Er gott fyrir börn að vera send í sveit?
„Blessuð sértu, sveitin mín, sumar, vetur, ár og daga,“ orti Sigurður Jónsson á Arnarvatni. Fyrir honum var sveitin uppspretta alls í veraldlegum og andlegum skilningi. Gríðarlegur fjöldi íslenskra borgarbarna þekkir það á eigin skinni að hafa verið send í sumardvöl í sveit og sjálfsagt hafa einhver þeirra svipaða mynd í huga og Sigurður Jónsson þótt á því sé allur gangur. Niðurstöður rannsókna við Háskóla Íslands á þessum sérstaka sið hafa bent til þess að oft hafi vel tekist til þó í einstaka tilvikum hafi raunin verið önnur og börnunum því ekki liðið nógu vel.
Séríslenskur siður – Sumardvöl í sveit
Þessi séríslenski siður varð í raun til um leið og þéttbýli myndaðist hérlendis. Þótt miklu færri börn séu send til sumardvalar í sveit nú en áður tíðkast það enn segir Hervör Alma Árnadóttir, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún rannsakar nú úrræðið „sumardvöl í sveit“ sem félagsmálayfirvöld í Reykjavík hafa boðið fjölskyldum, sem búa við félagslega erfiðleika, fyrir börn sín allt frá lokum sjöunda áratugarins fram til dagsins í dag.
„Allt frá stofnun félagsmálastofnunar 1967 hefur fjölskyldum sem þangað leita vegna bágra aðstæðna verið boðið að senda börn sín til sveitardvalar. Úrræðið hefur lítið verið rannsakað. Því þótti ærin ástæða að skoða sögu úrræðisins og reynslu þeirra sem komu að því. Tekin voru viðtöl við sveitarfólk sem vann við það að taka á móti börnum til dvalar sem og fólk sem hafði nýtti sér úrræðið. Einnig var rætt við fagfólk sem hafði starfað við það að senda börn til dvalar í sveit og sinntu eftirliti,” segir Hervör Alma sem er sjálf alin upp í sveit og kynntist því mörgum börnum sem send voru til sumardvalar.
„Vegna tengsla minna við sveitina og reynslunnar þaðan vakti efnið strax áhuga minn þegar Anni Guðný Haugen, samstarfskona mín og fyrrverandi kennari í félagsráðgjöf við HÍ, bauð mér til samstarfs um rannsókn á þessu sviði. Báðar höfðum við starfað sem félagsráðgjafar við félagsþjónustu en hvor á sínu tímabilinu, þar sem störf okkar fólust meðal annars í því að senda börn í sveit. Reynsla okkar spannaði um 30 ára tímabil, Anni á upphafsárum frá 1977 og ég í lok blómaskeiðs úrræðisins frá 1998 sem skapaði áhugaverða breidd. Það fylgdi þessu starfi að fara í sveitardvalareftirlit, sem fól í sér að heimsækja börnin í sveitina á meðan á dvöl þeirra stóð. Sú reynsla af úrræðinu ýtti líka undir áhugann minn.“
Hluti af stærri rannsókn
Rannsókn Hervarar Ölmu er hluti af stærra verkefni sem kallast „Óháður flutningur íslenskra barna á 20. öldinni“, sem Jónína Einarsdóttir prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild leiðir. Jónína hefur skoðað þennan sið frá mörgum hliðum og m.a. með sérstaka áherslu á kynjamun í framkvæmd hans. Miklu fleiri drengir voru enda sendir í sveit en stúlkur. Ekki þarf nákvæmari mælingar en google til að fá fram vísbendingu um þetta. Ef slegið er inn „sendur í sveit“ í google fást hartnær níu þúsund niðurstöður en „send í sveit“ kallar fram röskleg fjögur þúsund niðurstöður, eða um það bil helmingi færri.
Jónína hefur bent á að í sveitinni hafi vinnufær börn þurft að sinna störfum í samræmi við viðurkennda verkaskiptingu kynjanna. Óvinnufær börn hafi hins vegar verið í umsjá bændakvenna eða verið send á sumardvalarheimili.
Miklar breytingar í sveitinni
„Líf til sveita hefur breyst mikið á síðustu áratugum, vélar tekið yfir störf sem áður voru unnin af fólki þar á meðal börnum. Því finnst mér gríðarlega áhugavert að skoða hvernig úrræðið hefur þróast og hvernig það samræmist samtíma hugmyndum um velferðarþjónustu sem hafa breyst talsvert á síðustu 50 árum. Breytingarnar hafa verið m.a. verið í átt til þess að efla þjónustu í nærsamfélagi og styrkja fjölskyldur á heimilum sínum til að takast á við uppeldishlutverkið,“ segir Hervör Alma. Hún bætir því við að árið 1971 hafi 144 börn verið send til sveitardvalar frá borginni en þau voru 10 árið 2018. „Frá upphafi hafa fleiri drengir verið sendir til sveitardvalar en stúlkur. Í upphafi var líka lögð áhersla á að börn kynntust sveitarlífi og tengdust bændunum enda var algengur dvalartími um tveir til þrír mánuðir. Síðar virðist tilgangurinn verða fremur óljós og dvalartími kominn niður í tíu til fjórtán daga. Sveitardvölin varð því allt önnur í eðli sínu og börnin kannski fremur sem gestir en hluti heimilisfólksins.“
Hervör Alma segir að eins hafi sá hópur barna, sem fékk þetta tækifæri, breyst á þá leið að í upphafi virðist úrræðið hafi verið ætlað börnum sem bjuggu við fátækt en virðist hafa þróast í að vera ætlað börnum sem eigi við hegðunarerfiðleika að stríða og geti illa nýtt sér úrræði sem bjóðist í borginni. „Þetta kom sterkt fram í viðtölum okkar við sveitarfólkið en það saknaði margt þeirra tíma þegar „venjuleg börn“ komu til dvalar og taldi sig oft illa í stakk búið til að takast á þann vanda sem síðar var við að stríða.“
„Líf til sveita hefur breyst mikið á síðustu áratugum, vélar tekið yfir störf sem áður voru unnin af fólki þar á meðal börnum. Því finnst mér gríðarlega áhugavert að skoða hvernig úrræðið hefur þróast og hvernig það samræmist samtíma hugmyndum um velferðarþjónustu sem hafa breyst talsvert á síðustu 50 árum. Breytingarnar hafa verið m.a. verið í átt til þess að efla þjónustu í nærsamfélagi og styrkja fjölskyldur á heimilum sínum til að takast á við uppeldishlutverkið,“ segir Hervör Alma.
