Þrír rannsóknastyrkir til fræðimanna á Félagsvísindasviði
Í apríl sl. sendu rannsakendur á Félagsvísindasviði inn fjórar umsóknir í Erasmus+ Strategic Partnership for Higher Education um styrki til kennslu og rannsókna. Í gær varð ljóst að þrír af þessum fjórum styrkjum sem sótt var um voru veittir. Styrkirnir renna til stefnumiðaðra samstarfsverkefna og veita aðilum sem sinna háskólamenntun og þróun háskólastarfs tækifæri til að þróa eða yfirfæra nýjar aðferðir eða leiðir í háskólamenntun í samstarfi við samstarfsaðila í tveimur öðrum þátttökulöndum Erasmus+. Samstarfsverkefnin þurfa að taka mið af stefnumörkun ESB fyrir háskólastigið en geta m.a. snúið að því að auka gæði í háskólamenntun, þróa nýjar námsleiðir og námskrár, efla samstarf við atvinnulíf eða innleiða nýjar kennsluaðferðir.
Styrki hlutu Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Inga Minelgaité, prófessor við Viðskiptafræðideild og Þröstur Olaf Sigurjónsson, prófessor við Viðskiptafræðideild.
Yfirlit yfir styrki:
Umsækjandi: Alþjóðmálastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur um smáríki - Baldur Þórhallsson, Pia Hansson og Tómas Joensen
Titill: Leadership in Small States
Heildarupphæð styrks: 212.146 evrur
Umsækjandi: Inga Minelgaité
Titill: Projectification and Sustainable Governance of Projects
Heildarupphæð styrks: 186.120 evrur
Umsækjandi: Þröstur Olaf Sigurjónsson
Titill: Teaching Institutional Resilience and Prompt Reaction to Crisis: Good Governance Experience in Europe
Heildarupphæð styrks: 262.520 evrur
Fyrir hönd Félagsvísindasviðs óska Stefán Hrafn Jónsson, forseti sviðsins og Hulda Proppé, rannsóknastjóri sviðsins styrkþegum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.