Þekkingin er undirstaða atvinnulífs og framfara
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (21. janúar 2022):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nú í vikunni hófst afar fjölmennt netnámskeið í boði Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á sniðlækningar. Þetta orð, sniðlækning, hljómar ekki sérlega kunnuglega í eyrum margra en um er að ræða læknisþjónustu sem er sérsniðin að einstaklingnum. Þetta er því aðferð sem er öndverð við það þegar allir með tiltekinn sjúkdóm fá sömu læknismeðferð.
Sniðlækningar eru í eðli sínu þverfræðilegar og hafa ekki áður verið til kennslu í háskólanámi á Íslandi. Hér er því um að ræða nýjung sem af mörgum er talin vísa veginn til framtíðar á sviði læknisfræðilegrar meðferðar. Sædís Sævarsdóttir, prófessor við Læknadeild HÍ, gigtarlæknir á Landspítala og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu er umsjónarkennari námskeiðsins fyrir hönd HÍ ásamt Sisse Rye Ostrowski, prófessor við Læknadeild Kaupmannahafnarháskóla.
Námskeiðið er í takti við nýja stefnu Háskólans, HÍ26, sem leggur m.a. áherslu á framsækið alþjóðlegt samstarf, hagnýtingu upplýsingatækni, notendamiðaða þjónustu og stafræna umbyltingu hennar. Námskeiðið hefur líka í háskerpu nýsköpun í heilbrigðisþjónustu þar sem áhersla er á að draga úr kostnaði við rekstur hennar en bæta um leið gæði og meðferð sjúklinga með velferð þeirra að leiðarljósi. Hér er því mörgu sinnt sem skiptir einstaklinginn og samfélagið afar miklu.
Kórónuveirufaraldurinn setur áfram mark sitt á háskólastarfið. Í því samhengi langar mig að nefna að við erum nú farin að huga að tveimur viðburðum sem hafa árum saman sett mikinn svip á starf okkar að vetrarlagi, annars vegar febrúarbrautskráningu og hins vegar Háskóladaginn. Vegna faraldursins og samkomutakmarkana er því miður ekki unnt að halda þessa mikilvægu viðburði með hefðbundnu sniði. Brautskráningin 19. febrúar verður því með sama lagi og í fyrra og verða prófskírteini afhent í anddyri Háskólabíós eftir fræðasviðum og verður nánari dagskrá auglýst fljótlega.
Háskóladagurinn verður alfarið stafrænn og mun mikið mæða á fjölda starfsfólks og stúdenta þann 26. febrúar þegar við höldum úti lifandi spjalli við öll sem áhuga hafa á háskólanámi. Að þessu sinni munum við virkja allar þjónustueiningar skólans í netspjall en líka fjölda nemenda sem kynna sínar námsleiðir fyrir áhugasömum. Ég vil þakka öllum sem nú leggja mikið á sig við undirbúning háskóladagsins. Hann er ekki bara okkur mikilvægur hér í Háskóla Íslands heldur öllum þeim sem hyggja á háskólanám og samfélaginu öllu því þekkingin er svo sannarlega undirstaða atvinnulífs og framfara.
Nú liggur fyrir að Háskóli Íslands mun flytja hluta af starfsemi sinni í Bændahöllina við Hagatorg en áformað er að taka húsið í notkun í nokkrum áföngum. Markmiðið er að það verði komið í fulla notkun Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta haustið 2024. Þetta er gríðarlega ánægjulegt, ekki síst fyrir þær sakir að þarna verða framtíðar höfuðstöðvar Menntavísindasviðs og fjölbreytt þjónusta á vegum skólans sem mun styrkja hann enn frekar.
Gengið hefur verið frá ráðningu Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, prófessors í umhverfis- og byggingarverkfræði, sem forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands til næstu fimm ára eða til 30. júní 2027. Hann hefur verið forseti sviðsins frá árinu 2017. Sigurður Magnús hefur starfað við Háskóla Íslands í hartnær tvo áratugi og unnið að fjölmörgum breytingum í þágu stefnu skólans á þeim tíma sem hann hefur starfað sem forseti. Hann hefur á síðustu árum einnig verið formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Ég vil vekja athygli á því að starf forseta Heilbrigðisvísindasviðs hefur nú verið auglýst laust til umsóknar, en í vor lætur Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði, af því starfi eftir að hafa gegnt því í tíu ár. Störf forseta fræðisviðanna fimm eru gríðarlega mikilvæg. Forsetarnir starfa í umboði rektors, eru akademískir leiðtogar sviðanna og leiða sókn skólans á fræðasviðunum í anda nýrrar stefnu.
Kæru nemendur og samstarsfólk. Útbreiðsla kórónuveirunnar er því miður enn víðtæk og nýgengi smita innanlandssmit er hátt. Við sjáum hins vegar líka að bóluefni eru að veita mikla vernd og jafnvel betri en sumir óttuðust þegar nýjasta afbrigðið tók yfir. Fylgjum sóttvarnarreglum sem best við getum, höldum fjarlægð, þvoum hendur og sprittum og notum andlitsgrímur. Þetta er lykillinn að því að leiða samfélagið út úr faraldrinum ásamt afar mikilvægum bólusetningum.
Förum að öllu með gát. Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor“