Skip to main content
17. janúar 2022

Vísindamenn tengdir HÍ fá sex öndvegisstyrki úr Rannsóknasjóði

Vísindamenn tengdir HÍ fá sex öndvegisstyrki úr Rannsóknasjóði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn tengdir Háskóla Íslands hlutu þá sex öndvegisstyrki sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Íslands að þessu sinni en niðurstöður úthlutunar voru kunngerðar föstudaginn 14. janúar. Alls fá vísindamenn Háskólans og tengdra stofnana 58 styrki úr sjóðnum að þessu sinni. 

Rannsóknasjóður Íslands, sem er samkeppnissjóður hýstur hjá Rannís, styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda og jafnt doktorsnema sem öndvegisverkefni. Öndvegisstyrkir eru veittir til stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu.

Alls bárust sjóðnum alls 355 gildar umsóknir að þessu sinni og hlutu 82 þeirra styrk eða 23% umsókna. Samanlögð styrkupphæð nam 3,8 milljörðum króna sem hæsta heildarupphæð sem úthlutað hefur verið.

Sex öndvegisstyrkjum var úthlutað að þessu sinni og komu þeir allir í hlut vísindamanna sem tengjast Háskóla Íslands.

Enn fremur var 43 verkefnastyrkjum úthlutað til vísindamanna á afar fjölbreyttum fræðasviðum en 31 þeirra kom í hlut vísindamanna við HÍ og tengdar stofnanir. Þeir starfa m.a. á sviði efnafræði, eðlisfræði, jarðvísinda, verkfræði, lífvísinda, umhverfis- og auðlindafræði, læknisfræði, sameindalíffræði, sálfræði, kynjafræði, menntavísinda, þjóðfræði, hagfræði, heimspeki og tungumála.

Enn fremur fengu aðilar tengdir Háskóla Íslands 8 af 10 úthlutuðum nýdoktorastyrkjum en þeim er ætlað að styrkja rannsóknir vísindafólks sem er að hefja sinn vísindaferil. Styrkt verkefni snerta m.a. efnafræði, jarðvísindi, hagfræði, kynjafræði, lífvísindi, heimspeki og íslensk fræði.

Af 23 doktorsstyrkjum koma 13 í hlut doktorsnema tengdum Háskóla Íslands en þeir fást við allt frá jarðfræði, lífvísindum og ferðamálafræði til félagsfræði, menntavísinda, stjórnmálafræði, þýðingafræði og sagnfræði.

„Þrátt fyrir að um sé að ræða stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi er úthlutunarhlutfall aðeins 23% sem er áfram áhyggjuefni. Það er varla hægt að koma orðum að því hversu mikilvægt það er fyrir þessa þjóð og allt vísindastarf í landinu að hafa sterkan Rannsóknasjóð. Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju með glæsilega styrki sem eru undirstaða mikilvægra rannsóknaverkefna á næstu misserum,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um úthlutnina í helgarkveðju sinni til stúdenta og starfsfólks.

Yfirlit yfir styrkt verkefni úr Rannsóknasjóði Íslands 2022 má nálgast á vef Rannís.

Háskóli Íslands færir styrkþegum innilegstu hamingjuóskir með styrkina.

""