Skip to main content
31. október 2024

Getur núvitund verið liður í að efla velfarnað í flóknu starfi kennara?

Getur núvitund verið liður í að efla velfarnað í flóknu starfi kennara? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við sem vinnum í skólakerfinu þekkjum hve mikið álag er þar oft og tíðum og því mikilvægt að valdefla fólk með því að styðja það í að þekkja sín mörk og átta sig á því hvað er að gerast innra með þeim og í umhverfinu. Þannig áttar fólk sig betur á þegar streita og álag fer að vera langvarandi og hefur leiðir til að bregðast við, setja mörk og hlúa að sér,“ segir Bryndís Jóna Jónsdóttir, doktorsnemi og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún rannsakar nú hvaða áhrif núvitund getur mögulega haft á farsæld og velfarnað kennara í starfi. Niðurstöður hennar benda til að streita hjá þeim kennurum sem farið hafa á núvitundarnámskeið sé marktækt minni en hjá samanburðarhópi sem ekki hefur sótt slíkt námskeið.

Doktorsverkefni Bryndísar Jónu, sem ber heitið „Farsæld kennara forsenda farsældar í skólastarfi – möguleg áhrif núvitundar á mikilvæga þætti velfarnaði í flóknu starfi kennara“ er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem snýst um að skoða áhrif núvitundarþjálfunar á ýmsa þætti farsældar hjá nemendum og kennurum. „Um var að ræða heildræna innleiðingu í þrjá grunnskóla með tvo samanburðarskóla yfir tveggja ára tímabil. Við byrjuðum á því að kynna núvitund fyrir starfsfólki tilraunaskólanna og síðan bauðst þeim að koma á átta vikna núvitundarnámskeið sem haldið var í skólanum einu sinni í viku á vinnutíma. Samanburðarskólarnir fengu síðan sambærilega þjónustu að tveimur árum liðnum,“ útskýrir Bryndís Jóna sem starfar líka sem núvitundarkennari hjá Núvitundarsetrinu.

Erlendar rannsóknir undirstrika mikilvægi heildrænnar innleiðingar

Bryndís Jóna hefur víðtæka reynslu af kennslu og skólaþróun á öllum skólastigum en verkefnið varð til þegar skólar fóru að sýna núvitund í skólastarfi aukinn áhuga að hennar sögn. „Starfsfólk lýðheilsusviðs Embættis landlæknis hafði orðið vart við mjög aukinn áhuga skóla á að vinna með núvitund og leitaði til okkar á Núvitundarsetrinu sem sérfræðinga á þessu sviði með að skoða hvernig mætti vinna með núvitund í skólum út frá gagnreyndum aðferðum. Ég hafði þá unnið að innleiðingu og þróun heilsueflandi skóla í Flensborgarskóla og núvitund var þar einn liður í geðrækt. Ég fann að þetta var eitthvað sem margir voru að tengja við,“ Bryndís Jóna.

Hún bætir við að þær Anna Dóra Frostadóttir, sálfræðingur og núvitundarkennari, hafi verið búnar að skoða markvisst hvað erlendar rannsóknir segðu um mögulegan ávinning og hvernig væri best væri að vinna með núvitund í skólum. „Niðurstöðurnar sýndu að heildræn innleiðing væri vænlegasti kosturinn þegar til lengri tíma væri litið enda mæla bæði OECD og WHO með þeirri aðferð til að auka líkur á að heilsueflingin festist í sessi innan skólans,“ segir hún.

Til varð módel sem byggðist á tveggja ára innleiðingu með það meginmarkmið að vinna með starfsfólki skólans og gefa því tækifæri til að hafa áhrif á þróunina og þannig að núvitund yrði eðlilegur hluti af skólamenningunni. Áhersla er á að starfsfólkið geti sjálft unnið með núvitund án mikillar utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar að innleiðingu lokinni. Þær stöllur fengu styrk úr Lýðheilsusjóði til að þróa og innleiða verkefnið og um leið rannsaka ávinning þess. 

