Samstarf við Reykjalund um kennslu, rannsóknir og þjálfun nemenda
Fulltrúar Háskóla Íslands og endurhæfingarmiðstöðvarinnar Reykjalundar í Mosfellsbæ endurnýjuðu á dögunum samstarfsstarfssamning stofnananna sem tekur m.a. til samvinnu um starfsnám hópa nemenda í félags- og heilbrigðisvísindum. Jafnframt munu stofnanirnar tvær vinna saman að því að efla akademískt rannsókna- og vísindastarf á sviði endurhæfingar.
Það voru þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Stefán Yngvason, starfandi framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, sem undirrituðu samninginn en viðstödd voru forseti og fulltrúar deilda Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans.
Háskólinn og Reykjalundur hafa í um áratug átt í samstarfi en með samningnum nýja er stefnan að efla það enn frekar með því að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu beggja samningsaðila. Þannig er markmiðið að styrkja nýliðun fagfólks í endurhæfingu, tryggja greiðan og gagnkvæman aðgang aðilanna tveggja að sérþekkingu og stuðla að framgangi vísindarannsókna á Reykjalundi, m.a. með því að Reykjalundur taki til sín nema í rannsóknatengt nám. Samstarf á þessu sviði hefur gefist afar vel en um 60 nemendur hafa nú þegar lokið bakkalár- eða meistaraverkefnum á Reykjalundi á undanförnum árum.
Samkvæmt samningnum munu nemendur í læknisfræði, hjúkrunarfræði, sjúkraþjálfun, sálfræði, lífeindafræði, talmeinafræði, matvæla- og næringarfræði og tengdum greinum, s.s. félagsráðgjöf og íþrótta- og heilsufræði, geta sótt verklega kennslu á Reykjalundi í lengri eða skemmri tíma þar sem þeir munu vinna með skjólstæðingum endurhæfingarstöðvarinnar undir handleiðslu starfsmanna Reykjalundar.
Enn fremur kveður samningurinn á um heimild til að tengja störf fastra kennara við Háskólann starfi á Reykjalundi en þess má geta að rannsóknarstjóri Reykjalundar hefur gegnt starfi lektors í lífeðlisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Einnig verður hægt að bjóða völdum starfsmönnum Reykjalundar akademísk gestastörf við einstakar deildir Félags- og Heilbrigðisvísindasviða HÍ, uppfylli þeir kröfur þar um.
Sem fyrr segir hyggjast Háskólinn og Reykjalundur einnig vinna saman að fjölbreyttum vísindarannsóknum og þá sérstaklega að eflingu þverfaglegra rannsókna í heilbrigðisvísindagreinum. Jafnframt verður leitast við að efla rannsóknasamstarf við aðra aðila innan og utan lands á sviði endurhæfingar.