Skip to main content
5. júní 2017

Nýjasta smásjártækni og vísindi á SCANDEM-ráðstefnunni

""

Framfarir í smásjártækni í lífvísindum, efnisvísindum og jarðvísindum verða í forgrunni á ársfundi Norrænu smásjártæknisamtakanna (SCANDEM) sem fram fer í Háskóla Íslands dagana 5.-9. júní nk.

Markmið samtakanna er að efla þekkingu á smásjártækni á Norðurlöndum, skipuleggja ráðstefnur, vinnustofur og námskeið. Ársfundur SCANDEM er jafnframt veglegasta ráðstefna félagsins og hana sækja að jafnaði allt að 200 gestir. Í ár er Háskóli Íslands gestgjafi ráðstefnunnar en hún er skipulögð í samstarfi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs skólans og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Kesara Margrét Anamthawat-Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, er forseti SCANDEM en hún var kjörin til að gegna þessu forystuhlutverki fyrst Íslendinga árið 2014. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan fer fram hér á landi en hún var einnig haldin hér á landi árið 2009 þegar samtökin fögnuðu 60 ára afmæli. Meðal fyrirlesara á þeim fundi var Stefan Hell, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði 2014 fyrir framlag sitt til smásjártækninnar.

Á ráðstefnunni verður m.a. fjallað um þróun nýjustu smásjártækni í líf- og raunvísindum og tengsl hennar við rannsóknir á sviðum sem snerta t.d. heilsu og líftækni, frumulíffræði, eðlisfræði, nanóvísindi, jarðfræði og jarðeðlisfræði. Fulltrúar fimmtán erlendra fyrirtækja sækja einnig ráðstefnuna og kynna ný tæki og tól til rannsókna með smásjártækni.

Ráðstefnan hefst mánudaginn 5. júní með vinnustofum í Læknagarði ásamt tækjakynningum á Háskólatorgi. Ráðstefnan verður formlega opnuð þriðjudaginn 6. maí í Hátíðarsal Aðalbyggingar en rektor Háskóla Íslands mun setja ráðstefnuna. Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor emerita við Læknadeild Háskóla Íslands, og Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, flytja svo opnunarfyrirlestra á ráðstefnunni. Jórunn mun fjalla nýtingu smásjártækni við greiningu á erfðamengi brjóstakrabbameins og Sigurður Reynir segir frá því hvernig slík tækni hefur nýst í hinu stóra CarbFix-verkefni sem snýst um að binda koldíoxíð í basaltbergi. Auk þeirra munu átta erlendir boðsfyrirlesarar víða að úr heiminum flytja erindi um rannsóknir sínar og hvernig smásjártæknin hefur nýst þeim.

Vísindamenn frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð stofnuðu SCANDEM Nordic Microscopy Society (www.scandem.org) árið 1948, Finnland gekk inn í samtökin síðar, en Íslendingar urðu aðilar að því árið 2007. Félagið á aðild að Evrópska smásjártæknifélaginu (EuropeanMicroscopySociety) og Alþjóðasambandi um smásjártækni (International Federation of Societies for Microscopy). 

Stúlka skoðar hluti í smásjá