Þorskastríðunum er ekki lokið. Hvernig fortíðin er notuð og misnotuð í samtímaumræðu
Árnagarður
Stofa 301
Fimmtudaginn 17. október flytur hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fyrirlestur sem ber yfirskriftina: The Cod Wars are not over. The use and abuse of the past in present debates. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands stendur að fyrirlestrinum í samvinnu við The North Atlantic Fisheries History Association (NAFHA) og markar hann upphaf ráðstefnunnar Re-visiting Fisheries History – Re-visiting Iceland, sem samtökin halda í Háskóla Íslands dagana 17.–18. október. Fyrirlesturinn er í stofu 301 í Árnagarði kl. 11.00 – hann er fluttur á ensku og er öllum opinn.
Í fyrirlestrinum ræðir Guðni Th. Jóhannesson um gildi sögunnar í umræðum um málefni líðandi stundar. Hann beinir einkum sjónum að því hvernig minningar um þorskastríðin lifa með þjóðinni og hvernig þeim hefur verið beitt á opinberum vettvangi.
Guðni Th. Jóhannesson er doktor í sagnfræði frá Queen Mary, University of London. Hann hefur verið afkastamikill fræðimaður í stjórnmálasögu lýðveldistímans og fjallað m.a. um ríkisstjórnir og forsetaembættið, kalda stríðið og fjármálakreppuna 2008. Eftir Guðna liggur fjöldi bóka og greina, m.a. Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns, 1968–1980 (2005); Óvinir ríkisins. Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (2006); Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (2009); Gunnar Thoroddsen. Ævisaga (2010); og Fyrstu forsetarnir: Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld (2016).
Guðni hefur sérstaklega látið sig varða sögu þorskastríðanna og þýðingu þeirra, bæði í kennslu og rannsóknum. Doktorsritgerð hans fjallaði um þorskastríðin og var gefin út undir heitinu Troubled waters. Cod war, fishing disputes, and Britain´s fight for the freedom of the high seas, 1948-1964 (2007). Þá skrifaði hann Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins 1948-1976 (2006), auk þess sem hann hefur skrifað fjölda fræðigreina um efnið.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.