Team Spark á leið til keppni
Team Spark, kappaksturs- og hönnunarlið Háskóla Íslands leggur af stað til Mílanó í næstu viku til að taka þátt í aksturs- og hönnunarkeppnum stúdenta á Ítalíu og í Austurríki.
Lið frá Háskóla Íslands hefur tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema frá árinu 2011 og oftast farið til Bretlands þar sem keppnin Formula Student fer fram á hinni fornfrægu Silverstone-braut.
Að þessu sinni er liðið skipað 29 liðsfélögum sem fara til Ítalíu en 23 félagar fara til Austurríkis. Flogið verður til Mílanó 18. júlí. Þaðan verður farið með rútu á keppnissvæðið í bænum Varano de’Melegari. Eftir fyrri keppnina fer hluti af liðinu með rútu til Graz í Austurríki og hefur þar aðstöðu í tækniháskólanum í Graz til að vinna í bílnum og keyra hann.
Keppt verður í tveimur keppnum. Sú fyrri verður haldin á Ítalíu 19.-23. júlí á Riccardo Paletti brautinni í Varano de’ Melegari. Þetta er í annað sinn sem lið Háskóla Íslands tekur þátt í keppninni á Ítalíu. Á síðasta ári lenti liðið í tíunda sæti af þrjátíu skráðum rafmagnsbílum.
Seinni keppnin er FSA, eða Formula Student Austria. Hún fer fram í Austurríki, á Red Bull brautinni í Spielberg 31. júlí til 3. ágúst. Lið Team Spark keppir þar við 49 önnur lið, en þetta er í fyrsta sinn sem liðið keppir í Austurríki.
Kappakstursliðið keppir að þessu sinni á bílnum TS17 (Laka), sem smíðaður var síðasta vetur. Alls hafa 45 nemendur komið að hönnun og smíði bílsins frá því í fyrrahaust, en nemendur fá hluta vinnunnar metinn í námi sínu við Háskóla Íslands.
Líkt og fyrri bílar Team Spark er Laki rafknúinn kappakstursbíll með stálröragrind. Hann er knúinn af 100 kW rafmótor á 600V spennu. Skel bílsins, sæti og vængir eru framleidd úr koltrefjum. Ál og koltrefjar eru notuð í íhluti fjöðrunarkerfisins. Bíllinn er 235 kg, 3,3 sekúndur í 100 km/klst. og nær 2,5G hliðarhröðun.
Laki er nýjasti meðlimurinn í Team Spark fjölskyldunni og sá léttasti til þessa, en hann er um 235 kg, sem er heilum 40 kg léttara en bíll fyrra árs. Talsvert er um nýjungar þetta árið. Til dæmis má nefna hliðarvængi, gerbreytta hönnun á fjöðrunarkerfinu og skynjarakerfi til að mæla bílinn í akstri. Í ár skartar bíllinn keðjudrifi í stað gírkassadrifs, sem hefur verið venjan síðastliðin ár.
Emma Rún S. Antonsdóttir, hópstjóri framkvæmdahóps segir að markmið liðsins sé að taka þátt í öllum akstursgreinum, bæði á Ítalíu og í Austurríki og auka stigafjöldann frá fyrra ári. „Það getum við einnig gert með því að bæta okkur í kynningahluta keppnanna. Við viljum koma Team Spark enn frekar á kortið og mynda sterkari sambönd við bestu tækniháskóla heims.“
Spurð hvort liðsfélagar séu bjartsýn fyrir keppnina segir Emma keppnina skiptast í misþunga hluta. „Stigagjöfin fyrir kynningarhlutann ræðst af því hversu vel liðin undirbúa fyrirlestra og kostnaðaráætlun fyrir keppni. Aksturshlutinn ræðst af því hvort bíllinn komist í gegnum stranga tækniskoðun og uppfylli allar reglur. Við erum bjartsýn fyrir öllum hlutum keppnanna, þótt aksturshlutinn sé vissulega meiri áskorun.“
Fylgjast má með liðinu á Facebooksíðu þess, sem og á Snapchat: team.spark.