddar fyrir 5. september. Umsóknir sem berast fyrir 1. desember eru að jafnaði afgreiddar fyrir 21. janúar. Umsóknir sem berast fyrir 1. apríl eru að jafnaði afgreiddar fyrir 10. maí. Reglur Reglur um mat á fyrra námi I. Almennt Nemandi við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands sem hefur stundað sambærilegt og jafngilt háskólanám áður, hvort sem er innan eða utan Háskóla Íslands, getur sótt um að fá það nám metið til eininga sem hluta af námi við deildir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Umsókn skal skila á þar til gerðu eyðublaði, sem senda skal á netfangið nemvon@hi.is Umsóknir um mat á fyrra námi eru teknar fyrir þrisvar sinnum á ári. • Umsóknir sem berast fyrir 10. ágúst eru að jafnaði afgreiddar fyrir 5. september. • Umsóknir sem berast fyrir 1. desember eru að jafnaði afgreiddar fyrir 21. janúar. • Umsóknir sem berast fyrir 1. apríl eru að jafnaði afgreiddar fyrir 10. maí. II. Frágangur umsókna Til að hægt sé að afgreiða umsókn um mat á fyrra háskólanámi þarf umsókn að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Tilgreina skal hvaða námsleið nemandi hyggst ljúka á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Tilgreina skal hvaða námskeið, sem nemandi lauk í fyrra námi sínu, óskað er eftir að fáist metin. Fram komi heiti námskeiða, einingafjöldi (ECTS) og námsstig, þ.e. hvort um grunn- eða framhaldsnám er að ræða. Tilgreina skal þau námskeið á námsleiðinni sem nemandi telur fyrra háskólanám sitt jafngilda, eða hvort óskað er eftir að fyrra nám sé metið sem valnámskeið. Ef fyrra nám var utan Háskóla Íslands þarf að skila inn stimpluðum og undirrituðum námsferli og námskeiðslýsingum frá viðkomandi háskóla. Stafrænt undirrituð skjöl skal senda á nemvon@hi.is. Matsaðilar geta kallað eftir frekari upplýsingum ef þörf þykir. Umsækjendur bera ábyrgð á að allar ofangreindar upplýsingar komi fram í umsókn. III. Afgreiðsla umsókna Skrifstofa nemendaþjónustu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs tekur á móti umsóknum og sendir til matsaðila. Hver deild ber ábyrgð á mati á fyrra námi í samstarfi við kennslustjóra. Matsaðilar, þegar um grunnnám er að ræða, eru deildarforseti eða námsbrautarformaður, sé hann til staðar, í samvinnu við kennara á því fagsviði sem um ræðir. Matsaðili, þegar um framhaldsnám er að ræða, er framhaldsnámsnefnd viðkomandi deildar, en hún skal hafa samráð við umsjónarkennara viðkomandi nemanda. Matsaðilar hverrar deildar afgreiða umsóknir með hliðsjón af viðmiðum í IV. kafla í þessum reglum. Námskeið sem lokið er innan Háskóla Íslands og fást metin birtast á námsferli með einkunn. Þau námskeið sem metin eru frá öðrum skólum birtast án einkunnar. Skrifstofa nemendaþjónustu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs gengur formlega frá niðurstöðum matsaðila. Að afgreiðslu lokinni fær nemandi tilkynningu í tölvupósti á HÍ-netfang um niðurstöðu mats. Afrit er jafnframt sent til námsbrautarformanns og einnig umsjónarkennara í framhaldsnámi ef við á. Nemendaskrá fær einnig sendan tölvupóst um niðurstöðu matsins og gengur frá skráningu samkvæmt því á námsferil nemandans. IV. Viðmið um mat Almennt gildir að annað nám en viðurkennt háskólanám er ekki heimilt að meta til eininga við Háskóla Íslands. Almennt gildir að nemendur sem hefja meistaranám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið geta einungis fengið metin námskeið sem þeir hafa lokið á meistarastigi. Þó kann að vera heimild til að meta grunnnámskeið sem ekki hafa áður verið nýtt til gráðu, innan þeirra marka sem reglur um meistaranám á Verkfræði- og náttúruvísindasviði heimila. Lokaverkefni til prófgráðu er ekki heimilt að meta. Hægt er að meta að hámarki helming þess einingafjölda sem þarf til að ljúka prófgráðu við sviðið. Hafi nemandi lokið bakkalárgráðu við Verkfræði- og náttúruvísindasvið en kýs að ljúka annarri bakkalárgráðu, sem skarast efnislega við hina fyrri, má meta að hámarki 120 einingar í námskeiðum frá fyrri gráðu sem hluta af nýrri bakkalárgráðu. Hafi nemandi lokið meistaragráðu en kýs að ljúka annarri meistaragráðu, sem skarast efnislega við hina fyrri, má meta að hámarki 30 einingar í námskeiðum frá fyrri gráðu sem hluta af nýrri meistaragráðu. Ekki er hægt að meta námskeið milli námsstiga sem áður hafa verið nýtt til gráðu. Við mat á fyrra námi skal leitast við að meta námskeið sem ígildi heilla, sambærilegra og jafngildra námskeiða í fyrirhuguðu námi við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, jafnvel þótt námskeiðin séu ekki að öllu leyti sambærileg. Í þeim tilfellum þar sem námskeið úr fyrra námi er mjög frábrugðið heilum sambærilegum námskeiðum við sviðið er heimilt að meta til samans fleiri námskeið sem ígildi eins námskeiðs við sviðið. Ekki er hægt að meta námskeið frá fyrra námi til fleiri eininga en sem nemur einingafjölda þess. Námskeið úr fyrra námi er ekki metið séu liðin 10 ár eða meira frá því námskeiðinu lauk. Þó er heimilt að víkja frá reglunni um fyrningu náms ef: A. Fyrra nám var umfangsmikið og heildstætt. B. Námsefni og/eða viðfangsefni í námskeiði hefur ekki tekið breytingum. C. Til staðar er umfangsmikil starfsreynslu í faginu Samþykkt á fundi stjórnar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs 7. júní 2023 facebooklinkedintwitter