Kanna þarf kynbundinn mun á viðbrögðum hjartans við COVID-19
Rannsaka þarf betur áhrif COVID-19-sýkinga á hjarta- og æðakerfið hjá konum og körlum þar sem ýmislegt bendir til að finna megi þar kyntengdan mun á áhrifum sjúkdómsins. Þetta segir Georgios Kararigas, prófessor í lífeðlisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, í ritstjórnargrein sem birtist í Physiological Reviews, virtu vísindatímariti á sviði lífeðlisfræði í dag.
Kararigas er nýkominn til starfa við Háskóla Íslands en hann hefur í vísindastörfum sínum lagt áherslu á að kyntengdan mun í lífeðlisfræði og sjúkdómum tengdum hjarta- og æðakerfinu. Í greininni í Physiological Reviews dregur Kararigas saman ýmsar rannsóknir og athuganir á þeim áhrifum sem vitað er að kórónuveiran hefur á líkamann, með sérstaka áherslu á hjarta- og æðakerfi, en eins og kunnugt er hafa áhrif COVID-19 á sjúklinga reynst misalvarleg, allt frá vægum einkennum til dauða.
Kararigas bendir á að einn af þáttunum sem virðist hafa áhrif á einkenni og dánarlíkur sé kyn. Karlar virðist í meiri hættu á að fá alvarleg einkenni eða látast af völdum COVID-19 en konur en jafnframt virðast ákveðin kyntengd hlutverk gera konur viðkvæmari fyrir sjúkdómnum. Vísar hann þar til þess að ýmislegt bendi til þess að ófrískum konum sé hættara við að veikjast alvarlega af völdum kórónuveirunnar en almennt gengur og gerist. Þá bendir Kararigas enn fremur á að fólk með undirliggjandi sjúkdóma, eins og t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, glími við alvarlegri sjúkdómseinkenni og sé líklegra til þess að látast af völdum COVID-19-sjúkdómsins.
Í greininni segir Kararigas einnig að enn sé margt á huldu um áhrif COVD-19 á hjarta- og æðakerfið og kynbundinn mun þar á. Komið hafi í ljós að veiran valdi skaða á hjarta- og æðakerfinu hjá nokkrum hluta sjúklinga sem birtist m.a. í vanvirkni hjartans og hjartsláttaróreglu. Rannsóknir, sem gerðar hafi verið snemma í faraldrinum í Bandaríkjunum, hafi þó bent til þess að meirihluti þeirra sem glímt hafi við slík einkenni séu karlar. Hins vegar sé málið ekki einfalt því eftirköst sjúkdómsins séu mjög mismunandi hjá fólki. Nokkur hluti sjúklinga af báðum kynjum glími þannig við verki í brjósti mörgum mánuðum eftir sýkingu sem veki upp spurningar hvort þarna sé á ferðinni frekari áhrif sjúkdómsins á hjarta- og æðakerfið.
Í greininni dregur Kararigas fram ýmsa lífeðlisfræðilega þætti sem geti haft áhrif á ólík viðbrögð kynjanna við sjúkdómnum. Þekkt sé að bólgusvar hjá konum og körlum sé ólíkt, þar á meðal hjá þeim sem eru með hjarta- og æðasjúkdóma. Eitt af einkunnum COVID-19 sé yfirdrifið bólgusvar líkamans við sýkingunni og hugsanlegt sé að bólgusvar við sjúkdómnum leiði til alvarlegri áhrifa á hjarta- og æðakerfi karla en kvenna.
Kararigas bendir hins vegar á að ekki sé hægt að draga skýrar ályktanir í þessum efnum þar sem gögn um ólík áhrif þessa skæða sjúkdóms á kynin skorti. Úr því þurfi að bæta til þess að öðlast betri skilning á þeim undirliggjandi þáttum sem hafa áhrif á framþróun sjúkdómsins. Miklu máli skipti að finna kyntengd lífmerki sem geta spáð fyrir um auknar líkur á alvarlegum einkennum, spítalainnlögunum og jafnvel dauða hjá COVID-19-sjúklingum, en lífmerki geta verið sameindir í blóði eða annars staðar í líkamanum sem segja til um líffræðilegt ástand einstaklings. Með því að finna slík lífmerki megi greina þá sjúklinga sem eru í mestri hættu af völdum sjúkdómsins og þannig aðlaga meðferð og draga úr langtímaáhrifum sjúkdómsins á einstaklings- og kynjagrundvelli. Þess vegna sé þörf á yfirgripsmiklum langtímarannsóknum þar sem tryggt sé að nægilegur fjöldi karla og kvenna taki þátt.
Ritstjórnargreinin er aðgengileg á vef Physiological Reviews.