Náms- og starfsráðgjafar veita upplýsingar um nám og ráðgjöf um námsval, bjóða upp áhugakönnun Bendil III og halda námskeið, s.s. um námstækni og lokaverkefni. Þú getur bókað viðtal við ráðgjafa hér. Þú getur auðveldað þér námsvalið með því að skoða námsleiðir Háskóla Íslands í námsvalshjólinu og gagnlegar leiðbeiningar um námsval þitt hér. Náms- og starfsráðgjafar geta aðstoðað þig við að skoða styrkleika þína eða þú getur tekið styrkleikakönnun á netinu. Sjá einnig gagnlegt efni hér fyrir neðan. Örfyrirlestrar Tímastjórnun Undirbúningur fyrir próf Próftaka Vinnuferli háskólanema Markmiðasetning í námi Frestun Glósugerð Vellíðan í námi Gerð ferilskrár Gerð kynningarbréfs Atvinnuviðtalið Núvitund 3 mínútur Núvitund 6 mínútur Slökun Vinsamlegast athugið að það þarf að skrá sig í gegnum Uglu til að fá aðgang að núvitundar- og slökunarupptökum. Námsvenjur Hugtakið námsvenjur felur í sér hegðunarmynstur sem er viðhaldið af ákveðnum áhrifaþáttum eins og viðhorfi til námsins, vinnuaðstæðum, sjálfsmati og fyrri námsvenjum. Háskólanám gerir aðrar kröfur um vinnubrögð en nemendur hafa átt að venjast á fyrri skólastigum þess vegna þurfa þau að endurskoða námsvenjur sínar í upphafi náms. Þar sem tímasókn er lítil er sjálfsnám mikið og þá reynir á sjálfstæði og gott skipulag. Nemandi býr yfir námsvenjum en tileinkar sér námstækni. Góður árangur í námi byggir því að miklu leyti á ástundum og iðjusemi. Hvernig á háskólanemandi að læra? Hvað hvetur nemanda áfram í námi? Þurfir þú á aðstoð að halda í námi getur þú bókað viðtal við ráðgjafa hér. Tímastjórnun Í hverri viku eru 168 klukkustundir. Það er á þína ábyrgð að forgangsraða hvernig þú vilt verja þessum tíma og hegða þér í samræmi við það. Þegar þú segist ekki hafa nægan tíma þá ertu kannski í raun að segja að þú sért ekki að verja tímanum eins og þú vildir gera. Tímaáætlanir eru grundvallaratriði í tímastjórnun og m.a. nauðsynleg forsenda þegar stór verkefni eru brotin niður í smærri áfanga. Tímaáætlanir eru mikið notaðar, bæði af fólki í stjórnunarstörfum og námi og eru mjög gagnlegar fyrir þá sem keppast við að ná settum markmiðum í lífinu. Tímaáætlun gefur ákveðið frelsi. Hún eykur yfirsýn yfir námið og gefur þér tíma til að gera það sem er nauðsynlegt, en hún gefur þér einnig kost á að skipuleggja frítíma þinn. Áður en þú ferð að vinna eftir ákveðnu skipulagi er nauðsynlegt að þú gerir þér fulla grein fyrir því hvernig þú ert að nýta tíma þinn, en fæst okkar hafa skýra mynd af því í hvað tíminn raunverulega fer. Til þess að átta þig á því getur þú t.d. skráð í eina til tvær vikur í hvað tími þinn fer, s.s. hversu mikil tímasókn er hvern dag, hversu mikill tími fer í heimalærdóm, hvað áhugamálin eða fjölskyldan taka mikinn tíma o.s.frv. Þessi dagbókarskráning er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að gera raunhæfa áætlun. Markmið með dagbókarskráningu er að gera þig meðvitað/a/n um í hvað þú verð tíma þínum. Þegar þú veist það getur þú farið að breyta ýmsu í fari þínu og lífsháttum og fundið tíma til að gera það sem þú telur vera mikilvægt. Hægt er að vinna tímaáætlun og dagbókarskráningu samhliða. Þú gerir áætlun fyrir viku í senn og í lok hvers dags skráir þú hvort áætlun stóðst eða ekki. Ef ekki, þá skráir þú í hvað annað tíminn fór. Gerð tímaáætlana Byrjaðu á því að setja inn á vikuáætlun alla fasta þætti, s.s. fyrirlestra, verklega tíma, matartíma, líkamsþjálfun, skyldur í einkalífi og frítíma. Áætlaðu vikulega yfirferð í hverju námskeiði, en þó alltaf með heildina í huga. Hver námsgrein verður að fá einhvern