Rannsókn á tengslum listar og samfélags fékk veglegan styrk
Rannsóknarverkefnið FEINART hefur fengið veglegan Marie Curie styrk úr HORIZON 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Háskóli Íslands og Listaháskóli Íslands eru þátttakendur í verkefninu ásamt fleiri skólum og listasöfnum, en það er Wolverhampton-háskóli sem fer með stjórn þess.
Styrkurinn nemur rúmlega þremur milljónum evra og fyrir hluta hans verða ráðnir þrír doktorsnemar við Háskóla Íslands á næsta ári, en alls munu ellefu doktorsnemar vinna við verkefnið. Þeir munu m.a. rannsaka list sem felur í sér þátttöku og beinar aðgerðir, þróun hugmynda um gildi slíkrar listar og tengsl listar og samfélags hér á landi þar sem Ísland verður tekið sem dæmi um jaðarsvæði í Evrópu.
Það eru þeir Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki, Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði og Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði sem leiða verkefnið af hálfu Háskóla Íslands en Bryndís H. Snæbjörnsdóttir prófessor fyrir hönd Listaháskóla Íslands.