Skip to main content
6. október 2021

Árleg friðarráðstefna Höfða helguð trausti og sjálfbærum friði

Árleg friðarráðstefna Höfða helguð trausti og sjálfbærum friði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Stofnun Sæmundar fróða og Jafnréttisskólann (GRÓ GEST) fer fram 8. október í Veröld - húsi Vigdísar kl. 12-17. Í ár er áherslan á mikilvægi trausts fyrir sjálfbæran frið og friðarmenningu. Ráðstefnan fer fram á ensku og verður í beinu streymi.

Dagskrá ráðstefnunnar

Það er við hæfi að á þessum krefjandi tímum heimsfaraldurs, þar sem reynt hefur verulega á traust til alþjóðasamstarfs, hafi Sameinuðu þjóðirnar lýst því yfir að árið 2021 skuli vera alþjóðlegt ár trausts og friðar. Árangur alþjóðlegra stofnana byggir á að ríki og almenningur treysti þeim og líti á ógnir samtímans sem alþjóðlegar ógnir sem leysa þurfi í sameiningu. Hefur traust til alþjóðasamstarfs dvínað? Ef svo er, hvernig getum við þá tekist á við stærstu áskoranir og ógnir samtímans? Hvernig þróum við alþjóðlega borgaravitund með almenningi og virkjum almenna borgara til aðgerða?

Friðarráðstefnan í ár samanstendur af þremur málstofum sem snúa með ólíkum hætti að mikilvægi trausts fyrir sjálfbæran frið og friðarmenningu.

12.45 – 13:45 Broken Promises? The International Community and Afghanistan

Á málstofunni verður fjallað um ástandið í Afganistan og ábyrgð alþjóðasamfélagsins á stöðu mála. Hvert er hlutverk alþjóðasamfélagsins þegar kemur að því að standa vörð um mannréttindi, vernd flóttafólks og friðarumleitanir á svæðinu?

14:00 – 15:00 Global Citizenship Education for Peace

Hvernig þróum við alþjóðlega borgaravitund og virkjum almenna borgara til aðgerða? Á málstofunni verður lögð áhersla á það hvernig nýta megi bókmenntir sem hreyfiafl til breytinga, til þess að auka samkennd milli ólíkra einstaklinga og efla gagnrýna hugsun.

15.15 – 16:15 Addressing the Impact of Climate Change on Peace

Á þessari málstofu veltum við fyrir okkur áhrifum loftslagsbreytinga á frið og öryggi í heiminum og mikilvægi þess að ríki, borgir og almenningur vinni saman á alþjóðavettvangi að úrlausnum á þessari alþjóðlegu ógn.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og var yfirmaður Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna á árunum 2009-2017, Fawzia Koofi, fyrrverandi þingkona á afganska þinginu og baráttukona fyrir réttindum kvenna, pakistanska baráttukonan Gulalai Ismail, stofnandi samtakanna Aware Girls, mexíkóski rithöfundurinn Juan Pablo Villalobos, höfundur bókarinnar Veislan í greninu, og Sanam Naraghi-Anderlini, forstöðukona Centre for Women, Peace and Security við LSE og stofnandi og stjórnarformaður International Civil Society Action Network (ICAN). 

Öll velkomin meðan húsrúm leyfir!

Hendur

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands er helguð mikilvægi trausts fyrir sjálfbæran frið og friðarmenningu.