Skip to main content
23. september 2024

Kynna vinsæl miðlunarverkefni um danska sögu

Kynna vinsæl miðlunarverkefni um danska sögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír danskir sérfræðingar á sviði miðlunar taka þátt í opnu málþingi Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands um miðlun sögunnar þar sem þeir munu annars vegar fjalla um danmarkshistorien.dk, vef um Danmerkursögu sem notið hefur gríðarlegra vinsælda meðal almennings og hins vegar um metnaðarfullt útgáfuverkefni Háskólaforlags Árósaháskóla sem gefur út hundrað smárit um sögu Danmerkur sem vakið hafa athygli fyrir skemmtilega nálgun. Erindin verða haldin í stofu 105 á Háskólatorgi, fimmtudaginn 26. september kl. 13:30-15:20 og þau eru öllum opin. Simon Halink, rannsóknarlektor í sagnfræði við Fryske Akademy í Hollandi, stýrir umræðum sem fara fram á ensku.

Mette Frisk Jensen og Anne Sørensen, sérfræðingar við Árósaháskóla, kynna danmarkshistorien.dk, en vefurinn byggir á fjölbreyttri miðlun rannsókna og hefur vakið sérstaka athygli fyrir það hversu vel hefur tekist að miðla flóknum rannsóknarniðustöðum til áhugasamra og er vefurinn t.d. nýttur mikið af bæði nemendum og kennurum grunn- og framhaldsskóla. Mette Frisk hefur stýrt miðlun rannsókna á vefnum og m.a. þróað opið námskeið í Danmerkursögu (OOC) sem byggir á stafrænni miðlun og er aðgengilegt bæði á dönsku og ensku. Hún segir að danmarkshistorien.dk hafi verið opnaður árið 2009 með það markmiði að veita almenningi og skólakerfinu vandaðar og aðgengilegar upplýsingar um sögu Danmerkur í alfræðiorðabókastíl. Heimsóknir séu nú á bilinu sex til sjö milljónir á ári og um 70% komi inn á síðuna í gegnum Google leit. Vefsíðan byggi á stefnu háskólans um þjónustu við almenning með þátttöku í almennri umræðu, opnu aðgengi og sýnileika rannsókna. Nú er að finna meira en 2.500 greinar um á vefsíðunni, heimildir, þemasíður, rafbækur og kvikmyndir og að auki er hægt að sækja þangað opið vefnámskeið, bæði á dönsku og ensku, um sögu Danmerkur frá Víkingaöld til dagsins í dag. Metta segir að allt þetta hafi lagt sitt af mörkum við að auka almenna þekkingu fólks á danskri sögu. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að loka síðunni í lok árs en færa efni hennar yfir á dönsku alfræðiorðabókina, lex.dk.

Thomas Oldrup, sagnfræðiritstjóri hjá Háskólaforlagi Árósaháskóla, mun kynna ritröðina 100 danmarkshistorier sem hefur erindi fortíðarinnar við samtíðina í forgrunni. Thomas segir að bækur í ritröðinni hafi selst vel og fengið mikla og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum. Þá hafi verið haft gott samstarf við marga utan háskólasamfélagsins, t.d. við fjölmiðla, skóla og söfn. Þannig hafi verið hægt að byggja upp hóp áskrifanda sem fari alltaf stækkandi. Bækurnar höfði einnig vel til lesenda þar sem þær eru fallega upp settar og að bókaflokkurinn hafi sín útlitseinkenni. Einnig fari mikill tími og orka í að ritstýra bókunum þannig að þær verði frumlegar í nálgun á viðfangsefnið og auðgi það lífi, stundum með húmor að vopni. Nú hafa rúmlega 80 bækur af 100 komið út og hér á landi er Sögufélagið að þróa ritröð sem fylgir dönsku fyrirmyndinni að miklu leyti. 

Mette Frisk Jensen og Thomas Oldrup.