Skip to main content
6. mars 2023

Unnið að auknu framboði háskólanáms fyrir fólk með þroskahömlun

Unnið að auknu framboði háskólanáms fyrir fólk með þroskahömlun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands hafa tekið höndum saman um að vinna að þróun, uppbyggingu og samvinnu milli skólanna um inngildandi nám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fulltrúar háskólanna undirrituðu samning tengdan verkefninu fyrir helgi en það felur í sér 16,5 m.kr. fjárstuðning til ráðningar verkefnastjóra sem leiða mun verkefnið, hafa starfsskyldu í öllum háskólunum og tryggja þannig samstarf og aðkomu allra skólanna að verkefninu. Samhliða þessu fer ráðuneytið yfir löggjöf, reglugerðir og fjármögnun námsins með það að markmiði að styðja við uppbyggingu þess.

„Það er mjög ánægjulegt að skólarnir taki sig saman til að stuðla að fjölbreyttara námi fyrir fatlað fólk og auknu aðgengi þess hóps að háskólanámi. Það er mikilvægt að auka aðgengi þessa hóps að slíku námi á landsbyggðinni og að fjölbreyttara námi en nú er í boði,“ segir Áslaug Arna. 

Fleiri eigi kost á háskólanámi

Í verkefninu er það hlutverk HÍ að miðla þekkingu til hinna skólanna og stuðla að frekari þróun innan skólans svo námið nái inn á önnur fræðasvið. HA mun koma á fót sambærilegu námi og LHÍ mun skoða möguleika skólans á því að bjóða einnig upp á slíkt nám. Skólarnir þrír eru í dag á mismunandi stað hvað varðar inngildandi nám fyrir fólk með þroskahömlun en með samvinnu er unnt að styrkja stoðir námsins, auka gæði þess og fjölbreytileika og tryggja að fleira fólk með þroskahömlun eigi kost á háskólanámi hér á landi.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur áherslu á inngildandi samfélag og inngildandi skólastarf á öllum skólastigum. Í dag eru þó tækifæri fólks með þroskahömlun til náms að loknu framhaldsskólanámi afar takmörkuð og eina samfellda námið í boði er starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun sem hefur verið starfrækt hér á landi síðan haustið 2007 og heyrir í dag undir Menntavísindasvið HÍ. Með samstarfi HÍ, HA og LHÍ og samningi þeirra við ráðuneyti háskólamála verður því mikil framför á þessu sviði með fleiri tækifærum fyrir fólk með þroskahömlun sem hefur áhuga á að stunda nám á háskólastigi.
 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fulltrúar háskólanna undirrituðu samning tengdan verkefninu í Grósku fyrir helgi. Frá vinstri: Hulda Stefánsdóttir, sviðsforseti akademískrar þróunar hjá Listaháskóla Íslands, Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra , Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, og Kolbrún Pálsdóttir, sviðsforseti Menntavísindasvi