Glás, kannski og bongóblíða krufin í hlaðvarpinu Sifjuð
Halla Hauksdóttir hefur haldið úti orðsifjahlaðvarpinu Sifjuð með hléum síðan 2021. Þáttaröðin er einkaframtak Höllu sem er meistaranemi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands og hefur lokið grunnnámi í sama fagi.
Í júní síðastliðnum hlaut Halla styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands til þess að halda áfram hlaðvarpsgerðinni. Áslaug starfaði sem lyfjafræðingur og arfleiddi Háskóla Íslands að fé sem er uppistaðan í sjóðnum. Um hann segir á Sjóðavef HÍ að ráðstöfun hans helgist af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar um að nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Hinn 26. júní hlutu alls tíu verkefni styrk og nam heildarupphæð styrkjanna átta og hálfri milljón króna.
Halla vinnur nú að gerð næstu seríu Sifjuð og hyggst gefa afraksturinn út á hlaðvarpsveitum 13. desember. Hún segir hér nánar frá verkefninu.
Bongóblíða í bland við indóevrópskar orðrætur
Hvaðan kemur nafnið Sifjuð og út á hvað ganga hlaðvarpsþættirnir?
„Sifjuð er vísun í orðsifjar. Þegar ég er sifjuð er ég að grúska í orðsifjum og skrifa þættina. Þetta eru stuttir þættir, tíu til fimmtán mínútur, og það er oftast þannig að ég vel eitt orð sem ég rek aftur til upprunans. Það getur verið orð sem hefur verið með okkur Íslendingum síðan í fornu máli. Þá rek ég upprunann þannig að ég fer jafnvel lengst aftur í þá frumindóevrópsku rót sem liggur því til grundvallar og lýsi þeim hljóðkerfisfræðilegu og merkingarlegu breytingum sem hafa orðið á leið til nútímans. Allt þó á léttu nótunum! En svo vel ég líka orð sem hafa orðið til í íslensku á síðustu áratugum. Til dæmis fjallaði ég í einum þætti um orðið bongóblíða sem varð til í lagatexta á áttunda áratugnum. Þá hafði ég að uppi á nýyrðasmiðnum, Halldóri Gunnarssyni, og tók hann í viðtal. Þannig að það er allur gangur á þessu.“
Hvernig hlaðvarpið varð til?
„Ég fékk hugmyndina 2019. Ég fann Íslenska orðsifjabók heima í hjá mömmu og pabba og fór að fletta í henni og datt niður á orðið glás. Mér fannst það svo fasínerandi uppruni. Ég hélt kannski að orðið tilheyrði okkar fornmálsorðaforða og hefði verið með okkur í hundruð ára en svo er ekki. Glás þýðir hellingur af einhverju. Orðið er samandregin mynd af orðinu gúllas og kemur af ungverska orðinu gulyás í merkingunni hirðir eða smali. Fyrst um sinn í íslensku er það notað um ungverska kjötréttinn gúllas; það er sem sagt átt við helling af kjöti. En með tímanum fer það að eiga við um helling af hverju sem er. Þetta var rétt áður en ég fór í skiptinám til Uppsala í Svíþjóð. Ég byrjaði að skrifa þættina þar og kom mér í kynni við Veturliða Óskarsson, prófessor í íslensku við Uppsalaháskóla. Það var mikið atriði fyrir mig að fá að flytja þættina fyrir hann og fá ráðleggingar áður en ég birti þá. Svo kom fyrsti þáttur út í janúar 2021. Þar fjalla ég um orðin afmæli og öryggi.‘‘
Mikið grúsk á bakvið hvern þátt
Liggur mikil vinna að baki hverjum þætti?
„Þó að þættirnir séu stuttir er ansi mikið grúsk sem liggur að baki hverjum og einum. Mér finnst það algjört aðalatriði í því að gera góðan þátt. Fyrir hverja mínútu eru örugglega að minnsta kosti tveir tímar af vinnu.“
Og nýtist námið í hlaðvarpsgerðinni?
„Já, ég held að ég myndi ekki treysta mér til að skrifa þætti um orðsifjar ef ég hefði ekki fengið að kynnast grunnatriðum í sögulegum málvísindum og þeirri aðferðafræði sem tíðkast í því fagi. Stundum verð ég að einfalda fræðin, setja efnið í búning sem hentar útvarpi og öðrum en málvísindafólki. Fræðiritin eru samt grundvallaratriði í allri minni vinnu. Svo get ég fengið hugmyndir í tímum og svona.“
Hvaða rit eru það sem þú notar mest?
„Það er Íslensk orðsifjabók Ásgeirs Blöndals og alls kyns orða- og orðsifjabækur, bæði fyrir íslensku og önnur mál. Stundum kemur sér vel að skoða námsefni sem ég hef fengið í háskólanum. Ég nota líka ýmsar vefsíður, eins og Ritmálssafn Orðabókar Háskólans og timarit.is.“
Halla tekur við styrknum úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, í Hátíðasal í sumar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Kannski tekið fyrir í næsta þætti
Þú hefur verið að vinna að nýju efni, ekki satt?
„Jú, ég fékk styrkinn til að gera tvær þáttasyrpur sem telja fjóra þætti hvor. Það verður frábært að fá að endurvekja þetta verkefni sem ég byrjaði á í BA-náminu og hef ekki alltaf haft tíma til að sinna. En núna fæ ég þennan styrk og þar með tíma til að sinna þessu aftur meðfram meistaranámi.“
Hvað geturðu sagt um styrkinn sem þú fékkst úthlutað?
„Ég fékk mjög óvænt styrk úr styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur. Sjóðurinn var stofnaður 2014 með það að markmiði að efla íslenska tungu og hefur síðustu tíu ár horft til lítilla sérverkefna frekar en stórra rannsóknarverkefna. Höskuldur Þráinsson málfræðingur, sem er í stjórn sjóðsins, sagði mér eftir athöfnina að það væri markmiðið að líta til nemenda ekki síður en fræðimanna, að nota þessa upphæð sem Áslaug lét eftir sig í að hjálpa nemendum með hugmyndir sem þeir vilja framkvæma.“
Og gefurðu eitthvað upp um næstu þætti?
„Ég hef komið inn á það í þessum þáttum að mér finnst mjög áhugavert að við málnotendur þurfum ekki endilega að leiða hugann að eiginlegri merkingu orða þegar við notum þau. Það er alls ekki alltaf forsenda fyrir því að gera sig skiljanlegan og skilja aðra. Það á við um orðið sem kemur út í næsta þætti, kannski. Það er tökuorð sem Ásgeir Blöndal telur að við fáum frá Dönum á 16. öld. Fyrri liður þess er sögnin kunna, sbr. kann, og svo er þetta -ski sögnin ske. Þannig að kannski lýsir því sem kann að ske eða getur gerst en með breytingunni kannske > kannski verður orðið ógagnsærra og margir hætta að tengja það sögninni. Og þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei leitt hugann að fyrr en nýlega.“
Hvernig og hvenær geta áhugasamir hlustað á næstu þáttaröð?
„Fyrri syrpan kemur út á allar helstu hlaðvarpsveitur, eins og Spotify og Apple Podcasts 13. desember með sérstökum jólaþætti í vikunni á eftir. Seinni þáttaröðin kemur svo út í vor.“