lágmarkstíma á viku, a.m.k. nægan tíma til að skila verkefnum tímanlega og fylgja kennara eftir í yfirferð. Skiptu þeim tíma sem er til ráðstöfunar niður á milli námskeiða til heimanáms. Við upphaf hverrar viku er gott að forgangsraða þeim verkefnum sem framundan eru, til að koma í veg fyrir að mikilvæg verkefni sitji á hakanum. Gott er að hafa í huga að ná ákveðinni heild út úr degi hverjum og skipuleggja daginn þannig að farið sé yfir krefjandi efni þegar fólk er yfirleitt vel upplagt og léttara efni á öðrum tímum dags. Taktu mið af þyngd efnis þegar þú skipuleggur lengd á vinnulotum. Ef þú ert að frumvinna þungt efni getur verið gott að sitja fremur stutt við í einu, t.d. í 20-30 mínútur. Við upprifjun, verkefnavinnu og frágang ættu vinnulotur hins vegar að vera a.m.k. klukkustund að lengd. Síðan má lengja vinnulotur smám saman með því að bæta t.d. 15 mínútum við. Hafa þarf stíganda í skipulaginu og miklu máli skiptir að þú setjir þér raunhæf og framkvæmanleg markmið. Ef þú ætlar þér of mikið er hætt við að þér mistakist að fylgja áætlun. Það er því mikilvægt að nálgast tímastjórnun með því hugarfari að það ert þú sem ert við stjórnvölinn. Það ert þú sem gerir tímaáætlun og ákvarðar hvað er mikilvægt og hvað ekki. Endurskoðaðu áætlun í vikulok og leggðu mat á árangurinn. Nýttu þér niðurstöðurnar við gerð næstu áætlunar og smám saman áttar þú þig betur á því hve löngum tíma þarf að verja til hvers verks. Byrjaðu ekki með svo strangt skipulag að það sé fyrirfram dæmt til að mistakast. Það veitir aukið sjálfstraust þegar áætlun stenst. Betra er að hafa frítímana aðeins fleiri og lengri fyrstu vikurnar meðan komist er í þjálfun og stytta þá síðan smám saman. Hugsaðu hlýlega til þín í hvert skipti sem þú tekur spor í rétta átt og verðlaunaðu þig fyrir hvert smáskref, en ekki aðeins fyrir stórfengleg afrek. Þurfir þú á aðstoð að halda varðandi t.d. tímastjórnun bókaðu viðtal við ráðgjafa hér. Eyðublöð fyrir tímaskipulag Dagatal janúar - júní 2025 Dagatal júlí - desember 2025 Dagatal ágúst - desember 2024 Vikuskipulag - 1/2 klst Vikuskipulag - 1 klst Vikuskipulag mán - mið Vikuskipulag fim - föst Námstækni Skilvirk vinnubrögð Undirbúningur fyrir próf Próftímabil einkennast af miklu álagi sem nemendur valda misvel. Bætt vinnubrögð og árangursrík námstækni geta dregið úr álagi í námi og á próftímabilum og komið í veg fyrir streitu og kvíða. Prófundirbúningi má skipta í tvennt; annars vegar undirbúning sem snýr að efnislegri yfirferð og námstækni og hins vegar persónulegan undirbúning. Efnisleg yfirferð og námstækni: Forgangsröðun: Það er mikilvægt að forgangsraða verkefnum og velta fyrir sér hvað er mikilvægt og/eða nauðsynlegt að framkvæma á próftímabilinu og hvað getur beðið betri tíma. Oft þarf að gera tímabundnar breytingar á forgangsröðun því próftímabil er álagstími, þar sem próflestur verður að hafa forgang. Hugstormun og efnisflokkun: Gott getur verið að hefja próflestur á því að láta hugann reika í nokkrar mínútur og hugsa; „hvað þarf ég að kunna fyrir próf í þessari námsgrein“? Síðan er hægt að gera gátlista eða flokka efnið niður eftir efnisatriðum, t.d. út frá kennsluáætlun, glósum eða kennslubók. Þannig má brjóta námsefnið niður í smærri einingar til að gera það viðráðanlegra. Langtímaáætlanir: Mikilvægt er að gera langtímaáætlun fyrir allt próftímabilið til þess að fá heildarsýn. Ákveða þarf hvenær á að læra fyrir hvert próf og hversu lengi. Nýta þarf vel tímann ef stutt er á milli prófa. Daglegar tímaáætlanir: Gott er að gera áætlun fyrir hvern dag með hliðsjón af