Hvernig geta samkeppnislögin tekið mið af velferð starfsfólks fyrirtækja?
„Með veikingu verkalýðsfélaga og aukinni samþjöppun fyrirtækja hefur verið bent á að staða starfsfólks hafi versnað á þann hátt að mögulegum kaupendum vinnu þeirra hefur fækkað. Í sumum tilfellum hafa fyrirtæki komist í fákeppnis- eða einokunarstöðu sem kaupendur vinnu af tilteknum hópi starfsfólks. Þessi staða hefur lengst af ekki vakið athygli samkeppnisyfirvalda, sem einkum horfa til áhrifa samþjöppunar markaðsvalds á neytendur.“
Þetta segir Haukur Logi Karlsson, nýdoktor við Lagadeild, sem rýnir nú í samkeppnislöggjöfina með það fyrir augum að kanna hvort fýsilegt sé að útvíkka hana þannig að hún leggi ekki aðeins áherslu á velferð neytenda heldur einnig starfsfólks.
„Rannsókninni er ætlað að vera innlegg í þá umræðu sem á sér stað nú um stundir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu um versnandi stöðu starfsfólks í alþjóðavæddum heimi viðskipta, þar sem fyrirtæki stækka í sífellu og samþjöppun markaðsvalds fer stigvaxandi,“ segir Haukur enn fremur.
Nýr tónn eftir efnahagskreppuna 2008
Haukur bendir á að með innreið hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar í bandarískum háskólum á sjöunda og áttunada áratug 20. aldar hafi það viðhorf orðið ráðandi að hlutverk samkeppnislaga væri fyrst og fremst að stuðla að efnahagslegri hagkvæmni í atvinnulífinu og þá einkum með tilliti til hagsmuna neytenda, en samkeppnisyfirvöld þess tíma unnu oft þvert á það með ákvörðunum sínum. Þessi röksemd hafi náð miklu flugi í bandarískri réttarframkvæmd á níunda áratugnum í takt við tíðarandann í stjórnartíð Ronalds Reagans og Evrópusambandið hafi tekið upp svipaðar áherslur í samkeppnislöggjöf sinni eftir aldamót. „Klausu um að samkeppnislögum væri m.a. ætlað að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur var loks bætt inn í íslensku samkeppnislögin árið 2020,“ bætir Haukur við.
Með efnahagskreppunni sem skall á heiminum 2008 og þeim efasemdaröddum um hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem henni fylgdu hafi fræðimenn í auknum mæli farið að gagnrýna þessa áherslu samkeppnisyfirvalda á efnahagslega hagkvæmi og velferð neytenda. „Það væri of þröngt viðmið, sem leiddi til margháttaðs efnahagslegs og samfélagslegs skaða, sem unnt væri að sporna við með annarri nálgun á framfylgd samkeppnisreglna, einkum með tilliti til aukinnar samþjöppunar á markaðsvaldi á ýmsum mörkuðum. Einn angi þessarar umræðu snýr að stöðu og hagsmunum starfsfólks við mat á háttsemi fyrirtækja á markaði í samkeppnisréttarlegu tilliti,“ segir Haukur.
Samþjöppun á markaðsvaldi hefði með öðrum orðum víðtækari samfélagsleg áhrif í för með sér en sem nemur áhrifunum á neytendur. „Á meðal þessara áhrifa er sterkari staða fyrirtækja sem kaupendur á þjónustu tiltekins vinnuafls. Slík staða leiðir til þess að unnt er að auka arðsemi fyrirtækja á kostnað starfsfólksins, sem hefur þau samfélagslegu áhrif að misskipting auðs eykst á milli fjármagnseiganda og starfsfólks í veikri stöðu,“ segir Haukur.
Þversögn falin í aukinni hagkvæmni á markaði í þágu neytenda
Hér er því á ferðinni ákveðin þversögn að sögn Hauks. „Þversögnin sem í þessu felst er að það getur komið neytendum til góða að rýra kjör starfsfólks þess fyrirtækis sem býður ákveðna vöru eða þjónustu en starfsfólkið er síðan líka neytendur og flestir neytendur eru líka starfsfólk einhvers staðar. Hagkvæmniaukning í þágu neytenda en á kostnað starfsfólks hefur því ekki endilega jákvæð samfélagsleg áhrif í för með sér þó svo að samfélagsleg heildarhagsæld kunni að aukast. Hættan er einkum sú að misskipting auðs aukist á milli starfsfólks í veikri stöðu og þeirra neytenda sem eru í sterkri efnahagslegri stöðu og þá sérstaklega neytenda sem einnig eru eigendur fyrirtækja og fjármagns,“ bendir Haukur á.
