Skip to main content
12. janúar 2016

Ritið um gildi og merkingu peninga

""

Okurlán í Reykjavík, galli peninga sem mælikvarða á gildi, ný vídd sjálfsævisögunnar á samfélagsmiðlum, kynóvissa í bókum Arnaldar Indriðasonar og greining á þætti hávaða í búsáhaldabyltingunni eru á meðal efnis þriðja heftis Ritsins 2015 sem nú er komið út. Þema Ritsins að þessu sinni eru peningar en fimm greinar þess fjalla um þá með einum eða öðrum hætti.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Jón Ólafsson ritstjórar skrifa í inngangi að nú þykist ýmsir sjá teikn á lofti um að saga fjármálahrunsins 2008 kunni að endurtaka sig, en þó bendi margt til að hugmyndafræðileg endurskoðun hafi átt sér stað sem tengist fjármálakreppum og skuldasöfnun: „Endurnýjuð róttækni og gagnrýni á lífshætti hinna ríkari landa hefur líka endurvakið orðaforða sem var næstum horfinn úr umræðunni. Hugtök eins og kapítalismi, kommúnismi, sósíalismi og fleiri slík eru aftur orðin gjaldgeng.“

Í grein sinni „Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum eftir Steinar Braga“ setur Viðar Þorsteinsson fram þá tilgátu að Steinar Bragi rannsaki formgerðir fjármálaauðmagns með fundum aðalpersónunnar í Konum, Evu, við ofbeldishneigða bankamenn. Viðar greinir m.a. söguna með vísunum í marxískar kenningar um fjármálaauðmagn. Eðli tengsla skuldunauta og lánardrottna kemur við sögu, þótt með ólíkum hætti sé, í grein Ásgeirs Jónssonar um starfsemi okurlánara í Reykjavík á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Ásgeir notar gjaldþrot Blöndalsbúðar sem útgangspunkt fyrir umfjöllun um umfang og eðli okurlánaviðskipta. Eyja M. Brynjarsdóttir skrifar í greininni „Blóðsykur, vinnuvikur, mælistikur: Um peninga, vinnu og verðmæti“ um gallana við að nota peninga sem mælikvarða á gildi, hvort sem um er að ræða hluti eða vinnu, og heldur því fram að peningar séu bæði óstöðugur mælikvarði og að óljóst sé hvað þeim sé ætlað að mæla.

Tvær þýðingar sem birtast í þessu hefti tengjast þemanu á ólíka vegu. Grein Georgs Simmel um stórborgina og andlegt líf frá 1903 („Die Großstädte und das Geistesleben“) er klassískur texti og vel þekktur innan borgarfræði, menningarfræði og fleiri greina hug- og félagsvísinda. Þar greinir Simmel stórborgina sem fyrirbæri nútímamenningar. Síðari greinin sem birtist í íslenskri þýðingu í Ritinu er næstum heilli öld yngri. Það er grein Juliu O’Connell Davidson frá 2002, „Rétt og rangt um vændi“ („The Rights and Wrongs of Prostitution“), en hún fjallar um vændi og vöruvæðingu kynlífs.

Auk þemagreinanna birtir Ritið að þessu sinni fjórar greinar um önnur efni. Gunnþórunn Guðmundsdóttir fjallar um örlög gleymskunnar í heimi samskiptamiðlanna sem varðveita persónur og allt athæfi þeirra í netheimum. Njörður Sigurjónsson greinir þann þátt búsáhaldabyltingarinnar svokölluðu sem lítið hefur verið fjallað um, jafnvel þótt hann hafi verið áberandi og mikilvægur hluti hennar. Þetta er sjálfur hávaðinn sem framleiddur var með búsáhöldum og öðrum tólum sem fólk beitti óspart, bæði í mótmælunum sem fóru á undan stjórnarskiptunum og síðar. Tvær greinar fjalla um rannsóknir á skáldverkum sem þó beinast ekki að hefðbundnum viðfangsefnum bókmenntafræðinga. Í greininni „„mér fanst ég finna til“: Um empírískar rannsóknir á bókmenntum og tvær kannanir á tilfinningaviðbrögðum við lestur frásagna“ fjalla Bergljót Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir um hvernig rannsóknir á tilfinningaviðbrögðum lesenda varpa nýju ljósi á lestrarupplifun og lestrarreynslu. Í grein sinni „Mál og kynóvissa í íslensku. Ráðgátan um Marion Briem“ greina þau Ása Bryndís Gunnarsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson aðferð Arnaldar Indriðasonar við að halda kyni aðalpersónunnar leyndu í skáldsögunni Einvíginu.

Tvær greinar þessa heftis fjalla um stöðu fræðanna í íslenskum hugvísindum. Gunnar Þorri Pétursson fjallar um íslenska bókmenntafræði og heldur því fram að nútímabókmenntfræði beri „dauðann í sér“ í þeim skilningi að hún snúist gegn bókmenntunum sjálfum. Egill Arnarson fjallar um ritið Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy í grein sinni um íslenska samtímaheimspeki og setur þessa kynningu á nokkrum helstu starfandi heimspekingum Háskóla Íslands í samhengi við innlenda og alþjóðlega fræðiumræðu.

Kápa Ritsins
Kápa Ritsins