Fjölbreytt framlag HÍ í Nýsköpunarvikunni
Nýsköpun í þágu menntunar, rannsóknir á framlagi tölvuleikjaspilara EVE Online til leiksins, ný tækifæri fyrir vísindafólk og afhending Vísinda- og nýsköpunarverðlauna Háskóla Íslands er meðal þess sem Háskóli Íslands býður upp á í samstarfi við ýmsa aðila í hinni árlegu Nýsköpunarviku (Innovation Week Iceland) sem fram fer dagana 22.-26. maí.
Hátíðin er nú haldin í fjórða sinn og líkt og í fyrra fer stór hluti viðburða fram í Grósku, hjarta nýsköpunar í Vatnsmýri í landi Vísindagarða skólans. Markmið vikunnar er að fagna og draga fram það fjölbreytta nýsköpunarstarf sem fram fer á Íslandi, bæði meðal frumkvöðla, fyrirtækja og stofnana. Alþjóðlegur blær mun einnig svífa yfir vötnum því Norrænu nýsköpunarverðlaunin (The Nordic Startup Awards Grand Finale) verða einnig veitt í vikunni.
Háskólinn er einn af bakhjörlum hátíðarinnar og lætur eins og áður töluvert að sér kveða í vikunni, bæði í viðburðum og með miðlun af ýmsu tagi.
Skólinn býður til að mynda upp á fyrsta viðburðinn í Nýsköpunarvikunni en það er afhending árlegra Vísinda- og nýsköpunarverðlauna skólans mánudaginn 22. maí kl. 9-10.30 í Hátíðasal Aðalbyggingar. Verðlaunin eru nú veitt í 25. sinn og bárust yfir 40 tillögur í samkeppnina að þessu sinni. Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun auk þess sem sigurvegari keppninnar verður valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum.
Þennan sama dag kl. 16.30 stendur Alvotech fyrir viðburðinum „Vöxtur hátækni og uppeldi nýrrar kynslóðar vísindafólks“ (Growing a high-tech industry and raising the next generation of scientists) í Fenjamýri í Grósku í samstarfi við Háskóla Íslands. Þar verður fjallað um meistaranámsleið í iðnaðarlíftækni sem Alvotech og Háskóli Íslands settu á laggirnar í sameiningu fyrir nokkrum misserum til að fjölga tækifærum fólks í STEM-greinum (vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði). Á viðburðinum fjalla Lilja Kjalarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Alvotech, og Páll Þór Ingvarsson, lektor við Lyfjafræðideild, um samstarfið og þær Sigrún Rósa Hrólfsdóttir og Guðrún Jóna Baldursdóttir, sem báðar hafa lokið MS-prófi í iðnaðarlíftækni, segja frá lokaverkefnum sínum. Viðburðurinn er öllum opinn og fer fram á ensku.
Miðvikudaginn 24. maí kl. 14 bjóða CCP og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands upp á sameiginlegan viðburð undir yfirskriftinni „How to build an Innovation Community“ í húsakynnum CCP í Grósku. Þar munu Magnús Þór Torfason, dósent við Viðskiptafræðideild, og Ana Orelj, doktorsnemi við sömu deild, kynna rannsókn sína á því CCP hvernig nýtir sér ábendingar og endurgjöf frá þeim sem spila tölvuleikinn EVE Online til að bæta upplifun í leiknum. Auk þeirra flytur Bergur Theódórsson frá CCP erindi á viðburðinum.
Dagana 25. og 26. maí stendur Nýsköpunarstofa menntunar svo fyrir tveimur viðburðum þar sem kastljósinu beint að nýsköpun í þágu formlegrar og óformlegrar menntunar. Fulltrúar skólafólks, fræðasamfélags, frumkvöðla og stefnumótenda munu þar leitast við að svara spurningum sem gera má ráð fyrir að varpi ljósi á möguleika til þróunar á skóla- og frístundastarfi á komandi árum.
Auk þessa taka fulltrúar Háskólans þátt í fjölmörgum viðburðum eins og lesa má nánar um í dagskrá Nýsköpunarvikunnar.