Nemendur HÍ leiða fram nýja þekkingu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (11. febrúar 2022):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Háskóli Íslands býr nemendur sína undir fjölþætt verkefni samfélags og atvinnulífs sem tekur sífelldum breytingum og hann er farvegur nýsköpunar í breiðum skilningi. Innan skólans er það ekki bara reynslumikið vísindafólk sem uppgötvar nýjungar því nemendur skólans leiða einnig fram nýja þekkingu sem getur breytt miklu. Þessar nýjungar spretta oft fram af tengslum skólans við atvinnulíf eða þegar kraftar ólíkra fræðigreina leggjast saman. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá þrjá nema úr HÍ taka við Nýsköpunarverðlaunum forseta Íslands á Bessastöðum í gær þar sem allt þetta var til staðar.
Þær Margrét Vala Þórisdóttir og Signý Kristín Sigurjónsdóttir, báðar með BS í hagnýttri stærðfræði frá Háskóla Íslands, og Valgerður Jónsdóttir, BS í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands, fengu verðlaunin fyrir verkefnið „Betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá“ sem þær útbjuggu fyrir gjörgæsludeild Landspítalans undir leiðsögn þeirra Martins Inga Sigurðssonar, Rögnvaldar Jóhanns Sæmundssonar og Tómasar Philips Rúnarssonar, sem allir eru prófessorar við HÍ.
Gagnasjáin gerir kleift að fylgjast með framvindu og gangi fjölþættrar, flókinnar og kostnaðarsamrar gjörgæslumeðferðar á kerfisbundinn hátt auk þess að leita leiða til að bæta gæði hennar, hanna inngrip og innleiða breytingar á verklagi til að bæta meðferðina.
Hér sjáum við hvernig námsmenn frá HÍ hafa tekist á við mjög flókna og mikilvæga áskorun og fundið farsælar lausnir. Verðlaunin eru enda veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna í fyrra. Til marks um styrk nema HÍ er að fjögur af sex verkefnum sem tilnefnd voru til verðlaunanna að þessu sinni voru unnin af nemendum skólans.
Það vekur athygli að það voru þrjár ungar konur sem hrepptu Nýsköpunarverðlaunin í gær, ekki síst fyrir þær sakir að þær námu allar greinar þar sem karlar hafa í gegnum tíðina verið í meirihluta nemenda og kennara. Við sjáum sem betur fer að konur ryðja hverri hindruninni á fætur annarri úr vegi og hasla sér völl í öllum greinum, samfélaginu öllu til heilla. Jafnrétti og fjölbreytileiki eru mikilvægir hornsteinar, ekki bara Háskóla Íslands heldur samfélagsins alls. Næsta vika verður einmitt helguð þessu tvennu, jafnrétti og fjölbreytileika, en þá verða haldnir Jafnréttisdagar sem standa munu út vikuna. Vegna heimsfaraldurs fer dagskráin að mestu leyti fram á netinu en ætlunin er að styðja með fjölbreyttum hætti við mikilvæga umræðu um jafnréttismál í víðum skilningi og gera þau sýnilegri innan skólans sem utan. Ég hvet ykkur öll til þátttöku, kæru nemendur og samstarfsfólk.
Nýjar afléttingar á takmörkunum vegna COVID-19 taka gildi núna á miðnætti. Innan Háskóla Íslands gildir það að fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 200 manns. Þá verður sóttkví afnumin. Förum áfram að öllu með gát þrátt fyrir tilslakanir.
Markmið okkar í nýrri stefnu skólans, HÍ26, er meðal annars að vinna gegn falsfréttum með vísindalegum staðreyndum og auka með því traust á mikilvægi vísindanna fyrir samfélög, lífríki og umhverfi.
Vísindavefur HÍ hefur verið mikilvægur liður í því starfi skólans að draga fram upplýsingar sem snerta fjölbreyttar áskoranir líðandi stundar. Hann hefur gegnt afar mikilvægu samfélagslegu hlutverki við að varpa ljósi m.a. á ýmsar hliðar COVID-19, á veirur og á mikilvægi bóluefna í baráttunni við þær. Svör tengd heimsfaraldrinum voru eðlilega á meðal þeirra vinsælustu í fyrra auk svara um eldvirkni og gosið í Geldingadölum.
Áhrif Vísindavefsins birtast ekki hvað síst í því að lestur svara á honum hefur farið stigvaxandi og fékk hann yfir þrjár milljónir heimsókna í fyrra, sem er metfjöldi.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Þótt dagurinn lengist nú ört dró dökk ský fyrir sól um síðustu helgi þegar þau sorglegu tíðindi bárust að flugvél hefði farist í Þingvallavatni með fjórum innanborðs. Meðal þeirra var nemandi á fyrsta ári hér við Háskóla Íslands. Hugur okkar er hjá fjölskyldum, aðstandendum, vinum og samnemendum.
Jón Atli Benediktsson, rektor"