HÍ lýsir yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (18. mars 2022):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Innrás rússneska hersins í Úkraínu heldur því miður áfram að kosta fjölda mannslífa og valda ósegjanlegri þjáningu og eyðileggingu. Milljónir almennra borgara eru á flótta og þeirra á meðal eru fjölmargir nemendur og starfsfólk úkraínskra háskóla. Háskóli Íslands sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir samstöðu með kollegum okkar í Úkraínu, sem og öllum íbúum landsins. Ísland er aðili að hliðstæðum yfirlýsingum aðildarríkja Bologna-samstarfsins. Samstaða ríkir einnig um fordæmingu innrásarinnar á vettvangi Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA) og innan AURORA-netsins, en einn samstarfsháskóla okkar á þeim vettvangi er Karazin Kharkiv National University í borginni Kharkiv í norðausturhluta Úkraínu þar sem stríðið geisar hvað harðast. Þá er þess skemmst að minnast að rektorar háskólanna á Íslandi sendu frá sér stuðningsyfirlýsingu í síðustu viku.
Samhliða yfirlýsingu Háskóla Íslands opnaði skólinn í dag vefgátt með hagnýtum upplýsingum um sálfræðiþjónustu fyrir nemendur og starfsfólk frá Úkraínu og Rússlandi, möguleika landflótta úkraínska háskólanema til að ljúka hér námi og önnur úrræði. Jafnframt er verið að skoða hvernig veita megi úkraínskum og rússneskum háskólanemum sem til okkar leita húsaskjól og aðra þjónustu. Upplýsingarnar verða uppfærðar eftir því sem mál þróast. Ófriðurinn í Evrópu á sér enga hliðstæðu allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar og það er siðferðileg skylda okkar að bregðast hratt við og vera sveigjanleg og lausnarmiðuð gagnvart meðbræðrum okkar og -systrum sem eiga um sárt að binda.
Jafnframt hefur Háskóli Íslands sett samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir í Rússlandi á ís og mun ekki gera neina nýja samninga við þessa aðila á meðan stríðsástandið varir. Rétt er þó að hafa í huga að akademískir starfsmenn og nemendur í Rússlandi hafa í mörgum tilvikum sýnt mikið hugrekki með því að mótmæla innrásinni og eru í þeim skilningi einnig fórnarlömb ófriðarins. Við útilokum alls ekki samstarf við þessa einstaklinga, en munum vega og meta hvert tilvik fyrir sig.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Háskóli Íslands býr svo vel að eiga öflugan hóp velgjörðarmanna bæði innanlands og utan. Á umliðinni rúmri öld hefur fjöldi einstaklinga sýnt í verki hlýhug sinn til skólans með rausnarlegum gjöfum og stofnun styrktarsjóða í þágu háskólastarfsins. Einn elsti og reyndar langstærsti styrktarsjóðurinn er Háskólasjóður h/f Eimskipafélags Íslands. Hann hefur verið ómetanlegur bakhjarl doktorsnáms við Háskóla Íslands allt frá árinu 2005, auk þess sem sjóðurinn lagði til mikilsvert framlag til byggingar Háskólatorgs. Óhætt er að segja að með stuðningi við þessi tvö mikilvægu mál hafi Háskólasjóður valdið straumhvörfum í starfi skólans. Lengi vel var skattaleg umgjörð styrktarsjóðanna hér á landi þeim óhagstæð svo aðeins hluti þeirra nýttist í þágu háskólastarfsins. Það er því fagnaðarefni að seint á síðasta ári gerðu stjórnvöld á þessu breytingar sem munu hafa í för með sér að unnt verður að úthluta um helmingi hærri upphæð úr Háskólasjóði h/f Eimskipafélags en verið hefur undanfarin ár til doktorsnema við skólann næstu þrjú ár.
Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að kynna ríkulegt námsframboð sitt og fjölbreytta þjónustu væntanlegum nemendum svo þeir geti tekið upplýsta og farsæla ákvörðun um nám. Fyrir skömmu var haldinn vel heppnaður stafrænn Háskóladagur í samstarfi allra háskóla landsins. En við ætlum að gera enn betur og verða háskólar landsins með kynningar á öllu grunnnámi á þremur stöðum á næstu dögum, núna á laugardaginn 19. mars í Háskólanum á Akureyri, mánudaginn 21. mars í Menntaskólanum á Egilsstöðum og fimmtudaginn 24. mars í Menntaskólanum á Ísafirði. Til viðbótar verður Háskóli Íslands með Opið hús á Háskólatorgi laugardaginn 2. apríl frá kl. 12 til 15 þar sem allt nám við skólann og þjónusta við nemendur verður kynnt. Verið hjartanlega velkomin á þessa viðburði!
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Þótt hríðarbylur hafi dunið á okkur í vikunni vitum við fyrir víst að langur og snjóþungur vetur er brátt að baki. Á mánudag er jafndægur að vori, en þá er sólin beint yfir miðbaugi jarðar og dagurinn um það bil jafnlangur nóttunni alls staðar á jörðinni. Jafndægur markar þannig sigur ljóssins yfir myrkrinu og gefur fyrirheit um vorið í vændum.
Góða helgi,
Jón Atli Benediktsson, rektor“