Fjarkynning á hundrað framhaldsnámsleiðum
Um hundrað leiðir í framhaldsnámi við Háskóla Íslands verða kynntar í streymi á netinu strax eftir páska en umsóknarfrestur um framhaldsnám hefur verið framlengdur til 20. maí. Þetta gerir öllum kleift að kynna sér vel framboð skólans án þess að þurfa að víkja frá tölvunni eða smátækinu. Til viðbótar því að horfa á námskynningu er hægt að senda inn spurningar sem reynt verður að svara jöfnum höndum eftir því sem þær berast.
Sérfræðingar námsleiða, deilda og fræðasviða Háskólans munu leiða þessar fjarkynningar og fara þær fram fyrstu tvær vikurnar eftir páska. Kynningarnar verða með þessum hætti:
• Félagsvísindasvið 15. apríl
• Heilbrigðisvísindasvið 16. apríl
• Hugvísindasvið 17. og 22. apríl
• Menntavísindasvið 20. apríl
• Verkfræði- og náttúruvísindasvið 21. apríl.
Ítarleg dagskrá fjarkynninganna er hér.
Eins og áður sagði er hægt að fylgjast með fjarkynningunum úr öllum snjalltækjum og tölvum. Á fjarkynningunum verða veittar ítarlegar upplýsingar um samsetningu hverrar námsleiðar, inntökuskilyrði, fyrirkomulag lokaverkefna, atvinnumöguleika og margt fleira. Þá verður hægt að senda inn spurningar í netspjalli um leið og kynningin fer fram.
Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands mun einnig verða með kynningu á sinni þjónustu en þau sem eru að velja sér nám eru hvött til að leita eftir þjónustu einingarinnar.
Í heildina eru yfir tvö hundruð námsleiðir í boði í framhaldsnámi við Háskóla Íslands og opna þær leiðina að fjölbreyttum tækifærum í atvinnu- og þjóðlífi bæði á Íslandi og víða um heim.
Á vef skólans um framhaldsnám er hægt að sjá gagnalegar upplýsingar um allt framhaldsnám í boði.
Umsóknarfresturinn var framlengdur í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra háskóla á Íslandi. Markmiðið er að auka aðgengi að háskólum landsins í ljós vaxandi atvinnuleysis sem hlýst af COVID-19 faraldrinum. Háskóli Íslands hefur áður tekið á móti miklum fjölda nemenda þegar þjóðin hefur skyndilega staðið frammi fyrir þrengingum og miklu atvinnuleysi. Þannig hefur skólinn tekið þátt í að milda efnahagsþrengingar á Íslandi samhliða því að mennta fólk til nýrra áskorana.