Skip to main content
27. desember 2021

Tengsl milli bólgusvörunar og veikinda COVID-19?

Tengsl milli bólgusvörunar og veikinda COVID-19? - á vefsíðu Háskóla Íslands

COVID.

Þetta er án vafa eitt þeirra orða sem hvað oftast hafa birst augum fólks á fréttamiðlum um allan heim síðustu 20 mánuði og ekki af ástæðulausu. Ef við horfum bara á tölur fyrir íslensk samfélag hafa undir lok árs 2021 yfir 20 þúsund smitast af SARS-CoV-2 veirunni sem veldur sjúkdómi sem hefur heitið COVID-19. Tekin hafa verið hartnær 800 þúsund sýni á Íslandi öllu, nálega 600 hafa þurft innlögn á spítala, þar af 95 á gjörgæslu. Hér á landi hafa þegar þetta er ritað 36 látist í heimsfaraldrinum. Ef við horfum á heiminn allan hafa um 270 milljónir manna smitast og um 5,3 milljónir látist af völdum sjúkdómsins. 
Hér er því um að ræða einhverja stærstu áskorun sem mannkynið hefur glímt við í langan tíma sem reynt hefur mjög á stjórnvöld allra ríkja heims, stofnanir samfélaga og innviði, heilbrigðiskerfi og einstaklinga. En það hefur líka reynt á vísindafólk á öllum fræðasviðum við að nálgast lausnir við þessum óvænta heimsfaraldri, ekki síst á sviði heilbrigðisvísinda. 

Þótt veiran hafi geisað í hartnær tvö ár og stökkbreyst óteljandi sinnum er enn margt hulið varðandi eðli hennar, næstu umbreytingar og langtímaafleiðingar sýkinga. Ljóst er að COVID-19 og kórónaveiran sjálf sem sjúkdómnum veldur mun verða til rannsóknar á næstu árum og áratugum og þær rannsóknir munu gera okkur betur fær um að takast á við veiruna sjálfa og líka aðrar veirur og sjúkdóma sem þeim fylgja.   

Hækkun bólguboðefna hjá þeim sem veikjast alvarlega

„Þegar COVID-19 faraldurinn hófst á Íslandi þá sáum við mikla hækkun í bólguboðefninu IL-6 hjá einstaklingum sem veiktust alvarlega af COVID-19. Boðefni, eða cytokine eins og það er kallað á ensku, eru lítil prótein sem frumur ónæmiskerfisins seyta sem hafa áhrif á aðrar frumur í nær- og fjærumhverfi.“

Þetta segir Siggeir Fannar Brynjólfsson, lektor við Læknadeild HÍ, en hann er einn fjölmargra vísindamanna við Háskólann sem vinnur nú að rannsóknum sem tengjast COVID-19. Markmið rannsóknar Siggeirs og vísindafélaga hans er að kanna hvort samband sé á milli magns bólguboðefna í blóði og sjúkdómsferils hjá einstaklingum sem veikst hafa af COVID-19. „Við viljum einnig kanna hvort að það séu einhver tengsl á milli langtíma COVID-19 einkenna og seytingu bólguboðefnanna.“

Með ónæmiskerfið í sigtinu

Siggeir kennir námskeið í Háskóla Íslands sem tengjast ónæmisfræðum og rannsóknir hans eru flestar á því sviði. Áhugi hans liggur enda í ónæmiskerfinu sem mikið hefur verið til umfjöllunar í tengslum við bóluefni gegn SARS-CoV-2 kórónaveirunni og einnig varðandi viðbrögð líkamans við sýkingum af hennar völdum. 

Ástæða heitisins „ónæmiskerfi“ liggur í því að það gerir okkur ónæm fyrir tilteknum sýkingavöldum. Vísindavefur Háskóla Íslands skýrir þetta þannig að við öðlumst einungis ónæmi gegn tilteknum vaka frá sýkli (sjúkdómsvaldandi örveru) ef ónæmiskerfi okkar kemst í snertingu við vakann sjálfan og greinir hann sem framandi. Og hvað er vaki? Jú, það er hvert það efni örverunnar sem vekur ónæmissvar þegar ónæmiskerfið hefur greint það sem framandi. Ónæmiskerfið svarar með því að mynda mótefni og/eða svokallaðar T-frumur gegn vakanum. Og hvað eru T-frumur? Til einföldunar má líkja þeim við hermaura í mauraþúfu. T-frumurnar ráðast milliliðalaust á sýkla og sýktar frumur og með áhlaupinu ræsa þær allt ónæmiskerfið og stýra því.

