Þekkingin tapar aldrei verðgildi sínu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (8. apríl 2022):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Í stefnu skólans, HÍ26, er áhersla lögð á að ljúka flutningi Menntavísindasviðs á háskólasvæðið og reisa nýja byggingu fyrir Heilbrigðisvísindasvið skólans. Þetta tvennt er nú komið á fljúgandi ferð. Háskóli Íslands hefur hafið undirbúning að breytingum á Sögu við Hagatorg til að hýsa Menntavísindasvið, stúdentaíbúðir og margt fleira. Þá var í vikunni handsalaður samningur um fullnaðarhönnun á nýju húsi fyrir starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs en áformað er að það rísi á næstu þremur árum í námunda við nýja spítalann. Með nýbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs er ætlunin að sameina nær alla starfsemi þess á einum stað en sviðið er nú dreift vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, allt frá Hofsvallagötu til Vínlandsleiðar. Nýja heilbrigðisvísindahúsið mun tengjast Læknagarði sem verður jafnframt endurgerður.
Fjárfesting í menntun og þekkingarsköpun er fjárfesting í framtíðinni og því markaði undirritun samningsins á dögunum ekki aðeins merkan áfanga fyrir Háskóla Íslands og Landspítalann heldur í raun fyrir þjóðina alla. Landspítalinn er stærsti og mikilvægasti samstarfsaðili Háskóla Íslands og mun samstarfið á sviði kennslu, rannsókna, nýsköpunar og samfélagsþátttöku eflast enn frekar á næstu árum með þessari tímabæru og mikilvægu uppbyggingu.
Sérstakur starfshópur innan HÍ vinnur nú að úrlausn fjölda þátta sem snerta þá sem þurft hafa að flýja hræðilegt stríð í Úkraínu. M.a. er rík áhersla lögð á að nemendur og starfsfólk Háskólans frá Úkraínu og Rússlandi fái öflugan stuðning og skilning í sínu nærumhverfi. Til viðbótar þessu hefur HÍ sett á fót upplýsingaveitu um aðgerðir fyrir flóttafólkið.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur hópur flóttafólks frá Úkraínu flutt inn á Sögu í herbergi sem nýlega höfðu verið gerð upp af fyrri eigendum. Þá er verið að skoða hvort aðstaða HÍ á Laugarvatni henti flóttafólki ef þörf verður á. Verið er að ganga frá ýmsum brýnum atriðum til að einfalda daglegt líf fólksins á Sögu í samvinnu við Útlendingastofnun og aðra opinbera aðila. Það er afar mikilvægt að huga einnig að félagslegum þáttum og því er verið að skoða uppsetningu samverurýma á Sögu auk annarrar mikilvægrar þjónustu við fólkið, ekki síst börnin. Mótun slíks er á frumstigi en ætlunin er að styðja flóttafólkið eins og kostur er í framhaldi af þeim hörmungum sem það hefur upplifað í heimalandinu.
Um síðustu helgi opnuðum við dyr Háskóla Íslands upp á gátt og tókum á móti miklum fjölda gesta sem kynnti sér allt það fjölbreytta nám sem er í boði við skólann. Afar ánægjulegt var að sjá einskæran áhuga á háskólanámi og rannsóknum hjá þeirri kynslóð sem nú er að ljúka framhaldsskóla. Það er afar mikilvægt Íslendingum að mennta vel komandi kynslóðir og það hefur sjaldan blasað jafnvel við og nú að þekkingin er sá gjaldmiðill sem aldrei tapar verðgildi sínu.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Vorið nálgast jafnt og þétt og dagarnir lengjast með skörpu sólarljósi sem bræðir hrímið þrátt fyrir að kuldinn sé meiri en við vildum. En þótt apríl sé til alls vís, grimmastur mánaða eins og skáldið T.S. Eliot orti, þá er páskahátíðin í vændum og skömmu síðar sumardagurinn fyrsti. Þegar sumarið tekur okkur loks í fangið eftir langan og snjóþungan vetur verðum við svolítið eins og stúlkan í vorljóði Þuríðar Guðmundsdóttur, við eignumst heiminn.
Gleðilega páska,
Jón Atli Benediktsson, rektor“