Ólafur og Unnur sæmd fálkaorðunni
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag fyrir rannsóknir sínar og þekkingarmiðlun. Þau voru í hópi 14 Íslendinga sem hlutu heiðursmerkið að þessu sinni.
Ólafur Þ. Harðarson hlýtur orðuna fyrir rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði stjórnmálafræði. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1971, BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1977, MS-prófi í stjórnmálafræði frá London School of Economics and Political Science 1979 og doktorsprófi frá sama skóla 1994. Ólafur er prófessor emeritus við HÍ en hann hóf að kenna stjórnmálafræði við skólann árið 1980. Hann var forseti félagsvísindadeildar skólans 2001-2008 og fyrsti forseti Félagsvísindasviðs hans 2008-2013. Ólafur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands, sat meðal annars lengi í háskólaráði og var formaður nefndar sem undirbjó endurskipulagningu skólans í fræðasvið og deildir 2007-2008. Þá hefur Ólafur verið gestafræðimaður við Háskólann í Essex, Háskólann í Michigan í Ann Arbor, London School of Economics and Political Science, Gautaborgarháskóla, Boston-háskóla og Harvard-háskóla.
Ólafur hefur stundum verið nefndur faðir íslenskra kosningarannsókna enda stóð hann fyrir fyrstu kosningarannsókninni á Íslandi árið 1983. Íslenska kosningarannsóknin hefur verið framkvæmd við allar alþingiskosningar síðan og myndar nú eitt stærsta gagnasafn íslenskra félagsvísinda. Rannsóknir Ólafs hafa einkum beinst að kosningum, kosningakerfum, almenningsáliti, stjórnmálaflokkum og lýðræði – bæði á Íslandi og í alþjóðlegum samanburði. Þá er Ólafur löngu orðinn landskunnur fyrir stjórnmálaskýringar sínar í fjölmiðlum og er jafnan kallaður til álitsgjafar þegar stórtíðindi verða í stjórnmálum, annaðhvort hér heima eða erlendis. Þá hefur Ólafur verið helsti stjórnmálaskýrandi RÚV í íslenskum kosningum í nærri 40 ár.
Nánar um störf Ólafs á Vísindavefnum
Unnur Anna Valdimarsdóttir hlýtur riddarakross fyrir framlag til rannsókna á sviði faraldsfræði. Unnur lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og doktorsprófi í klínískri faraldsfræði árið 2003 frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Hún hefur verið prófessor við HÍ frá 2012 og jafnframt verið forstöðukona Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við skólann frá árinu 2007. Unnur Anna hefur einnig verið gestaprófessor við bæði Karolinska Institutet í Stokkhólmi og Harvard-háskóla í Boston.
Unnur hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á að skoða áhrif hvers kyns áfalla og þungbærrar lífsreynslu á heilsu fólks, svo sem á þróun langvinnra sjúkdóma eins og geðraskana, krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma og sjálfsónæmissjúkdóma. Rannsóknir Unnar hafa m.a. beinst að sænskum eftirlifendum flóðbylgjuhamfaranna í SA-Asíu árið 2004 og þá stýrir hún ásamt samstarfskonu sinni, Örnu Hauksdóttur, hinu viðamikla rannsóknarverkefni Áfallasögu kvenna sem er ein stærsta sinnar tegundar á heimsvísu. Alls hafa um 32 þúsund konur á Íslandi tekið þátt í henni en markmið rannsóknarinnar er að skapa þekkingu um umfang, áhættuþætti og heilsufarslegar afleiðingar áfalla og ofbeldis sem konur verða fyrir á lífsleiðinni. Þá leiðir Unnur COVIDMENT-samstarfið svokallaða, rannsóknasamstarf leiðandi vísindahópa í sex löndum í Norður-Evrópu sem snýr að langtímaáhrifum heimsfaraldurs COVID-19 á lýðheilsu, með áherslu á geðheilbrigði. Enn fremur stýra þær Arna rannsókninni Líðan í COVID sem fram hefur farið hér á landi í samstarfi við Landlæknisembættið og fleiri aðila. Þá kom Unnur að þróun spálíkans vegna COVID-19-faraldursins ásamt fleiri vísindamönnum Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu, Landspítala og sóttvarnayfirvöldum.
Til þessara rannsókna allra hafa Unnur og samstarfsfólk aflað risastórra styrkja, m.a. tveggja milljóna evra styrks frá Evrópska rannsóknaráðinu og hátt í 300 milljóna króna styrkja frá NordForsk. Unnur er enn fremur meðhöfundur yfir 200 alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina sem hafa m.a. birst í ýmsum virtustu vísindatímaritum heims á umræddum fræðasviðum og hún hefur jafnframt hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vísindastörf sín.
Nánar um rannsóknir Unnar á Vísindavefnum
Háskóli Íslands óskar þeim Ólafi og Unni innilega til hamingju með viðurkenninguna.