Mikilvægt námskeið í samstarfi við Neyðarlínuna
Á vormsseri stendur Háskóli Íslands fyrir nýstárlegu námskeiði í samstarfi við Neyðarlínuna sem snýst um að auka þekkingu nemenda í félagsráðgjöf á neyðarsvörun. Um valnámskeið er að ræða sem er hluti af samningi Neyðarlínunnar og HÍ en samstarfið helgast m.a. af því að efla rannsóknir og kennslu á sviði neyðarsvörunar. Aðalkennari í námskeiðinu er Hjördís Garðarsdóttir, fræðslustjóri 112, en umsjónarkennari er Ragnheiður Hergeirsdóttir, aðjunkt við Félagsráðgjafardeild HÍ. Deildin sér um námskeiðið auk þess að bera faglega ábyrgð á kennslu og rannsóknum sem samstarf þessara aðila tekur til.
Námskeiðið mun vafalítið nýtast nemendum skólans vel enda hefur Neyðarlínan tekið ákveðna forystu varðandi upplýsingagjöf um úrræði vegna ofbeldis í nánum samböndum. Það er einmitt mjög krefjandi viðfangsefni bæði í kennslu og rannsóknum í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.
Þverfræðileg samvinna skilar miklu
Samkvæmt nýrri stefnu skólans, HÍ26, tekur hann markviss skref til að styðja við þverfræðilega samvinnu og má með sanni segja að samstarfið við Neyðarlínuna hafi augun á þessum þætti. „Þetta samstarf er gífurlega mikilvægt því hér skarast mörg rannsóknarsvið. Hér er um að ræða tæknileg, stjórnunarleg og mannleg viðfangsefni og engin takmörk fyrir tækifærum til rannsóknasamstarfs. Í okkar deild er t.d. mikill áhugi fyrir því að skoða líðan starfsfólks, samskiptin í samtölum og áfallaþáttinn,“ segir Guðný Björk, prófessor í félagsráðgjöf, en hún er ábyrgðaraðili HÍ á samstarfinu við Neyðarlínuna.
Neyðarlínan er flestum landsmönnum kunn en hún sér um neyðar- og öryggisþjónustu á Íslandi og starfrækir til þess númerið 112. Hún rekur einnig Vaktstöð siglinga og Tetra-fjarskiptakerfið. Neyðarlínan boðar einnig björgunar- og neyðarsveitir á öllu landinu vegna vár og er tengiliður milli almennings og viðbragðsaðila.
„Þetta samstarf er gífurlega mikilvægt því hér skarast mörg rannsóknarsvið. Hér er um að ræða tæknileg, stjórnunarleg og mannleg viðfangsefni og engin takmörk fyrir tækifærum til rannsóknarsamstarfs. Í okkar deild er t.d. mikill áhugi fyrir því að skoða líðan starfsfólks, samskiptin í samtölum og áfallaþáttinn,“ segir Guðný Björk, prófessor í félagsráðgjöf, en hún er ábyrgðaraðili HÍ á samstarfinu við Neyðarlínuna.
„Í samstarfinu skapast tækifæri fyrir nemendur að kynnast neyðarsvörun sem er gríðarlega góður undirbúningur fyrir verðandi félagsráðgjafa,“ segir Guðný Björk og bætir því við að nemendur HÍ fái með námskeiðinu undirbúning sem geri þeim kleift að sækja um sumarfstarf hjá Neyðarlínunni. Hún segir að þar með aukist líkur á að hægt sé að manna hana yfir sumarið með fólki sem hafi fengið mjög góðan undirbúning fyrir starfið.
„Samningurinn gerir okkur kleift að bjóða upp á námskeið með bestu sérfræðingum landsins á þessu sviði en auk þess felst hluti af námskeiðinu í hlustun hjá Neyðarlínunni, sem við gætum auðvitað aldrei boðið án samstarfsins.“
Samstarf við atvinnulíf mikilvægt
Í nýrri stefnu skólans er einnig áhersla á aukið samstarf Háskóla Íslands og atvinnulífs, ekki síst á sviði kennslu. Guðný Björk segir að starfið í Félagsráðgjafardeildinni byggi á öflugu samstarfi við atvinnulífið. „Við gætum ekki fullmenntað félagsráðgjafa til starfa án þess. Nemarnir okkar taka stóran hluta af meistaranámi til starfsréttinda í starfsþjálfun á fjölbreyttum stöðum hjá sérmenntuðum starfsþjálfunarkennurum. Notendur þjónustu og sérfræðingar á vettvangi leggja líka mikið af mörkum til kennslu bæði í grunn- og framhaldsnámi.“
Guðný Björk segir að samstarf um rannsóknir og nýsköpun leggi öflugan grunn að sköpun þekkingar sem nýtist til að efla þá vinnu sem unnin er, ekki hvað síst við að smíða æ betri úrræði. „Efniviður af vettvangi og samstarf við atvinnulíf og samfélag nærir rannsóknarstarfið og þannig skapast hringrás þekkingarsköpunar og endurnýjunar.“
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá fyrstu kennslustundinni í námskeiðinu.