Skip to main content
6. nóvember 2020

Koma á fót nýsköpunarmiðstöðvum á gömlum iðnaðarsvæðum í Evrópu

Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og fulltrúar á vegum Textílmiðstöðvar Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru meðal þátttakenda í alþjóðlega verkefninu CENTRINNO sem nýlega hlaut 8,2 milljón evra styrk (1,3 milljarður ISK) úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Í hlut Háskóla Íslands koma tæpar 28 milljónir en heildarstyrkur íslensku þátttakendanna er í kringum 130 milljónir íslenskra króna. 

CENTRINNO stendur fyrir New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation. Markmið verkefnisins er að endurvekja hnignandi en menningarsögulega mikilvæg iðnaðarsvæði í Evrópu þar sem störfum hefur fækkað og umhverfi er á fallanda fæti. Nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvum verður komið á fót og verður þeim ætlað að

a) mæta helstu umhverfisáskorunum samtímans,
b) efla fjölbreytt og skapandi þekkingarhagkerfi,
c) nýta fyrirliggjandi menningararf kvenna og karla sem hvata fyrir nýsköpun og félagslega þátttöku í anda hringrásarhagkerfis og sjálfbærni. 

Að verkefninu standa 26 stofnanir og fyrirtæki í níu löndum og verða miðstöðvarnar staðsettar í Amsterdam, Barcelona, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, París, Tallinn, Zagreb og á Blönduósi. Þar verður sett á fót miðstöð nýsköpunar og þekkingar í stafrænni textílframleiðslu sem byggð er á menningararfi og handverkskunnáttu íslenskra kvenna með sérstakri áherslu á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar.

Verkefnið hófst 1. september 2020 og stendur yfir í 3½ ár. Því er stýrt frá Mílanóborg og verkefnisstóri er Roberto Nocerino. Þorgerður J. Einarsdóttir mun ásamt Laufeyju Axelsdóttur, nýdoktor í kynjafræði, kanna og kortleggja umgjörð, bakgrunn og sögu textíliðnaðar á Íslandi. Í því felst að skoða núverandi landslag á sviði textíls, þróun í sögulegu samhengi, samfélagslegt umfang og mikilvægi, menningarlegar rætur og kynjasjónarmið. Skoðað er hvernig hefðir og menningararfleifð geta verið innblástur og hvati til endursköpunar á nýjum tímum og í nýju samhengi. Meðal annars er spurt hvernig textíllinn og handverkið geta tekið skrefið inn í framtíðina á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt. 

 

Þorgerður Einarsdóttir