Kaldur raunveruleikinn og skáldskapur
Sumardvöl í sveit hefur í raun ekki bara orðið partur af veruleika margra því hún hefur líka ratað í menninguna og skáldskapinn. Því hafa miklu fleiri en bara þeir sem sendir voru í sveit fengið nasasjón af eðli þess að fara frá foreldrum sínum í sumarlanga vist fjarri skarkalanum í borginni.
Ef við beinum sjónum að skáldskapnum og sveitardvölinni á þeim vettvangi er býsna nærtækt að nefna drenginn í bók Péturs Gunnarssonar, „Punktur, punktur, komma, strik“ sem fer sumarlangt í sveit og það sama gerist í kvikmyndinni Bíódagar eftir Friðrik Þór Friðriksson – í báðum tilvikum er sveitin heillandi og framandi heimur á margan veg. Stúlkan unga í Svaninum eftir Guðberg Bergsson er líka send í sveit en þangað fer hún til að bæta fyrir brot sín. „Ung stúlka hnuplaði samlokum í stórmörkuðum í Reykjavík. Til að refsa henni senda foreldrar hennar hana í nokkra mánuði út í sveit til ókunnugs bónda. Í gömlu Íslendingasögunum frá 13. öld voru stórglæpamenn sendir á sama hátt inn í óbyggðir,“ segir rithöfundurinn Milan Kundera í grein í vikuritinu Le Nouvel Observateur. Hæpið er að þessi skáldlega fullyrðing Kundera eigi alltaf við um útlegðina því margir af þeim sem fóru í sveit upplifðu þar allt annað en refsingu. Í samtölum sem Jónína Einardóttir hefur átt við einstaklinga sem sendir voru í sveit hefur komið fram að margir áttu þar ánægjulega dvöl og upplifðu ákveðið frelsi, jafnvel þótt þeir hafi þurft að vinna fullan vinnudag allt sumarið. Jafnvel eru dæmi um að einstaklingar sem sendir voru í sveit hafi fengið börn sín skírð í höfuð bændafólksins.
Sendur í sveit líka í útvarpinu
En það eru ekki bara fræðimenn og skáld sem beina sjónum að sveitardvöl því siðurinn hefur fengið talsverða umfjöllun í útvarpi. Þátturinn „Sendur í sveit“, sem unnin var af Mikael Torfasyni blaðamanni og rithöfundi, var á öldum ljósvakans fyrir fáeinum misserum. Mikael var sjálfur sendur í sveit sex ára gamall og í þáttunum heimsótti hann þá sex sveitabæi sem hann dvaldi á og fjallaði um þau áhrif sem dvölin hafði á hann sjálfan, foreldrana og ábúendur á bæjunum.
Það er afar áhugavert að sjá hvernig fólk úr ýmsum áttum, rithöfundar, kvikmyndagerðarmenn og blaðamenn nálgast þennan sérstaka veruleika. Það er líka afar mikilvægt að rannsaka þennan sið, eins og Hervör Alma gerir nú, og sjá hver áhrifin hafa orðið á okkur sjálf, ekki bara á okkur sem einstaklinga og fjölskyldur – heldur líka sem þjóð þar sem gríðarlega stór hluti hennar fluttist úr sveit í borg á örfáum áratugum með miklu samfélagslegu umróti.
Krafa um gagnreynda nálgun í samtímanum
„Rannsóknir eins og sú sem ég vinn nú að er mikilvægur þáttur í þróun okkar eigin samfélags, við stefnumótun og í þróun velferðarþjónustu,“ segir Hervör Alma, þegar hún er spurð út í samfélagslegt gildi rannsóknarinnar. „Rannsókn okkar bendir til þess að sú ákvörðun að senda barn í sveit virðist í dag fremur einkennast af gömlum hugmyndum um sveitarlíf og því oft hafin yfir hugmyndafræðilegar breytingar um það hvernig fagleg þjónusta er veitt og hvers konar þjónusta er líklegust til að skila fjölskyldum árangri.”
Hervör Alma segir að í samtímanum sé gerð krafa til þess í félagslegri þjónustu að ákvarðanir um stuðning séu byggðar á gagnreyndri nálgun. Úrræði séu þróuð í takt við samtímaáherslur, hvað sé best á hverjum tíma út frá rannsóknarniðurstöðum, reynslu fagfólks og þörfum notenda.