Skip to main content

Virkjanir og ferðamennska

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild

Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár eins og nánast hver einasti íbúi þessa lands hefur orðið áþreifanlega var við. Rannsóknir á ferðaþjónustu, þessari ört vaxandi atvinnugrein, hafa líklega aldrei verið jafnáríðandi og ekki síst þær rannsóknir sem snúa að samspili ferðaþjónustu við lífríki, víðerni og nýtingu auðlinda.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði, hefur beint sjónum að náttúrutengdri ferðamennsku undanfarin ár í rannsóknum sínum. Hún hefur horft sérstaklega til skipulags á hálendinu, þolmarka landsvæða auk orkuframleiðslu og virkjana og hvernig þetta síðasttalda fer saman við áhuga ferðamanna og upplifun þeirra.

Anna Dóra segir að frá árinu 1999 hafi verið unnið að því að flokka vatnsföll og háhitasvæði hér á landi í vernd eða orkunýtingu í verkefni sem í daglegu tali kallist rammaáætlun. Hvort tveggja er á meðal þess sem dregur ferðafólk til landsins. Anna Dóra segir að rammaáætlun hafi verið unnin í þremur áföngum, þeim fyrsta hafi lokið árið 2003, öðrum árið 2010 og og þeim þriðja sé að mestu lokið.

Fjórir faghópar, sem skipaðir eru sérfræðingum á ýmsu sviðum, leggja mat á áhrif virkjananna í þriðja áfanga rammaáætlunarinnar. Anna Dóra er formaður þess faghóps sem lagði mat á áhrif virkjana á ferðamennsku og útivist.

 

Anna Dóra Sæþórsdóttir

„Leitast var við að varpa ljósi á hver viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustunnar eru til einstakra virkjunarhugmynda og til mismunandi tegunda orkuframleiðslu. Einnig var varpað ljósi á aðdráttarafl staðanna, hvernig ferðamenn skynja staðina, hversu ánægðir þeir eru með heimsókn sína, hvaða afþreyingu ferðamenn stunda og hvaða mannvirki eru æskileg á svæðunum að mati ferðamanna.“

Anna Dóra Sæþórsdóttir

„Í fyrsta og öðrum áfanga rammaáætlunar var byggt á takmörkuðum gögnum um ferðamennsku og útivist en þess í stað stuðst við þekkingu sérfræðinga. Í ljósi vaxandi mikilvægis ferðaþjónustunnar og aukinnar útivistar landsmanna þótti brýnt að byggja niðurstöður þriðja áfanga rammaáætlunar á áreiðanlegri og betri gögnum. Fjármagn fékkst frá umhverfisog auðlindaráðuneytinu til að ráðast í nokkur rannsóknarverkefni sem ég var fengin til að stýra,“ segir Anna Dóra.

Könnuð voru sérstaklega áhrif þrettán virkjunarhugmynda á ferðamennsku og útivist, þar með talið í Skjálfandafljóti, jökulánum í Skagafirði, Skaftá, á Sprengisandi og á Reykjanesi.

„Leitast var við að varpa ljósi á hver viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustunnar eru til einstakra virkjunarhugmynda og til mismunandi tegunda orkuframleiðslu. Einnig var varpað ljósi á aðdráttarafl staðanna, hvernig ferðamenn skynja staðina, hversu ánægðir þeir eru með heimsókn sína, hvaða afþreyingu ferðamenn stunda og hvaða mannvirki eru æskileg á svæðunum að mati ferðamanna,“ segir Anna Dóra.

Rannsóknarverkefnunum er nú lokið og kom í ljós að ferðamenn á þessum stöðum eru frekar andvígir virkjunarhugmyndum á umræddum svæðum, að sögn Önnu Dóru. Það er þó mismunandi eftir svæðum.

„Minnst var andstaðan við Seltún á Reykjanesi en meiri á rannsóknarsvæðunum á hálendinu. Þessar niðurstöður voru nýttar í mati faghópsins á áhrifum virkjana og byggðist endanleg tillaga að röðun virkjunarkosta, sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fyrir Alþingi haustið 2016, að hluta til á þeirri vinnu.“