„Fyrra árið sneri að því að hlúa að og styðja við núvitundarþjálfun starfsfólksins. Stofnað var teymi í hverjum skóla sem hélt utan um innleiðinguna og aðlagaði að skólamenningu á hverjum stað. Við Anna Dóra vorum faglegir ráðgjafar og funduðum reglulega með teymunum, buðum upp á hugleiðslustundir ásamt því að leiðsegja og hvetja þá sem vildu til að leiða slíkar stundir sjálfir fyrir samstarfsfólk enda markmiðið að skólinn væri sjálfbær með að halda utan um núvitundarstarfið,“ segir hún. Seinna árið var áherslan á að styðja áhugasama kennara við að kenna nemendum núvitund og halda áfram að innleiða núvitund markvisst inn í menningu skólans. „Þegar við erum að innleiða þætti eins og núvitund inn í skólastarfið er ekki verið að gera ráð fyrir að allir stundi núvitund alltaf, heldur að núvitundarþjálfun sé eðlilegur hluti af skólastarfinu og að allir fái tækifæri til að kynnast þessari lífsfærni og athyglisþjálfun.“

„Það er þekkt á alþjóðavísu að kennarastarfinu fylgir mikið álag og streita. Það þarf því bæði að undirbúa verðandi kennara til að takast á við fjölþætt starf sem og styðja starfandi kennara. Í því felst ekki bara að vera búa yfir faglegri þekkingu, sem er auðvitað mjög mikilvæg, heldur einnig að hafa persónulega færni til að takast á við þær áskoranir sem fylgja starfinu,“ segir hún.

Streita marktækt minni eftir núvitundarnámskeið

Rannsóknin náði til alls 150 kennara í 1.-10. bekk í skólunum þremur. „Við byrjuðum á að safna megindlegum gögnum með spurningalistum sem sendir voru út fjórum sinnum yfir tveggja ára innleiðingatímabil og spurðum m.a. um færniþætti eins og núvitund, samkennd í eigin garð og sjálfstiltrú ásamt streitu, kvíða og þunglyndi. Þegar við vorum komnar af stað með rannsóknina var ljóst að mikilvægt væri að fá dýpri skilning á áhrifum á félags- og tilfinningafærni og upplifun þátttakenda af innleiðingarferlinu. Því var eigindlegri rannsóknaðferð bætt við rannsóknarmódelið og tekin voru rýnihópaviðtöl við kennara og stjórnendur þannig að við höfum gögn sem ná yfir fjögurra ára tímabil sem er mjög sjaldgæft en ákaflega dýrmætt,“ útskýrir Bryndís Jóna.

Umfangsmikið gagnasafn hefur því fengist með rannsókninni og að sögn Bryndísar Jónu sýna fyrstu niðurstöður jákvæðar vísbendingar. „Við sjáum t.d. að streita er marktækt minni hjá þeim kennurum sem fóru á núvitundarnámskeið ári síðar samanborið við þá sem ekki fóru á námskeið og er reyndar enn lág eftir tvö ár. Þar sem við vitum að langvarandi streita hefur fjölþætt neikvæð áhrif á vellíðan og starfsorku þá eru þær niðurstöður einar og sér mjög mikilvægar,“ bendir Bryndís Jóna á.

Hún bendir enn fremur á að fyrri rannsóknir á núvitundarþjálfun sýni að streitustig hafi sterk tengsl við sjálfstiltrú kennara, þ.e. hvernig hann upplifir að hann ráði við starfið, og að núvitundarfærni og samkennd í eigin garð hjálpi til við að setja mörk, styðji við sjálfstiltrú og dragi úr streitu. „Niðurstöður okkar rannsóknar styðja við það enda marktækt meiri sjálfstiltrú og samkennd í eigin garð hjá tilraunahópnum en samanburðarhópnum eftir tveggja ára innleiðingu. Þetta eru mjög mikilvægar niðurstöður enda er farsæld kennara forsenda farsæls skólastarfs,“ segir Bryndís Jóna sem vinnur nú úr rýnihópaviðtölunum þar sem leitað var eftir viðhorfi kennara og stjórnenda til núvitundar í skólastarfi, hvaða áhrif þau upplifa að núvitund hafi á félags- og tilfinningafærni þeirra og hvað megi læra af innleiðingarferlinu.

