Jón Atli kjörinn forseti Aurora-háskólanetsins
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn forseti Aurora-háskólanetsins og mun leiða það næstu tvö ár. Hann tekur við forsæti af David Richardson, rektor East Anglia háskólans í Englandi.
Ársfundur Aurora-netsins fór fram í gær og í dag með rafrænum hætti. Netið er skipað níu evrópskum háskólum sem hafa það sameiginlegt að vera framúrskarandi í rannsóknum samhliða því að leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og fjölbreytileika nemenda en þeir eru í heildina á þriðja hundrað þúsund. Þá fléttar Aurora-netið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt sitt starf.
Þetta nýja hlutverk Jóns Atla kemur vart á óvart enda hefur Háskóli Íslands verið í forystu í netinu allt frá stofnun þess árið 2016. „Alþjóðlegt samstarf skiptir okkur í Háskóla Íslands miklu máli og höfum við notið afar góðs af Aurora-netinu á undanförnum fjórum árum. Ég hef setið í stjórn háskólanetsins síðastliðin þrjú ár og hlakka mjög til að stýra því næstu tvö árin,“ segir Jón Atli. „Samstarfið á milli háskólanna er gott og tenging okkar við þá mun halda áfram að efla Háskóla Íslands með nýjum hugmyndum og verkefnum. Háskóli Íslands er minnsti háskólinn í netinu en samtals stunda um 300.000 nemendur nám við þessa níu háskóla. Að rektor Háskólans sé við stjórnvölinn í Aurora-netinu styrkir okkur enn frekar hvað þetta varðar. Þetta er bæði mikill heiður fyrir mig og Háskóla Íslands.“
Háskólarnir í Aurora-netinu eru auk Háskóla Íslands, Vrije-háskólinn í Amsterdam (Hollandi), East Anglia háskóli (Englandi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), Háskólinn í Innsbruck (Austurríki), Háskólinn í Napolí – Federico II (Ítalíu), Roviri i Virgili háskólinn í Tarragona (Spáni), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi) og Háskólinn í Grenoble-Alpes (Frakklandi).
Ársfundur Aurora-háskólanetsins fór alfarið fram á netinu vegna kórónuveirunnar og var að þessu sinni einkum helgaður Aurora Alliance. Stór hópur starfsmanna og nemenda Háskóla Íslands tók þátt í ársfundinum og lagði línurnar með samstarfsfólki sínu fyrir næstu skref í þessu mikilvæga samstarfi. MYND/Kristinn Ingvarsson
Mikil tækifæri fyrir Háskóla Íslands
Aurora-samstarfið var nýlega útvíkkað undir merkjum Aurora Alliance með þátttöku Copenhagen Business School í Danmörku og Palacky-háskólans í Tékklandi. Aurora Alliance, eða Norðurljósabandalagið, var nýlega valið eitt af svokölluðum European Universities Alliances, sem er flaggskip Evrópusambandsins á sviði háskóla- og vísinda. European Universitiy Alliance fylgdir hár styrkur upp á sjö milljónir evra frá Evrópusambandinu sem veittur er til næstu þriggja ára.
Markmið European University Alliance að auka samkeppnishæfni evrópskra háskóla í alþjóðlegu samhengi, efla samstarf þeirra á milli, ekki síst þverfræðilega, og stuðla að hreyfanleika nemenda og starfsfólks. Það er sannarlega ánægjulegt að Háskóli Íslands fái tækifæri til að taka þátt í að móta framtíðarháskóla álfunnar í mjög nánu samstarfi við þessa virtu og öflugu háskóla. Stjórnendur Háskóla Íslands sjá einstök tækifæri í þessu samstarfi sem ótvírætt mun skila miklu til nemenda og starfsfólks skólans sem og einnig til íslensks samfélags.
Ársfundur Aurora-háskólanetsins var að þessu sinni einkum helgaður Aurora Alliance og var því ýtt formlega úr vör á fundinum. Stór hópur starfsmanna og nemenda Háskóla Íslands tók þátt í ársfundinum og lagði línurnar með samstarfsfólki sínu fyrir næstu skref í þessu mikilvæga samstarfi.