heildarskipulaginu, en mun nákvæmari. Hafa þarf í huga; „hvaða námsgrein ætla ég að læra,“ „hvar ætla ég að læra,“ „á hvaða tíma“ og „hversu lengi“? Gera þarf ráð fyrir upprifjun á efni í lok hvers dags. Vinnulotur: Tengjast daglegri tímaáætlun. Vinna þarf í hæfilega löngum lotum og taka mið af þyngd efnis hverju sinni. Nauðsynlegt er að taka hlé á milli lestrarlota og skipta um vinnuaðferð eða námsgrein ef einbeiting fer að dala. Gott er að taka mið af því hvenær dags maður er best upplagður. Upprifjun: Endurtekning er besta aðferðin til að muna og hvað varðar undirbúning fyrir próf þá er það upprifjun sem vegur þyngst á metunum. Mikilvægt er að gera ráð fyrir markvissri upprifjun inni í áætlunum; við lok hvers efnisþáttar og í lok hvers dags, ásamt t.d. vikulegri upprifjun. Auk upprifjunar eru til ýmsar minnisaðferðir sem geta auðveldað lærdóm. Almennt ganga þær út á það að flokka, raða og skipuleggja upplýsingar með einhverjum hætti og ljá þeim merkingu, t.d. með því að muna fyrsta staf í hverju hugtaki sem þarf að muna, búa til orðleysu úr fyrstu stöfum hvers orðs o.s.frv. Námsumhverfi: Það er mikilvægt að þú íhugir hvar þér finnst best að læra. Þá skiptir máli að reyna að velja umhverfi þar sem fátt getur truflað. Það er einstaklingsbundið hvað hentar best en aðstæður sem ýta einna helst undir nám eru lesstofur eða sérstök vinnuherbergi. Persónulegur undirbúningur: Uppbyggilegt sjálfstal: mikilvægt er að forðast niðurrifshugsanir og niðurrifstal um okkur sjálf, þar sem við gerum ráð fyrir vanmætti og vangetu. Þess í stað er hjálplegt að temja sér uppbyggilegt sjálfstal þar sem við leggjum áherslu á árangur og getu okkar til að glíma við verkefni eða próf. Hreyfing: skiptir alltaf miklu máli en er nauðsynleg á próftímabilum. Það er mikil áreynsla, bæði líkamleg og andleg, að læra fyrir próf og hreyfing er nauðsynleg til að fyrirbyggja úthaldsleysi eða vöðvabólgu. Flestir geta fundið einhverja hreyfingu sem hentar þeim, s.s. gönguferðir, sund eða hjólreiðar. Slökun: dregur úr streitu sem oft fylgir prófundirbúningi. Hægt er að læra slökun en einnig eru til margar persónubundnar leiðir til slökunar, s.s. í gegnum hreyfingu, tónlist, lestur o.fl. Hvíld: gæta þarf þess að fá nægan svefn því ónógur svefn kemur niður á getu manns til að muna og tileinka sér nýja þekkingu. Gott er að nota slökun ef illa gengur að sofna á kvöldin. Mataræði: matarvenjur tengjast orku og einbeitingu. Á próftímabili er nauðsynlegt að gæta vel að mataræðinu, borða hollan og góðan mat og falla ekki fyrir skyndiréttum, sælgæti, gosi og kaffi, eins og auðvelt er að gera þegar maður er undir álagi og í sífelldu kapphlaupi við tímann. Í prófi: Mættu tímanlega til prófs. Forðastu að taka þátt í streituvaldandi umræðum um prófið áður en þú gengur inn í prófstofu. Í upphafi prófs skaltu gefa þér tíma til að koma þér fyrir og undirbúa þig andlega. Skráðu minnisatriði á rissblað, s.s. formúlur, lykilhugtök og annað sem þér er ofarlega í huga þegar þú sest inn í prófstofu. Mundu að lesa spurningar og/eða leiðbeiningar mjög vel. Lestu yfir allt prófið og byrjaðu síðan á að svara því sem þú ræður best við. Gott er að vita vægi hverrar spurningar eða prófhluta og gæta þess að skipta próftímanum niður á spurningar með hliðsjón af vægi þeirra. Gott er að skipuleggja svar við ritgerðarspurningu með því að gera ágripskennda beinagrind að svari á rissblað. Ef þú getur ekki svarað prófspurningu geymir þú hana og kemur að henni síðar í prófinu. Einbeittu þér að prófinu en eyddu ekki tímanum í að fylgjast með samnemendum eða