Niðurstöður nýtist í stefnumótun á sviði farsældar

Bryndís Jóna undirstrikar að hér sé á ferðinni fyrsta yfirgripsmikla rannsóknin á notkun núvitundar í skólastarfi hér á landi og vonast til að niðurstöðurnar geti hjálpað bæði stjórnvöldum og skólayfirvöldum við stefnumótun á sviði farsældar. Það sé afar fátítt á heimsvísu að rannsóknir á núvitund nái yfir jafn langan tíma og búi yfir bæði megindlegum og eigindlegum gögnum en eftir því hafi alþjóðafræðasamfélagið kallað. 

„Það er mjög mikilvægt að líta ekki þannig á að komið sé með núvitund inn í skólana sem einhvern plástur og setja það eingöngu í hendur starfsfólks og nemenda að vinna í eitruðu umhverfi. Við þurfum að skoða starfsumhverfi skóla í heild sinni og núvitund getur ef til verið þar einn liður í heilsueflingu og aukinni félags- og tilfinningafærni,“ bætir Bryndís Jóna við. 

Viðhalda og efla þarf sjálfstiltrú kennara og draga úr streitu

Töluvert hefur verið rætt um mönnunarvanda í skólakerfinu að undanförnu og Bryndís Jóna undirstrikar að skoða þurfi alvarlega hvað hægt sé að gera til að efla farsæld kennara og gera kennslu að aðlaðandi starfsvettvangi. „Nýliðun er vandi bæði hér á landi og erlendis auk þess sem við erum að horfa á sterkar vísbendingar um að fjöldi kennara og skólastjórnenda hér á landi sjái sig ekki í starfi innan skóla eftir fimm ár. Það er þekkt á alþjóðavísu að kennarastarfinu fylgir mikið álag og streita. Það þarf því bæði að undirbúa verðandi kennara til að takast á við fjölþætt starf sem og styðja starfandi kennara. Í því felst ekki bara að vera búa yfir faglegri þekkingu, sem er auðvitað mjög mikilvæg, heldur einnig að hafa persónulega færni til að takast á við þær áskoranir sem fylgja starfinu,“ segir hún.

Mikilvægt sé að hafa í huga að um flókna mynd er að ræða og horfa þurfi til fjölmargra þátta þegar hugað er að farsæld í skólastarfi. Engar töfralausnir blasi við í þeim efnum en ef hægt sé að finna leið til að viðhalda og efla sjálfstiltrú kennara og draga úr starfstengdri streitu þá sé til mikils að vinna. „Við þurfum að vera heiðarleg og skoða heildrænt það kerfi sem við höfum komið upp, horfa gagnrýnið á starfsaðstæður og umhverfi og jafnframt að skoða leiðir til að efla persónulega færni  eins og sjálfstiltrú og félags- og tilfinningafærni. Við vonumst til að fá vísbendingar um hvort núvitund geti verið einn liður í því að hlúa að farsæld kennara sem eru auðvitað lykilaðilar í þróun farsæls skólastarfs,“ segir Bryndís að lokum um mikilvægi rannsóknarinnar. 

Doktorsrannsóknina vinnur Bryndís Jóna undir leiðsögn prófessoranna Ólafs Páls Jónssonar og Kristjáns Kristjánssonar og í samstarfi við Ingibjörgu Völu Kaldalóns og Kristján Ketil Stefánsson, fræðafólk við Mennavísindasvið, áðurnefnda Önnu Dóru ásamt Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur hjá Embætti landlæknis og Lisu Juul, fræðikonu við Árósaháskóla, sem er leiðandi á þessu rannsóknarsviði þar í landi. 

Bryndís Jóna Jónsdóttir