Skip to main content
28. ágúst 2024

Gervigreindin í ómi hljóðfæranna

Gervigreindin í ómi hljóðfæranna - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Við erum að rannsaka hvernig gervigreind kemur inn í samfélagið. Við erum að skoða þær hugmyndir og þá orðræðu sem verður til þegar við förum að nota gervigreind í daglegu lífi okkar. Við notum hljóðfæri og tónlist sem vettvang til að rannsaka þetta. Við erum sem manneskjur mjög tengdar tónlist og hljóðfærum.” Þetta segir Þórhallur Magnússon, rannsóknaprófessor í í tilraunakenndum hugvísindum við HÍ, en verkefni sem hann leiðir hlaut tveggja milljóna evra styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu (ERC). Rannsóknin sem Þórhallur leiðir kallast Intelligent Instruments og spannar svið tónlistar, gervigreindar og hugvísinda samhliða því sem hún skapar alþjóðlegan vettvang til þverfaglegs samstarfs milli háskóla og menningarstofnana.

Styrkurinn er m.a. veittur fyrir snjallhljóðfæri en Þórhallur segir verkefnið felist einmitt í að þróa hljóðfæri sem vísindafólkið gefi frá sér til notkunar úti í samfélaginu þar sem spilað sé á þau. Auk þess sé spilað á hljóðfærin á tónleikum og haldnar séu sérstakar vinnustofur. 

„Á þann hátt náum við að koma rannsóknum okkar út til samfélagsins og á sama tíma að nota þessar aðferðir til að skilja betur áhrif gervigreindar. Með þessu eykst skilningur fólks almennt á gervigreind  og við fáum betri orðræðu inn í samfélagið um gervigreind og þær hættur og þau vandamál sem geta komið upp. “

Þórhallur segir að hljóðfærunum eða tónlistartækjunum sé beitt til að skoða hugmyndir um siðferði, höfundarrétt, sköpun, atbeina hljóðfæra og atbeina tækni, þ.e. hvernig tækni hafi áhrif á hugsun okkar. Hann bætir því við að ætlunin sé að búa til eðlilegra og þægilegra samband okkar við gervigreind og öðlast betri skilning á henni. 

Hörð samkeppni um ERC-styrkina

Eins og áður kom fram hlaut verkefni Þórhalls ERC-styrk en meginmarkmið þeirra er að hvetja til hágæðagrunnrannsókna í Evrópu. Samkeppni um styrki frá ráðinu er gríðarhörð. Árlega berast þúsundir umsókna en aðeins lítill hluti þeirra fær styrk. Átta vísindamenn sem starfa við eða tengjast Háskóla Íslands hafa á undanförnum árum fengið slíka styrki ásamt rannsóknarhópum sínum. Þeir starfa á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands.

Það er mjög ánægjulegt að sjá þann fjölda ERC-styrkja sem hefur verið veittur vísindafólki sem nú stundar rannsóknir við skólann eða hefur gert það á síðustu árum. „ERC-styrkirnir eru afar eftirsóttir og aðeins veittir framúrskarandi vísindafólki,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, um þessa mikilvægu styrki. „Öllum er frjálst að sækja um slíka styrki en krefjandi forval fer fram áður en umsækjendur komast í þrengri hóp. Háskóli Íslands hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á að veita umsækjendum um rannsóknastyrki markvissan stuðning og er árangurshlutfall skólans til marks um að sú vinna sé að skila sér.“

Intelligent Instruments hlýtur tvenn verðlaun í september

Núna í september taka aðstandendur verkefnisins Intelligent Instruments við tvennum verðlaunum sem bæði verða veitt á Ars Electronica hátíðinni í Linz í Austurríki.

Evrópusambandið veitir önnur verðlaunin eða svokölluð Citizen Science Award. Þau falla í hlut rannsóknarverkefna fyrir samfélagsleg og stjórnmálaleg áhrif til aukinnar þróunar í átt að fjölmenningarlegu og sjálfbæru samfélagi í Evrópu án aðgreiningar.
Í niðurstöðu valnefndar verðlaunanna segir að Intelligent Instruments nýti tónlist til að rannsaka áhrif gervigreindar á sköpun og samfélag, það veki upp mikilvægar spurningar um afleiðingar gervigreindar í tengslum við siðfræði, tækniþróun og aðgengi að tækni. 

Í verkefninu sé unnið á þverfaglegan hátt þar sem innsýn tæknigreina og hugvísinda renna saman. Þá hafi aðstandendum verkefnisins tekist að virkja almenning í opnum vinnustofum og viðburðum á framúrskarandi hátt. Með þessu móti hafi tekist að hvetja til samtals og hafa áhrif á stefnumótun. Þannig hafi skapandi aðferðir verkefnisins auðgað evrópskt rannsóknasamfélag.

Hin verðlaunin sem rannsóknarverkefnið hlýtur kallast Prix Ars Electronica og eru í flokknum gervigreind í listum. Prix Ars Electronica eru ein helstu og elstu alþjóðlegu verðlaunin í nýmiðlalistum (e. media arts) og er ætlað að hvetja til samspils lista, tækni og samfélags

Þórhallur Magnússon