Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki. Styrkþegi skal halda fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki eigi síðar en tveimur árum eftir að honum var veittur styrkurinn. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 af Elínu Brynjólfsdóttur, dóttur Brynjólfs Bjarnasonar, og manni hennar, Gottfred Vestergaard. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Stjórn sjóðsins Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og skulu þeir tilnefndir af eftirtöldum aðilum, einn af hverjum: afkomendur Brynjólfs Bjarnasonar, stjórn Félags áhugamanna um heimspeki, háskólaráð Háskóla Íslands. Í stjórn sjóðsins frá 1. júlí 2020 til 30. júní 2023 eru: Frida Vestergaard, tilnefnd af afkomendum Brynjólfs Bjarnasonar Eyjólfur Kjalar Emilsson, tilnefndur af Félagi áhugamanna um heimspeki Björn Þorsteinsson, prófessor, tilnefndur af háskólaráði Staðfest skipulagsskrá Skipulagsskrá fyrir Heimspekisjóð Brynjólfs Bjarnasonar.1. gr. Heiti sjóðsins er Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar. 2. gr. Stofnendur sjóðsins eru Elín Brynjólfsdóttir, dóttir Brynjólfs Bjarnasonar, og maður hennar Gottfred Vestergaard. Hafa þau þegar lagt fram kr. 1.000.000,00 til stofnunar sjóðsins og hefur sú fjárhæð verið falin Háskóla Íslands til varðveislu og skal sjóðurinn alltaf vera í vörslu skólans. 3. gr. Stofnfé og tekjur sjóðsins eru: Framangreint fjárframlag, sbr. 2. gr. Minningargjafir um Brynjólf er síðar kunna að berast sjóðnum. Vaxtatekjur og aðrar tekjur af eigum sjóðsins. 4. gr. Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki. Að jafnaði skal veittur styrkur úr sjóðnum þriðja hvert ár og skal auglýst opinberlega eftir umsóknum. Styrkþegi skal halda fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki eigi síðar en tveimur árum eftir að honum var veittur styrkurinn. 5. gr. Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og skulu þeir útnefndir af eftirtöldum aðilum, einn af hverjum: Afkomendur Brynjólfs Bjarnasonar, stjórn Félags áhugamanna um heimspeki, háskólaráð Háskóla Íslands. Stjórnin kýs sér formann. Fari svo að einhver ofangreindra aðila verði ekki til staðar eða útnefni ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins, skal heimspekideild Háskóla Íslands útnefna fulltrúa í þeirra stað. 6. gr. Komi fram tillaga um breytingu á skipulagsskrá þessari skal boða til stjórnarfundar og telst tillagan samþykkt, ef allir stjórnarmenn greiða henni atkvæði. Sama gildir, ef tillaga kemur fram um að leggja sjóðinn niður. Ef sjóðurinn er lagður niður skulu fjármunir hans renna óskiptir til Félags áhugamanna um heimspeki. 7. gr. Stjórnin skal leitast við að ávaxta sjóðinn á sem hagkvæmastan hátt þannig að hann nái að þjóna tilgangi sínum sem best. Aldrei má veita einstaklingi lán úr sjóðnum. 8. gr. Höfuðstóll sjóðsins er myndaður af fjárframlagi því sem greint er frá í 2. gr. Fyrst skal veitt fé úr sjóðnum er höfuðstóll hefur verið ávaxtaður í þrjú ár. Þá má veita styrki úr honum sem nema allt að 95% af vaxtatekjum hans. Það sem umfram er og aðrar tekjur skal leggja við höfuðstólinn. Höfuðstólinn skal aldrei skerða. 9. gr. Endurskoðendur sjóðsins eru endurskoðendur sjóða Háskóla Íslands kjörnir af háskólaráði. 10. gr. Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 19. desember 1990. F. h. r. Þorsteinn Geirsson. Fanney Óskarsdóttir facebooklinkedintwitter