Háskóli Íslands innleiðir kerfi sem greiðir fyrir smitrakningu
Háskóli Íslands hefur tekið upp kerfi sem gerir nemendum og kennurum kleift að skrá sig í kennslustund með QR-kóða sem er að finna á öllum borðum í kennslustofum skólans. Með þessu fyrirkomulagi má tryggja lágmarksröskun í starfi Háskólans komi upp COVID-19-smit í kennslu og styðja við skjótari smitrakningu.
Hvernig virkar kerfið?
Skráning er afar auðveld. Nemendur og kennarar nýta síma sinn til að skanna QR-kóða á því borði sem þau sitja við. Ef viðkomandi er ekki með síma eða síminn styður ekki QR-kóða er líka hægt að „stimpla sig inn” á vefslóð sem birtist fyrir neðan QR-kóðann (sjá mynd fyrir neðan).
Nemendur og kennarar fá staðfestingu um að skráning sé móttekin en þar gefst líka tækifæri til að breyta henni, t.d. ef kennslustund er lengri eða styttri en upphaflega stóð til.
Mikilvægt er að kennarar og nemendur endurraði ekki borðum eða stólum í stofum Háskólans þar sem það getur gefið rangar upplýsingar um staðsetningu smitaðra.
Hvernig eru upplýsingarnar nýttar?
Gögn úr hinu nýja kerfi eru geymd í gagnagrunni Háskóla Íslands og verða eingöngu vistuð í þessum afmarkaða tilgangi. Gögnum verður eytt á 3 vikna fresti.
Komi upp COVID-19-smit í Háskólanum getur rakningateymi Almannavarna mögulega nýtt gögnin til að ákveða hver af þeim sem útsett voru fyrir smiti fara í sóttkví eða smitgát og hver verða að viðhafa einkennavarúð. Þannig má t.d. koma í veg fyrir að heill bekkur fari í sóttkví, greinist smit á afmörkuðum stað í stórri kennslustofu. Ákvörðun um slíkt er þó endanlega í höndum rakningarteymis Almannavarna.
Háskóli Íslands hvetur auk þess öll þau sem ekki hafa nú þegar hlaðið niður rakningarappi Landlæknis að gera það en það virkar á öllum helstu gerðum snjallsíma. Mikilvægt er jafnframt að uppfæra appið reglulega.
Hvernig tilkynni ég smit?
Komi upp smit á háskólasvæðinu ber að tilkynna það til neyðarstjórnar skólans í tölvupósti: neydarstjorn@hi.is