Watanabe styrktarsjóðurinn auglýsir eftir umsóknum um styrki til náms- og rannsóknadvala í Japan og á Íslandi fyrir skólaárið 2025-2026. Umsóknarfrestur er til og með 1. febrúar 2025. Sjóðurinn veitir styrki til nemenda og akademískra starfsmanna á öllum fræðasviðum Háskóla Íslands til náms- eða rannsóknadvalar í Japan og það sama gildir um nemendur og vísindamenn við japanska háskóla, sem eiga þess kost að fá styrk til dvalar við Háskóla Íslands. Nemendur í grunn- og framhaldsnámi geta sótt um ferða- og uppihaldsstyrk til allt að níu mánaða námsdvalar. Mánaðarlegur uppihaldstyrkur nemur 150.000 JPY vegna dvalar í Japan og 200.000 kr. vegna dvalar á Íslandi. Auk þess geta styrkþegar sem dvelja lengur en einn mánuð sótt um allt að 200.000 kr. í ferðastyrk. Sjóðurinn veitir ekki styrk fyrir skólagjöldum eða öðrum kostnaði. Akademískt starfsfólk getur sótt um allt að 500.000 kr. ferða- og dvalarstyrk til styttri dvalar (allt að einum mánuði), sem tengist fræðistörfum eða rannsóknasamstarfi milli Háskóla Íslands og háskóla í Japan. Tilgangur Watanabe-sjóðsins er að styrkja fræðileg tengsl Íslands og Japans. Stjórn Watanabe-sjóðsins metur umsóknir og velur styrkhafa. Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna styrkumsókn. Umsóknir og fylgigögn skal senda með tölvupósti á netfangið watanabe@hi.is fyrir miðnætti 1. febrúar 2025. Athugið að umsóknir og fylgigögn eiga að vera á ensku. Umsóknareyðublað - Nemendur Umsóknareyðublað - Starfsfólk Fyrirspurnum skal beint á netfangið watanabe@hi.is eða í síma 525-4311. ---- Watanabe styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 með rausnarlegri gjöf Hr. Toshizo (Tom) Watanabe með það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Watanabe sjóðurinn veitir íslenskum háskólanemum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska nemendur og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands. Frekari upplýsingar um sjóðinn og lokaskýrslur Um Tozisho Watanabe Hr. Tozisho (Tom) Watanabe stofnandi sjóðsins er formaður Toshizo Watanabe Foundation og stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Nikkel Global fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Hr. Watanabe hlaut styrk frá Wien International Scholarship Program (WISP) til náms við Brandeis háskólann í Massachusetts í Bandaríkjunum. Í Brandeis kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og tókst með þeim góð vinátta. Hr. Watanabe er ævinlega þakklátur fyrir námsstyrkinn og þau tækifæri sem menntun hans í Bandaríkjunum veitti honum. Hann vildi því koma á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Watanabe hafði samband við Geir H. Haarde, sinn gamla skólabróður, með það í huga að stofna styrktarsjóð við íslenskan háskóla og efla tengsl Íslands og Japan. Í kjölfarið var Watanabe-styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands stofnaður árið 2008. Stofnféð var 3 milljónir bandaríkjadala og árið 2018 bætti Hr. Watanabe veglegri peningagjöf við sjóðinn að upphæð tveimur milljónum bandaríkjadala. Stjórn sjóðsins Stjórn sjóðsins er skipuð þremur fulltrúum til þriggja ára. Rektor Háskóla Íslands skipar formann sjóðsins, Tom Watanabe og Geir Haarde, eða ættingjar þeirra, einn stjórnarmann hvor. Í stjórn sjóðsins sitja: Eiríkur Smári Sigurðarson, sérfræðingur og rannsóknastjóri við Hugvísindasvið, formaður stjórnar Toshizo „Tom“ Watanabe, stofnandi sjóðsins Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra og sendiherra facebooklinkedintwitter