Skip to main content
16. janúar 2019

Kesara tekin inn í Konunglega breska smásjárfélagið

""

Kesara Margrét Anamthawat-Jónsson, prófessor í grasafræði og plöntuerfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild  Háskóla Íslands, var tekin inn sem meðlimur (e. fellow) í Konunglega breska smásjárfélagið (The Royal Microscopical Society - RMS) nú um áramótin, fyrst íslenskra vísindamanna.

Konunglega breska smásjárfélagið er fagfélag um smásjártækni í vísindum og var stofnað árið 1839. Félagið styður bæði rannsóknir og kennslu í smásjártækni og stendur m.a. fyrir ráðstefnum, námskeiðum og vísindamiðlun á þessu sviði. Það vinnur jafnframt að því að kynna félagsmönnum nýjustu tækni og þekkingu á fræðasviðum þar sem smásjártæknin nýtist. Félagið er eitt hið stærsta og virkasta á þessu sviði í heiminum með yfir 1.500 félaga.

Kesara hefur látið mikið að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi innan fagfélaga á sviði smásjártækni og hefur m.a. gegnt embætti forseta SCANDEM Nordic Microscopy Society, fagfélags á Norðurlöndum um smásjártækni, bæði á sviði líf- og eðlisvísinda, frá janúar 2014. Um 300 félagar eru í SCANDEM sem heldur árlega ráðstefnu og hefur hún tvisvar farið fram hér á landi, 2009 og 2017, bæði skiptin í Háskóla Íslands.

Í gegnum störf sín sem forseti SCANDEM var Kesöru boðið sæti í stjórn Konunglega breska smásjárfélagsins, fyrst vísindamanna utan Bretlands, en markmiðið með setu hennar þar var að styrkja samstarf breskra og norræna vísindamanna sem láta sig smásjártækni miklu varða.  
Kesara sat í stjórn Konunglega breska smásjárfélagsins frá miðju ári 2015 fram á haustmánuði 2018. Í framhaldinu var ákveðið að sæma hana titlinum Fellow of the Royal Microscopical Society fyrir framúrskarandi störf.

Kesara segir félögin tvö, SCANDEM og RMS, hafa náð miklum árangri saman, meðal annars innan Evrópska og Alþjóðlega smásjárfélgsins, og spennandi tímar séu fram undan á sviði smásjártækni. Þá hafi Sameinuðu þjóðirnar ákveðið fagna hundrað ára afmæli rafeindasmásjárinnar með því lýsa árið 2023 ár smásjárinnar. 

Kesara nýtir smásjártæknina mikið í sínum rannsóknarstörfum, sem snúa að erfðafræði íslenskra plantna, og hefur hún gert ýmsar uppgötvanir á því sviði í samvinnu við nemendur og samstarfsaðila bæði innan lands og utan. Meðal þess sem hún hefur rannsakað er erfðafræðileg blöndun íslenska birkisins við fjalldrapa og erfðalandfræði og landnám plantna eins og melgresis, fjöruarfa og krækilyngs í Surtsey. 

Lesa má um rannsóknir Kesöru á Vísindavefnum.

Kesara Margrét Anamthawat-Jónsson