Skip to main content
3. febrúar 2025

Fjölbreyttar tækninýjungar frá HÍ á UTmessu

Fjölbreyttar tækninýjungar frá HÍ á UTmessu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áhrif netárása á innviði á Íslandi sýnd með LEGO-módeli, Jökulsárlón og stórbýli sem lagðist í eyði við lok litlu ísaldar í sýndarveruleika, gagnvirk kort sem sýna mismunandi hliðar á náttúru og mannlífi heimsins, framtíð menntunar með gervigreind, rafmagnsknúinn kappakstursbíll og prjónavélar sem nýta stafræna tækni. Allt þetta og meira til verður á sýningarsvæði Háskóla Íslands á UTmessunni sem fram fer í Hörpu dagana 7. og 8. febrúar. Jafnframt verður hin sívinsæla Hönnunarkeppni Háskóla Íslands haldin samhliða UTmessunni.

UTmessan hefur verið haldin árlega síðan 2011 og er stærsta hátíð ársins fyrir öll sem hafa áhuga á tækni. Markmið UTmessunnar er að sýna hversu fjölbreyttur og kraftmikill tæknigeirinn er á Íslandi en þar má jafnan kynna sér það nýjasta sem er að gerast í tölvu- og tækniheiminum hverju sinni. Á hverju ári taka þátt fjölmörg fyrirtæki innan tæknigeirans auk háskóla og annarra stofnana.

Eins og fyrri ár nær UTmessan yfir tvo daga; á föstudeginum 7. febrúar er ráðstefnudagur fyrir fagfólk í tæknigeiranum sem lýkur með afhendingu upplýsingatækniverðlauna Ský 2025. Á laugardeginum verður tæknidagurinn sem opinn er öllum áhugasömum, ungum sem öldnum. Þar gefst gestum kostur á að kynna sér ýmsar tækninýjungar og upplifa um leið töfra tækninnar.

Hönnunarkeppni HÍ haldin samhliða tæknidegi

Sem fyrr segir fer Hönnunarkeppni HÍ fram samhliða tæknidegi UTmessunnar og verður það í 33. sinn sem keppnin er haldin. Hún er skipulögð af nemendum í véla- og iðnaðarverkfræði og gengur út á að hanna tæki sem geta leyst ýmsar þrautir á stuttri þrautabraut. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir efstu þrjú sætin en jafnframt verða veitt verðlaun fyrir áhugaverðustu hönnunina.

Sýndarveruleiki, gervigreind og LEGO á tæknidegi

Það verður líf og fjör á svæði Háskóla Íslands í Silfurbergi á laugardeginum þar sem gestir fá tækifæri til að kynnast fjölbreyttum verkefnum og tækninýjungum innan ólíkra fræðigreina. Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista tekur þátt á UTmessunni í fyrsta sinn og kynnir fyrir gestum hvernig nýta má stafræna tækni í þágu rannsókna á sviði hugvísinda og lista, til dæmis þrívíddarskönnun á fornmunum, stafræna tækni við lestur handskrifaðra skjala og sögulegt mann- og bæjatal á vefnum. 

Gestir munu einnig geta kynnt sér nýstárlega tækni á sviði menntunar og hvernig má nýta gervigreind til að móta menntun framtíðarinnar. Þá verður hægt að læra um netárásir, netöryggi og svikapósta, skoða hlutverk tölvugrafíkur við gerð mynda, myndbanda og tölvuleikja en einnig til að skoða og segja sögu loftslagsbreytinga á sjónrænan hátt. Jafnframt verður hægt að sjá Jökulsárlón og stórbýli sem lagðist í eyði við lok litlu ísaldar með hjálp sýndarveruleika. 

Þá verður hægt að teikna á tölvu með stafrænum penna, sjá hvernig má stjórna byggingarkrönum með þráðlausum IoT-tækjum, koma með hugmyndir að nýtingu lands á hálendinu, skoða yfir 500 gagnvirk kort sem sýna ólíkar hliðar á náttúru og mannlífi heimsins, sjá hvernig skammtatölvur og skammtatækni munu umbylta tölvutækni, samskiptum og skynjun í framtíðinni, kynna sér prjónavélar sem prjóna eftir stafrænum mynstrum, læra um nýja tækni á sviði máltæknilausna fyrir sjálfvirka greiningu á málsýnum og kynna sér allt um verkefni og reynslu kvenna og kvára í tölvunarfræði við HÍ.

Fyrir öll áhugasöm um LEGO verða Íslandsmeistarar First LEGO League á staðnum og hjálpa gestum að leysa þrautir með LEGO-kubbum og forrituðum LEGO-vélmennum. Einnig verður hægt að sjá áhrifin sem netárásir geta haft á innviði Íslands og fylgjast með atburðarásinni á LEGO-módeli.

Þar að auki munu nemendur í Team Spark, kappakstursliði HÍ, sýna og fræða gesti um rafmagnsknúinn kappakstursbíl og Vísindasmiðjan mun leiða gesti inn í leyndardóma vísindanna með ýmsum tilraunum og smiðjum fyrir alla fjölskylduna.

Allar nánari upplýsingar um UTmessuna má finna á vef ráðstefnunnar en tæknidagurinn á laugardag er opinn öllum meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. 

Frá UTmessu