Skip to main content
23. janúar 2020

Tvö tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

""

Tvö verkefni nemenda við Háskóla Íslands eru tilnefnd til Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands sem afhent verða í næstu viku á Bessastöðum. Tilkynnt var um tilnefningar í gær.

Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið að framúrskarandi sumarverkefnum fyrir styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið á undan. Eins og fram kemur á heimasíðu Rannís, sem hefur umsjón með sjóðnum, eiga verkefnin það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en þau eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. 

Valið fer þannig fram að á hverju ári tilnefnir stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Aðeins eitt þeirra hlýtur hins vegar viðurkenninguna. 

Alls eru fimm verkefni tilnefnd í ár og sem fyrr segir koma nemendur við Háskóla Íslands að tveimur þeirra. Þau eru:

Notendahugbúnaður Wave

Genki Instruments er ungt hátæknifyrirtæki sem hefur þróað hringinn Wave sem þýðir blæbrigði mannlegrar tjáningar yfir í skipanir sem tölvur og tæki skilja. Hringurinn nemur fínhreyfingar tónlistarmannsins og leyfir honum að hafa áhrif á sköpun sína á nýjan hátt. Genki sótti um styrk í Nýsköpunarsjóð námsmanna með það að markmiði að smíða sérhæfðan notendahugbúnað fyrir hringinn sem myndi gera fyrstu kynni notenda Wave betri. Fékk hugbúnaðurinn nafnið Softwave. 

Aðstandendur Genki fengu þær Freyju Sigurgísladóttur, nema í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, og Eddu Pétursdóttur, meistaranema í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavik, að verkefninu síðastliðið sumar til þess að byggja ofan á grunn hugbúnaðarins. Verkefnið gekk vonum framar og er útkoma þess fullbúin vara sem fjöldi tónlistarfólks notar nú um allan heim. „Það er ánægjulegt að segja frá því að Softwave kom út á sama tíma og Wave, langt á undan áætlun. Softwave jók bæði sölu og ánægju viðskiptavina, sem mátti glöggt sjá í ánægjukönnun sem send var út í kjölfar útgáfu,“ segir m.a. á heimasíðu Rannís. 

Leiðbeinendur þeirra Freyju og Eddu í verkefninu voru þeir Ólafur Bjarki Bogason, Haraldur Hugosson, Daníel Grétarsson og Jón Helgi Hólmgeirsson, stofnendur Genki Instruments en þess má geta að hugmyndin að hringnum vaknaði í námi í Háskóla Íslands.
 

Hringurinn Wave þýðir blæbrigði mannlegrar tjáningar yfir í skipanir sem tölvur og tæki skilja. Hringurinn nemur fínhreyfingar tónlistarmannsins og leyfir honum að hafa áhrif á sköpun sína á nýjan hátt. Genki sótti um styrk í Nýsköpunarsjóð námsmanna með það að markmiði að smíða sérhæfðan notendahugbúnað fyrir hringinn sem myndi gera fyrstu kynni notenda Wave betri. Fékk hugbúnaðurinn nafnið Softwave. MYND/Genki Instruments

Tengsl óeðlilegs blóðhags við bráða fylgikvilla og langtíma útkomu eftir skurðaðgerðir

Í verkefninu voru tengsl milli breytileika í stærð rauðra blóðkorna og skamm- og langtíma dánartíðni eftir skurðaðgerðir könnuð en slíkur breytileiki er mældur fyrir nær allar aðgerðir. Til þess voru notaðar upplýsingar úr íslenska aðgerðargagnagrunninum sem hefur að geyma upplýsingar um hartnær 40 þúsund skurðaðgerðir á Landspítala. 

Í ljós kom að dánartíðni einstaklinga með aukinn breytileika var hærri í kjölfar skurðaðgerða en einstaklinga með eðlilegan breytileika. Þessum áhrifum er mögulega miðlað gegnum langvinnt bólguástand eða vannæringu, sem hefur áhrif á stærðardreifnina. Niðurstöðurnar benda til þess að mæling á stærðardreifni rauðra blóðkorna megi nota til að áhætttuflokka einstaklinga fyrir aðgerð. 

Næstu skref verkefnisins miða að því að kanna hvort unnt sé að hafa áhrif á stærðardreifnina eða nota hana til að fylgjast með árangri inngripa sem ætlað er að bæta horfur aðgerðarsjúklinga. Vonast er til að niðurstöðurnar muni bæta horfur aðgerðasjúklinga sem mun þá hafa mikinn ávinning í för með sér fyrir þá sem og heilbrigðiskerfið sjálft.

Verkefnið vann Halldór Bjarki Ólafsson, nemi í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Martin Ingi Sigurðsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og prófessor við Læknadeild.

Auk þessara verkefna eru þrjú önnur tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

-    Litun sjávarleðurs úr íslenskum plöntum sem unnið er af Sigmundi Páli Freysteinssyni, nema í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.
-    Möguleikar melgresis (Leymus arenarius) sem unnið er af Signýju Jónsdóttur og Sveini Steinari Benediktssyni, nemum í hönnun við Listaháskóla Íslands.
-    Nýjar afurðir þörunga sem unnið er af Hildi Margréti Gunnarsdóttur og Snædísi Guðrúnu Guðmundsdóttur, nemum í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík.

Nánari upplýsingar um öndvegisverkefnin má finna á vef Rannís

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum miðvikudaginn 29. janúar Kl. 14.00.

Í aðalbyggingu