Ástæða þess að við verðum ónæm er sú að hluti þeirra frumna sem brugðust við vakanum með viðeigandi mótefnum og T-frumunum verður að minnisfrumum sem geta jafnvel enst í áratugi. Þegar við fáum bóluefni er vaki sendur inn í líkamann sem tilheyrir ákveðnum sýkli, sem virkjar ónæmiskerfið án þess að valda sýkingu. Afleiðingin er sú að við fáum nýtt mótefni og T-frumur gegn vakanum.

„Minnisfrumurnar þekkja sýkilinn aftur reyni hann inngöngu í líkamann seinna á ævinni og ráða niðurlögum hans áður en hann nær að gera nokkurn óskunda. Við verðum því ekki veik af völdum sama sýkilsins aftur,“ segir Vísindavefurinn. Hér er allt ferlið einfaldað til að varpa á það ljósi enda segir Siggeir að ónæmiskerfið sé einstaklega skemmtilegt og flókið kerfi.

„Það skiptir ekki máli hvaða sjúkdómur er skoðaður, allt frá gigt, krabbameini, offitu eða beinþynningu, ónæmiskerfið er alltaf í lykilhlutverki. Heimsfaraldurinn hefur leikið okkur öll grátt og við þurfum að vita sem mest um hvernig ónæmiskerfið bregst við SARS-CoV-2 sýkingu og einnig hvað liggur að baki langtímaáhrifum COVID-19 sýkingar.“ 

Þótt kórónuveiran hafi geisað í hartnær tvö ár og stökkbreyst óteljandi sinnum er enn margt hulið varðandi eðli hennar, næstu umbreytingar og langtímaafleiðingar sýkinga. Ljóst er að COVID-19 og kórónaveiran sjálf sem sjúkdómnum veldur mun verða til rannsóknar á næstu árum og áratugum og þær rannsóknir munu gera okkur betur fær um að takast á við veiruna sjálfa og líka aðrar veirur og sjúkdóma sem þeim fylgja. MYND/Wikipedia Commons

Mikilvæg rannsókn á flóknum tengslum

COVID-rannsókn Siggeirs og samstarfsfólks er lítið púsl í stærra heildarspili sem vísindamenn við Læknadeild HÍ vinna nú að ásamt samstarfsfólki sínu við ónæmisfræðideild, sýkla- og veirufræðideild og smitsjúkdómadeild á Landspítala auk þess sem vísindamenn við Blóðbankann eru í teyminu.

„Við höfum safnað sýnum frá meira en 450 einstaklingum og sýna bráðabirgðaniðurstöður fylgni á milli hækkunar á ýmsum bólguboðefnum við aldur, kyn og sjúkdómsferli. Við höfum einnig fengið birta vísindagrein þar sem við settum upp aðferð til að mæla SARS-CoV-2 sértæk mótefni með Luminex-tækni.“

Siggeir segir að hún byggist á samspili litaðra örkúlna, sem tengdar eru með mótefnum eða próteinum, og tveggja leisera, þar sem annar greinir á milli kúluhópa og hinn magngreinir próteinið sem verið er að mæla. „Þar mældum við SARS-CoV-2 sértæk mótefni gegn mismunandi próteinum veirunnar. Við sáum að þau sem voru á gjörgæslu voru líklegri til þess að vera með hátt hlutfall af mótefnum af flokki IgA, sem er sá flokkur sem skiptir mestu máli í slímhúðarsvari.“

Siggeir segir að vinna sé í fullum gangi og verði vísindagrein með fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar send til birtingar í ritrýndu tímariti á næstunni. 

Siggeir Fannar Brynjólfsson