Samningatækninámskeið í samstarfi við Harvard
Nítján framúrskarandi nemendur og sérfræðingar á sviði alþjóðamála, m.a. frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Úkraínu og Íslandi, taka þessa vikuna þátt í sérstöku námskeiði í samningatækni og átakafræðum í Háskóla Íslands. Að námskeiðinu standa Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Höfði – friðarsetur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar og Davis Center for Russian and Eurasian Studies við Harvard-háskóla en það nýtur m.a. stuðnings bæði forsætisráðuneytisins og bandaríska sendiráðsins.
Námskeiðið, sem stendur í fimm daga, nefnist European Negotiation Boot Camp en þar munu þátttakendur læra að beita svokallaðri Harvard-aðferð í samningatækni og hvernig á að undirbúa sig fyrir, taka þátt í og meta flóknar samningaviðræður á alþjóðavettvangi. Þátttakendurnir koma úr mörgum af fremstu háskólum Bandaríkjanna, Rússlands og Evrópu og eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í alþjóðamálum, friðar- og átakastjórnun og öryggismálum. Á námskeiðinu í Háskóla Íslands munu þau spreyta sig á þremur afar krefjandi æfingum á sviði samningatækni og átakastjórnunar ásamt því að hlýða á fyrirlestra frá sérfræðingum á sviði samskipta Bandaríkjanna og Rússlands, friðarfræða og afvopnunarmála.
Tveir sérfræðingar frá Háskóla Íslands, þær Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild, og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, eru meðal þeirra sem ávarpa hópinn. „Þátttakendur í námskeiðinu er með afar fjölbreyttan og spennandi bakgrunn og koma frá mörgum mismunandi löndum. Sum eru í doktorsnámi, önnur starfandi hjá Sameinuðu þjóðunum, frjálsum félagasamtökum, Evrópusambandinu og alþjóðlegum hugveitum. Til gamans má líka segja frá því að einn þátttakenda, Tinatin Japaridze frá Georgíu, sem leggur stund á meistaranám í netöryggi við Harriman-stofnunina í Bandaríkjunum, er einn af höfundum íslenska Eurovision-lagsins Is it true?” segir Pia.
Í hópi þátttakenda eru tvær íslenskar konur, þær Ragnheiður Kolsöe, sem starfar hjá utanríkisráðuneytinu, og Védís Ólafsdóttir, verkefnastjóri við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er við Háskóla Íslands. Báðar státa þær af umtalsverðri reynslu af störfum á alþjóðavettvangi við krefjandi aðstæður.
En hvað hefur Ísland og Íslendingar fram að færa í þessum efnum og hvernig mun þetta samstarf við Harvard nýtast Háskóla Íslands og íslensku samfélagi? „Þetta er upphafið af samstarfi sem við höfum mikla trú á en það liggur fyrir tillaga um nokkur sams konar hraðnámskeið, sérstaklega á sviði afvopnunarmála, sem við vonumst til að halda í samstarfi við Harvard á næsta ári,“ segir Pia og bætir við: „Ísland hefur mikið fram að færa í þessum efnum, ekki síst á þessum tímum þegar ágreiningurinn milli Bandaríkjanna og Rússlands hefur aukist. Þá skiptir miklu máli að geta boðið upp á hlutlausan vettvang fyrir sérfræðinga til að hittast og ræða þessi mikilvægu og eldfimu mál. Tilgangurinn er auðvitað líka að byggja upp þekkingu og getu á Íslandi til að vinna að markmiðum þjóðaröryggis- og utanríkisstefnu Íslands um friðsamlega lausn átaka.“