Hljóta ársfundarverðlaun fyrir uppbyggingu innviða við HÍ
Hópur vísindamanna og annars starfsfólks sem stendur að umfangsmiklum innviðaverkefnum við HÍ tók við árlegum verðlaun Háskóla Íslands fyrir frumkvæði og forystu í Hátíðasal Aðalbyggingar í dag að viðstaddri Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Innviðirnir snerta vísindastarf á öllum fræðasviðum skólans.
Verðlaunin voru nú afhent í fjórða sinn en þau eru veitt árlega hópum eða teymum sem þykja hafa sýnt sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans. Handhafar verðlauna HÍ fyrir frumkvæði og forystu eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.
„Með verðlaununum er undirstrikað að alla daga er unnið þrotlaust og merkilegt starf innan Háskóla Íslands – starf sem verðskuldar viðurkenningu, hvort sem það er á sviði náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, jafnréttismála, samfélagsþátttöku eða frumkvæðis nemenda,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar verðlaunin voru afhent á ársfundi skólans að viðstöddu fjölmenni.
Alls fengu átta aðilar tengdir innviðaverkefnum innan skólans viðurkenningu í dag. Þau eru:
1. Efnisvísinda- og efnisverkfræðisetur
Í setrinu verður byggður upp búnaður til efnisþróunar og -greininga og prófana, þar á meðal greiningartæki, hreinherbergi, húðunartæki, tækjabúnaður til nákvæmnissmíða, þrívíddarmálmprentarar og rafefnafræðitæki. Setrið verður samstarfsvettvangur rannsóknastofnana og háskóla og verður einnig aðgengilegt fyrirtækjum og öðrum sem geta nýtt búnaðinn.
2. Efnagreining, frá frumefnum til lífsameinda
Verkefnið miðar að því að byggja upp og bæta aðgengi að innviðum í efnagreiningum sem nýtast munu við rannsóknir, þróun og nýsköpun í læknisfræði, lyfjafræði, líffræði, lífefnafræði, sameindalíffræði, líftækni, næringar- og matvælafræði, efnafræði, efnaverkfræði og heilbrigðisverkfræði.
3. Frá sameindum til sniðlækninga: Heildstæð aðstaða fyrir nútímalífvísindi
Verkefnið miðar að því að byggja upp fullkomna rannsóknaraðstöðu fyrir lífvísindi í landinu sem nýst getur við greiningar DNA- og RNA-sameinda, erfðabreytingar á frumum og dýrum og til að auka tengsl lífvísindarannsókna við klínískar rannsóknir.
4. Íslenskir rafrænir innviðir til stuðnings við rannsóknir
Verkefnið snýst um uppbyggingu á öflugum innviðakjarna í upplýsingatækni sem er sérsniðinn fyrir íslenskt vísindastarf, ekki síst í tengslum við varðveislu og miðlun rannsóknagagna. Einnig er markmiðið að stórefla reiknigetu fyrir rannsakendur með ofurtölvum.
5. Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista er vettvangur fyrir uppbyggingu, vistun og samráð um þróun og aðgengi að stafrænum gagnabönkum í hugvísindum og listum. Gagnabankarnir ná bæði yfir málleg gögn, þ.e. texta og tungumál, og gögn í öðru formi, eins og myndir, myndbönd, þrívíddarmódel, hljóð og myndlist á stafrænu formi.
6. EPOS Ísland
Verkefnið miðar að uppbyggingu og rekstri innviða fyrir jarðvísindafólk. Verkefnið er alþjóðlegt og felur í sér rafræna þjónustu og aðgengi að jarðvísindalegum gögnum.
7. GAGNÍS
Gagnaþjónustan GAGNÍS er viðurkenndur þjónustuaðili Samtaka evrópskra gagnavarðveislusafna í félagsvísindum á Íslandi. Þjónustan er staðsett á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og tekur við og veitir aðgang að félagsvísindagögnum í víðum skilningi, t.d. úr könnunum, prófum, opinberri tölfræði, viðtölum og rýnihópum.
8. Vísinda- og nýsköpunarsvið
Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ hlýtur verðlaunin fyrir að stuðla að viðtæku samráði innan og utan Háskóla Íslands um innviðaverkefnin í tengslum við undirbúning umsókna og stuðning í umsóknarferli Vegvísis stjórnvalda og í kjölfar þess.
„Í dag höfum við séð hvernig rannsóknir stuðla að framþróun samfélaga. En það má ekki gleymast að til þess að stunda hágæðarannsóknir á alheimsvísu þarf fjölbreyttan mannauð og trausta umgjörð rannsóknastarfs. Öflugir rannsóknainnviðir eru forsenda framúrskarandi vísinda og nýsköpunar og mynda grundvöll framþróunar í rannsóknum og vísindum. Háskóli Íslands leggur í stefnu sinni til ársins 2026, HÍ26, mikla áherslu á að byggja upp sterka rannsóknarinnviði sem styðja við alþjóðlegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun. Verkefnin sem hljóta viðurkenninguna endurspegla þá miklu sérfræðiþekkingu og frumkvæði sem er innan skólans en óhætt er að fullyrða að lyft hefur verið grettistaki í að byggja upp stuðning við rannsakendur, rannsóknarinniviði, aðgengi að gögnum, samstarf um rannsóknarinnviði innan lands og utan og fjármögnun þeirra,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor enn fremur við afhendingu verðlaunanna.