hugsa um hvað þú hefðir átt að gera, eða gætir hafa gert, áður en þú fórst í þetta próf. Námshópar og hópavinna - gagnlegar ábendingar Hvernig geta nemendur myndað námshópa að eigin frumkvæði til að læra saman og/eða til að vinna hópverkefni? Eftirfarandi ábendingar eiga jafn vel við hvort sem hópurinn vinnur saman á staðnum eða í gegnum netið. Útgangspunkturinn er að vinna saman og læra hvert af öðru. Í námshópi færðu: Nýtt sjónarhorn á viðfangsefnið. Dýpri og betri skilning á efninu. Endurgjöf á hugsanir þínar um námsefnið og lausnir á verkefnum. Tækifæri til að kenna/leiðbeina öðrum. Þjálfun í að vinna með öðrum. Þegar þú lærir með öðrum skoðar þú viðfangsefnið út frá fleiri hliðum og ættir því að fá skýrari heildarmynd og dýpri þekkingu á því. Rannsóknir sýna að nemendum finnst gott að læra af samnemendum sem hafa góðan skilning á námsefninu. Nemendur læra vel af því að kenna öðrum og tala um námsefnið. Aðrir kostir við námshópa: Þeir veita nemendum aðhald í námi. Þeir auka ábyrgðartilfinningu nemenda. Nemendur þora frekar að tjá sig og spyrja spurninga. Nemendur læra þar nýja námstækni. Stuðningur og félagsskapur við samnemendur er mikilvægur. Þegar þú ert búin/n að skuldbinda þig til þess að taka þátt í starfi með öðrum, þar sem allir njóta góða af samvinnu, þá vilt þú leggja þitt af mörkum. Aðrir treysta á framlag þitt eins og þú treystir á þeirra. Stuðningur, skilningur og hvatning frá samnemanda getur hjálpað öðrum og eru mikilvægir þættir í góðum námshópum. Hvernig á að mynda námshóp? Reyndu að kynnast samnemendum með því að sýna frumkvæði í samskiptum til dæmis með því að: Vera fyrst/ur til að segja hæ. Taka þátt í spjallþráðum og sameiginlegum umræðum. Hafa samband við áhugasama nemendur og stinga upp á að vinna saman. Vera á þeim stöðum þar sem aðrir úr námskeiðinu sinna náminu, þar sem það á við. Hvað á svo að gera? Skiptast á netföngum og símanúmerum. Útskýra vinnureglur. Velja nemendur í hópinn. Allir verða að undirbúa sig vel. Velja góðan „vinnustað“ - á netinu eða annars staðar. Einstaklingar í hópnum hafa ólíka styrkleika sem mynda sterka heild. Mikilvægt er að allir í hópnum skilji hvað felst í samvinnu og undirbúi sig vel. Hvort sem valið stendur um að hittast eða vinna í gegnum netið þá þarf að huga að námsumhverfinu til að koma í veg fyrir að fólk missi athygli frá því sem þarf að gera, þrátt fyrir góðan ásetning. Hvernig vinnum við í námshópi? Til dæmis með því að: Byrja á að velja hópstjórnanda, gott að skipta því á milli sín. Hefja vinnu með stuttri upprifjun. Bera saman glósur — skoða helstu atriði. Láta glærur frá kennara stýra umfjöllun. Skipta efni niður á nemendur — margir „sérfræðingar“ í hópnum. Ræða skipulag næsta fundar. Athuga hvort hópurinn þarf t.d. að fá betri skýringar á efni frá kennara. Það er mismunandi hversu formlegir námshópsfundir eru. Sumum finnst þægilegt að útbúa dagskrá og fylgja henni en öðrum hentar betur að ákveða aðeins í grófum dráttum hvernig tíminn er nýttur. Hvað þarf að forðast í námshópum og hópavinnu? Ef umræður snúast ekki lengur um námsefnið, spyrjið ykkur þá hvort tímanum sé vel varið til að undirbúa verkefni eða próf. Tímasetning funda er mikilvæg, hún verður að henta öllum í hópnum. Enginn á komast upp með að mæta óundirbúinn. Ákveðið fyrir fram hversu langar vinnulotur eiga að vera og hvenær þið takið hlé. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um að nýta tímann vel og vera einbeitt/ur. Vera ófeimin/n við að koma með málefnalegar ábendingar um samvinnuna og umbera ekki ábyrgðarleysi. Ef einhver stendur ekki við skuldbindingu sína hvetjið þá viðkomandi til ábyrgðar. Tilgangurinn með hópvinnu er ekki að veita einhverjum fría leiðsögn í námi. Takið regluleg hlé frá vinnu en gætið að lengd þeirra » 10 mínútur á hverja klukkustund. Hópvinna undirbýr einstakling undir þátttöku í atvinnulífinu þar sem oft reynir á færni til að starfa með öðru fólki. Umræða um námsefni og endurgjöf á hugmyndir eru kostir hópvinnu og rannsóknir sýna að nemendur sem vinna ekki aðeins einir heldur einnig í hópum bæta þannig einkunnir sínar. Nám er oft einmanalegt og flestir þurfa á félagsskap að halda. Mikilvægur kostur námshópa er að þar hittum við annað fólk — þar sameinum við nám og þörf okkar fyrir félagsskap. Í námshópum: Höldum okkur við efnið. Hvetjum hvert annað til þess að styrkja veikar hliðar. Forðumst ómálefnanlega og persónulega gagnrýni og eyðum ekki tíma í að kvarta yfir námskeiði eða kennurum. Reynum að efla færni okkar í hópastarfi. Í námshópum hittum við annað fólk með skýr markmið um að nýta tímann vel og læra saman. Bendill III áhugakönnun Gjald fyrir Bendil áhugakönnun er kr. 6.000 og fer skráning og greiðsla fram á Þjónustuborðinu, Háskólatorgi eða í gegnum síma 525-5800. Þú getur haft samband við okkur í síma 525-4315 eða sent póst á radgjof@hi.is til að fá nánari upplýsingar. Bendill III er rafræn íslensk áhugakönnun sem tekur mið af íslensku námsumhverfi og íslenskum vinnumarkaði. Þátttakendur fá myndrænar niðurstöður strax að svörun lokinni sem auðvelt er að lesa úr og tengja áhuga þeirra við íslenskar starfslýsingar og háskólagreinar á Íslandi. Nánari upplýsingar um Bendil, starfslýsingar og námsgreinar á háskólastigi. VIA styrkleikakönnun Styrkleikakönnun VIA getur auðveldað einstaklingum að átta sig betur á eigin styrkleikum. Könnunin metur 24 persónulega styrkleika fólks, sem skipt er í sex flokka: Viska og þekking, hugrekki, manngæska, réttlæti, yfirvegun og vitundarstig. Mismunandi styrkleikar koma fram í ólíkum hlutverkum í lífi fólks og í mörgum tilfellum er hægt að yfirfæra þá og nýta í öðrum hlutverkum. Í VIA könnuninni er tekin afstaða til 120 fullyrðinga og út frá þeim eru styrkleikar einstaklingsins kortlagðir. Könnunin er á ensku og hægt að er að taka hana án endurgjalds hér. Ritver HÍ - aðstoð við fræðileg skrif Ritver Háskóla Íslands býður upp á aðstoð við fræðileg skrif fyrir nemendur og starfsfólk frá öllum deildum og sviðum háskólans á bæði íslensku og ensku. Nemendur HÍ geta pantað viðtalsfund hjá Ritveri HÍ og fengið góð ráð um hvers kyns úrlausnarefni sem tengjast fræðilegum ritgerðum, skýrslum og öðrum skriflegum verkefnum. Heimasíða: https://ritver.hi.is/is Netfang: ritver@hi.is Nafnabreyting nemenda Nemendur við Háskóla Íslands geta sótt um breytingu á nafni í skráningarkerfi skólans, m.a. á grundvelli laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019, sem "kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar". Nafnabreyting er heimiluð í tvö skipti að hámarki meðan á námi stendur. Koma þarf í viðtal til ráðgjafa í Nemendaráðgjöf HÍ (NHÍ) til að sækja um breytingu á nafni í skráningarkerfi Háskólans. Hægt er að bóka viðtal á vefsíðu www.hi.is/nhi Breyting á skráningu nafns hefur áhrif á alla skráningu innan skólans, en athygli er vakin á því að brautskráningarskírteini er gefið út skv. skráningu í Þjóðskrá. Nemandi hefur rétt á að óska eftir því við Nemendaskrá Háskóla Íslands að fá endurútgefið prófskírteini og önnur brautskráningargögn ef skráningu nafns og kyns er breytt í Þjóðskrá eftir brautskráningu. facebooklinkedintwitter