„Ójöfnuður og samþjöppun valds eru klassísk viðfangsefni þeirra sem hugsa um samfélagsmál. Það hefði ótvírætt vísindalegt gildi ef það tækist í gegnum þessa rannsókn að þoka stigi þekkingar örlítið lengra um það hvort fýsilegt sé að beita samkeppnislögum með öðrum hætti en nú er til þess að vinna á samfélagsmeinum tengdum ójöfnuðu og samþjöppun markaðsvalds,“ bendir Haukur á.
Þverfræðilegt samstarf í forgrunni
Í rannsókninni felst, sögn Hauks, að kortleggja þá möguleika sem finnast innan samkeppnisréttar til þess að standa vörð um velferð starfsfólks gagnvart auknu markaðsvaldi fyrirtækja við kaup á starfskröftum. „Við þessa kortlagningu verður einkum hugað að kenningalegum grunni samkeppnisréttarins, sem stendur annars vegar á réttarheimspekilegum grunni og hins vegar á hagfræðilegum grunni. Að lokinni kortlagningunni verður lagt mat á fýsileika ólíkra valkosta og hugað að leiðum til þess að hrinda ólíkum valkostum í framkvæmd með reglubreytingum eða breytingum á framkvæmd núverandi regluverks,“ segir Haukur sem hóf rannsóknina síðastliðið haust og er því ekki kominn að endanlegri niðurstöðu. „Það er of snemmt er að segja til um hvort einhver tiltekinn valkostur sé fýsilegur en það er í það minnsta ljóst að ýmsir möguleikar eru fyrir hendi, sem hver hefur sína kosti og galla.“
Hér er ekki aðeins um lögfræðileg álitaefni að ræða heldur snertir rannsóknin líka sjálft efnahagskerfið, viðskipti og hagfræði. Haukur vinnur því að rannsókninni í samstarfi við Gylfa Magnússon, prófessor í hagfræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. „Rannsóknin er þverfagleg og leggur Gylfi til hagfræðilega innsýn í samkeppnisréttinn en ég legg til sjónarhorn lögfræðinnar,“ segir Haukur en í nýrri stefnu Háskólans, HÍ26, er einmitt lögð mikil áhersla á aukið samstarf fræðimanna þvert á fræðigreinar.
Haukur hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á samkeppnisrétt og Evrópurétt en hann lauk doktorsprófi á sviði evrópsks samkeppnisréttar frá European University Institute í Flórens á Ítalíu fyrir nokkrum árum. „Ég nálgast oftast viðfangsefnin innan lögfræðinnar frá kenningalegu sjónarhorni og þá horfi ég ýmist til kenninga úr stjórnmálaheimspeki, hagfræði og réttarheimspeki. Það má því gjarnan finna þverfaglega þræði í rannsóknum mínum,“ segir hann.
Nauðsynlegt fyrir móralinn að sjá skýran tilgang í rannsóknum
Aðspurður um þýðingu rannsóknarinnar fyrir vísindin segir Haukur að markmiðið sé ekki síst að leggja svolítið af mörkum til þeirrar fræðilegu umræðu um markmið samkeppnisréttar sem nú á sér stað á alþjóðavettvangi. „Ójöfnuður og samþjöppun valds eru klassísk viðfangsefni þeirra sem hugsa um samfélagsmál. Það hefði ótvírætt vísindalegt gildi ef það tækist í gegnum þessa rannsókn að þoka stigi þekkingar örlítið lengra um það hvort fýsilegt sé að beita samkeppnislögum með öðrum hætti en nú er til þess að vinna á samfélagsmeinum tengdum ójöfnuðu og samþjöppun markaðsvalds,“ bendir hann á.
Það sé mjög spennandi og mikilvægt viðfangsefni að skoða hvort nýta megi samkeppnislögin til þess að vinna að öðrum samfélagslegum markmiðum en gert hefur verið á síðustu áratugum. „Í þessu viðfangsefni kemur líka saman allt það sem gerir samkeppnisréttinn að spennandi fræðilegu viðfangi. Stór pólitísk álitamál, kenningaheimur hagfræðinnar og hinn praktíski veruleiki lögfræðinnar sem nýta þarf til að koma hugmyndum í framkvæmd. Mér finnst líka mikilvægt að velja viðfangsefni í rannsóknum sem tengjast einhverju sem skiptir máli í stærra samhengi. Það er nauðsynlegt fyrir móralinn að sjá skýran tilgang í því sem maður er að gera þegar maður situr einn við skriftir dægrin löng í fílabeinsturninum,“ segir Haukur að endingu.